Breiðholtsblaðið - 01.03.2006, Blaðsíða 8

Breiðholtsblaðið - 01.03.2006, Blaðsíða 8
MARS 20068 Breiðholtsblaðið Guðrún Þórsdóttir, skólastjóri Vinnuskóla Reykjavíkur, flutti eitt af framsöguerindunum á málþingi um félagsstarf og félagsþjónustu eldri borgara sem efnt var til í tengslum við Breiðholts-menning- arhátíð eldri borgara síðustu helg- ina í febrúar. Erindi Guðrúnar vakti athygli m.a. annars fyrir hug- myndir hennar um hvað eldri borg- arar gætu hafst að og einnig fyrir að ástæðulaust væri að ýta fólki úr störfum á meðan það hefði fulla starfsorku og óbilandi vilja til þess að taka þátt í atvinnulífi. Breið- holtsblaðið hitti Guðrúnu að máli eftir málþingið og fékk hana til þess að ræða þessi mál frekar, þar á meðal tengingu Vinnuskólans við starf eldri borgara. Að leiða kynslóðir saman „Ég hef unnið mikið með eldra fólki í gegnum tíðina en ef við tölum um tengingu Vinnuskólans við starf með þeim aldurshópi þá sé ég að hlutverk hans geti verið að leiða yngri og eldri borgara saman og búa þannig til farveg fyrir þá eldri að komast inn í heim þeirra yngri. Eldri borgarar búa jafnan að mikilli reynslu sem þeir hafa öðlast á langri leið í gegnum lífið og sú reynsla get- ur í mörgum tilvikum nýst yngra fólki. Með því að gerast það sem köllum „hollvinur“ má tengja kyn- slóðir saman með því að eldri og yngri borgarar hittast með skipuleg- um hætti og ræða saman um ein- hver tiltekin málefni og að útkoman yrði báðum aðilum til ánægju.“ Guðrún segir að jafningjafræðsla hafi mikið verið notuð að undan- förnu en minna hafi verið um að fræðslu á milli kynslóða. „Sú aðferð að leiða mismunandi kynslóðir sam- an fær lítinn tíma eða rúm inni í hinu hefðbundna skólastarfi en vegna þess að Vinnuskólinn er starfræktur með óhefðbundnu sniði og er ekki bundinn við hús eða skólastofur í þess orðs merkingu. Hann hefur því betri möguleika til þess að skapa þessa tengingu og nálgun sem þarf til að heimspekingurinn í ungmenn- unum fái að mæta aðilum sem geta svarað honum og þeir eldri fá tæki- færi til þess að ausa úr skálum sinn- ar margvíslegu reynslu. Þetta er einn þátturinn af samtali milli kynslóða sem Vinnuskólinn mun byrja með í sumar. En svo á ég mér draum um að í framtíðinni verði til einhvers- konar skóli sem miðast við áhuga- svið fólks en sé algerlega óháður aldri nemenda. Þannig að einstak- lingar allt frá sjö ára til sjötugs geti komið saman. Námsleiðir í slíkri stofnun myndu algerlega byggjast á áhugasviðum en aldur, menntun og reynsla skiptu ekki máli að öðru leyti en því að fólk miðlaði mismunandi þekkingu og reynslu sín á milli.“ Ómur af gamalli hugsun Guðrún segir að í framtíðinni þurfi að teikna þetta aldursrof á milli kyn- slóðanna út vegna þess að í dag lifi margt eldra fólk heilsusamlegu og farsælu lífi og hafi starfsgetu jafnvel allt fram undir nírætt. Í þessu felist mikil breyting frá árum áður þegar fólk hafi verið útbrunnið, jafnvel um sextugt eins og í gamla bændasamfé- laginu. „Fólk vann bara á meðan það gat, eitthvað fram yfir sextugt, og eft- ir það var ekki gert ráð fyrir öðru en það fengi að liggja í sínu fleti þar til yfir lauk. Því miður ómar enn eftir af þessari gömlu hugsun þegar málefni eldri borgara eru annars vegar. Fólk er teiknað út af vinnumarkaðinum um 67 ára aldur því þá á það bara að fara heim í sitt flet.“ Guðrún segir óþolandi þegar sett eru jafnaðarmerki á milli eldri borg- ara og þjónustuíbúða. „Þjónustuí- búðir eiga ekki að vera á oddinum þegar málefni eldri borgara eru ann- ars vegar þótt þær þurfi að vera til staðar fyrir þá sem þurfa nauðsyn- lega á þeim að halda. Eldri borgarar eiga að vera virkir þátttakendur í þjóðfélaginu. Þeir eiga að taka virkan þátt í stefnumótun þar sem reynsla þeirra nýtist áfram. Við erum að henda svo miklu með því að taka eldra fólkið úr leik. Það felst mikill fórnarkostnaður í því að útiloka fólk- ið sem hefur alla þessa reynslu frá því að taka þátt í hugmyndavinnu um hvað skipti máli í lífinu og hvers virði sé að verja tíma sínum til hinna mismunandi verkefna. Þessa þætti vantar algerlega inn í umræðuna og þess vegna hef ég lagt til að opna einhverja samskiptaleið eða fjöl- miðlarás þar sem fjallað verði um gildismatið á því hvað skipti máli í lífinu.“ Guðrún segir að gildismat dagsins í dag sé afskaplega flatt. Það tengist fjármagni, hraða og hugsun- inni um að fá mikið fyrir lítið. „Græð- gin er búin að festa rætur í hugskoti unga fólksins og ræna það eðlilegu mati á hvað það er sem skiptir máli. Lífshamingjan er fólgin í fleiru en jeppa, heimabíói og öðru sem heyrir til dýrum lífsstíl.“ Erum að glata tækifærum „Mér finnst þessi hugsun einnig koma fram í umræðunni sem nú á sér stað um að stytta framhaldsskól- ann,“ heldur Guðrún áfram. „Við höf- um verið að útskrifa fólk með meiri þroska heldur en tíðkast hjá ná- grannaþjóðum okkar einfaldlega vegna þess að unga fólkið hefur fengið að starfa við fleira en bein- harðar námsbækurnar. Ungmennin hafa fengið að taka þátt í félagslífi, í atvinnulífinu og ýmsu frjóu starfi öðru en bóknámi og hafa þar af leið- andi fengið að kynnast sjálfum sér betur og styrkeika sínum og fara þannig mótaðri sem einstaklingar út í lífið. Þetta hefur þótt eftirsóknar- vert á meðal erlendra háskóla þar sem litið hefur verið á Íslendinga sem fólk sem kann að vinna. Með því að stytta framhaldsskólann þá finnst mér að við séum að henda þessum tækifærum alveg eins og við erum að henda reynslu eldri borgara með því að sópa þeim af vinnumarki um 67 ára aldur og stilla þeim inn í þjón- ustuíbúðir til þess að hægt sé að vera í friði fyrir þeim. Með þessu erum við að loka mjög dýrmætum auðlindum.“ Fólk vill ekki láta loka sig inni Guðrún segist finna fyrir því að umræðan sé aðeins að breytast. „Ég held að fólk sem er á miðjum aldri í dag vilji ekki fara inn í þennan lok- aða farveg þegar það fer að eldast. Ekki hverfa algerlega af vettvangi. Ef ég tala fyrir mig persónulega þá myndi ég ekki vilja láta loka mig inni á einhverjum afmælisdegi ef ég hefði fulla heilsu og starfsþrek. Ég myndi vilja vera þátttakandi í samfélaginu og hafa áhrif á það eins ég geri í dag og geta miðlað einhverju til kynslóð- anna sem eru fyrir aftan mig. Hin raunverulega lífsgæði eru fólgin í því að vera hluti af samfélaginu, að vera með í daglegu lífi og starfi.“ Eigum að miðla arfi kynslóðanna Guðrún segir að Íslendingar séu efnuð þjóð og eigi að geta nýtt arf kynslóðanna og fært hann frá einni þeirra til annarrar. Af þeim ástæðum eigi líf eldri borgara ekki að snúast um rándýrar þjónustuíbúðir. Hús- næðismálin eigi ekki að vera á odd- inum vegna þess að Íslendingar eigi nóg af því og spurningin sé bara um hvernig það sé nýtt. „Eldri borgarar þurfa að finna að gert sé ráð fyrir þeim og þeir hafðir með í ákvarðana- tökum um sín mál. Ef það verður þá taka þeir sjálfir af skarið vegna þess að þeir finna fyrir eigin styrk en ekki þessari höfnun sem einkennir samfé- lagið í dag. Einstaklingsmiðuð hugsun fyrir alla Annað sem Guðrún kom að í um- ræðunum á málþinginu um félags- starf eldri borgara var atvinnuþátt- taka þeirra og tök þeirra á að drýgja tekjur sínar án þess að bætur þeirra skerðist. „Það á ekki að refsa fólki sem bæði vill og getur tekið þátt í at- vinnulífinu eftir að eftirlaunaaldri er náð. Fólk á að geta aukið við tekjur sínar ef það vill. Tekjukerfið þarf að vera þannig að fólk hafi svigrúm til þess auka við tekjur sínar þó svo að grunnlífeyrir þess sé tryggður fyrir og skerðist ekki strax og atvinnutekj- ur bætast við. Samfélagið nýtur góðs af störfum þessa fólks og við megum ekki líta þannig á að eldri borgarar séu að græða einhver ósköp þó ein- hverjar tekjur af vinnu komi inn í bókhald þeirra. Þetta er eingöngu spurningin um að fólk fái að njóta þess styrks sem það hefur og mér finnst ákveðin refsing felast í því fyr- ir viðkomandi að fá ekki að auka tekjur sínar. Við erum stöðugt að tala um einstaklingsmiðað nám í skólum þar sem gengið er til móts við hvern einstakling á hans forsend- um. Sama hugsunin gildir hins vegar ekki í sambandi við fatlaða eða eldri borgara sem fá hópafgreiðslu og það sama á að gilda fyrir allan hópinn. Þar gildir hin einstaklingsmiðaða hugsun ekki.“ Göngustígar og kaffihús Guðrún segir að eitt af því sem sárlega vanti séu beinar hrað- gönguleiðir og þá sérstaklega göngustígar sem eru í beinni línu frá einum stað til annars. „Hefðbundnir göngustígar eru í kringum og utan- um skipulagða þjónustukjarna. Hins vegar á að skipuleggja gönguleiðir í fluglínu milli hverfakjarnanna þan- nig að gangandi komist fljótt milli þeirra. Eldra fólk myndi nota slíkar hraðgönguleiðir. Þá myndi gangandi fólki fjölga og fleiri fara oftar út og hittast og jafnvel að setjast niður og spjalla saman. Ekki væri verra ef fólkið gæti fari inn á kaffihús í leið- inni á göngutorgunum sem væru staðsett með góðu millibili. Þetta myndi auka félagslega virkni eldra fólksins og þá er ég ekki síst að tala um það fólk sem hætt er að vinna en er við sæmilega heilsu. Breiðholts- hverfið er heppilegt að þessu leyti vegna þess að þar ætti að vera auð- velt að koma hrað-göngustígum fyrir með göngutorgum, kaffihúsum og fleiru. Það vantar sárlega kaffihús í Breiðholtið.“ Guðrún kveðst að lok- um skora á hugmyndaríkt fólk að íhuga möguleika á kaffihúsarekstri í Breiðholtinu sem hefur tengingu við þá göngustíga sem fyrir eru í hverf- inu og skapa þannig kaffihúsa- göngu-hefð. Eldri borgarar eiga að vera virkir í þjóðfélaginu Guðrún Þórsdóttir í ræðustól á málþinginu í Gerðubergi. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi ræðir við Pál Gíslason, lækni og fyrrum borgarfulltrúa í Reykjavík, og Soffíu Stefánsdóttur eigin- konu hans á málþinginu um félagsstarfa eldri borgara. Páll hefur unnið mikið að málefnum eldri borgara á undanförnum árum.

x

Breiðholtsblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Breiðholtsblaðið
https://timarit.is/publication/1113

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.