Húnavaka - 01.05.1982, Page 23
HÚNAVAKA
21
ætt minni. Móðir mín og Þórður á Tannastöðum voru systrabörn, en
hann var ættfróðasti maður í Árnessýslu, um sína daga, þó ómennt-
aður maður. Ég var líka skyldur Bjarna Þorsteinssyni á Siglufirði, sem
gaf út merkilegar ættartölur. Ég hef mikið fræðst af því að spyrja fólk
hvaðan það væri ættað.
ÉG VAR ÞRJÁR VIKUR AÐ HUSVITJA
Þegar ég kom náði vegur aðeins tæpa 10 km út fyrir Skagaströnd.
Þess vegna voru vetrarferðir oft erfiðar. Ég átti ratvísan hest og vitran
hund, sem reyndust mér vel á þessum ferðum. Þá hjálpaði það mér
mikið að mér leið vel í kulda, frosti og hríðum meðan ég var og hét. Þá
var ég léttastur og glaðastur og það sagði Lárus læknir Jónsson að væri
af því að ég hefði svo lágan blóðþrýsting — blóðþrýstingurinn væri
eins og í jómfrú.
Tvennt hafði ég með mér í hnakktöskunni, kamfórudropa og
lambhúshettu. Það var gott að geta andað gegnum ullina á þessum
hestaferðalögum og ef komið var inn í kaldan bæ að geta látið kam-
fóru út í kaffið til að hressa sig á og koma í veg fyrir að slægi að manni:
Þetta varð til þess að ég varð aldrei veikur á ferðalögum. Ég var þrjár
vikur að húsvitja. Þá fékkst gott yfirlit yfir fólkið og auðvelt var að
fylgjast með högum þess.
— Fórstu á hvern bœ?
Já, ég fór heim á hvern bæ, 4-5 bæi á dag og í hvert hús á Skaga-
strönd og Blönduósi fyrir utan á, til þess að taka manntalið. Einnig lét
ég yngstu börnin lesa, því að þá náði skólaskyldan ekki til yngri barna
en 10 ára. Mér er minnisstæður fjögurra ára gamall snáði, sem ég
spurði hvort vildi koma til min og tala við mig og lesa. Hann sagðist
ekki vita hvort hann mætti vera að því og með það fór hann og sást
aldrei framar við húsvitjun. Nú er hann gildur bóndi í sókninni.
Þegar ég kom að húsvitja á Úlfagili ætlaði gamla konan þar,
Sigríður, ekki að bjóða mér inn, þó að það væri farið að húma. Hún
var einræn og ég bað hana að benda mér hvar Núpur væri, en ég
ætlaði þá að taka næsta bæ.
Hún kom þá fram fyrir dyrastafinn, svo að ég gekk til hennar og inn
og hún varð að ganga á eftir mér. Þar var ærin eða hrúturinn næst
fyrir framan og baðstofan þar fyrir innan. Þar settist ég á rúmstokkinn