Húnavaka - 01.05.1982, Page 16
14
HÚNAVAKA
Ég fór í stærðfræðideildina því að ég treysti mér ekki gegnum
máladeildina. Þó að ég hefði mikið minni á sögu og ættfræði hafði ég
ekki sjónminni og því lá ekki málfræðin fyrir mér. Við vorum orðnir 7
utan skóla, en 9 eftir í bekknum við stúdentspróf. Ég tel það vera mitt
besta ár þegar ég var utan skóla. Við vorum saman í tímum hjá
kennurunum, höfðum gott næði og ég stundaði námið af mikilli alúð.
Árið 1933 varð ég stúdent og þá komu vegamót.
Mig hafði langað til að lesa fornminjafræði, en komst ekki utan. Það
varð úr að ég hugðist lesa norrænu og átti tal við Sigurð Nordal, sem
vildi að ég tæki þetta fyrir. En hann sagði að ég yrði að lesa miðalda-
latínu þar sem ég væri ekki latínulærður. Mér leist ekki á það og fór
því í guðfræðideildina. Þar þurfti ég að taka próf í grísku. Það varð
mér erfiðara af því að ég kunni ekki latínu, en kennari minn var
ljúfmennið Kristinn Ármannsson og ég þvældist gegnum grískuprófið.
Guðfræðiprófi með I. einkunn lauk ég í janúar 1938.
ÞÚ ERT ASNI DRENGUR MINN
— Áttu ekki góðar minningarfrá skólaárunum?
Jú, ýmsar. Það hafa flestir heyrt um þingrofið 1931. Það var nú
mikið los á mannskapnum þá dagana. Þegar þingið var rofið vorum
við í tima hjá Pálma rektor uppi í kvistinum. Einn skólabróðir okkar,
Helgi Scheving, kom með írafári patandi út í loftið og talandi yfir
skólabrúna. Hann var mikill sjálfstæðismaður og móti framsókn.
Þegar Jónas Jónsson gekk út úr Alþingishúsinu, steytti þessi litli hvati
maður hnefann framan í hann og sagði:
„Þú hefur svikið föðurlandið“. Þá sagði Jónas við hann: „Þú ert asni
drengur minn.
Við skólann voru mjög merkir kennarar. Má þar nefna, Jón
Ófeigsson í þýsku, Pál Sveinsson í frönsku og Ólaf Daníelsson í
stærðfræði, sem var ákaflega mikilhæfur maður, sérkennilegur og
mikill gáfumaður í sínum fræðum og við bárum ótakmarkaða lotn-
ingu fyrir honum. Páll Sveinsson var ákaflega kuldalegur í tímum.
Það var eins og við værum í yfirheyrslu i sakamáli. Eftir að ég varð
stúdent og kandidat og hitti hann á götu vildi hann alltaf tala við mig
og spyrja frétta. Þá var hann ekkert annað en elskulegheitin, og þá
fann maður að þetta var afbragðs gáfumaður og réttsýnn.