Húnavaka - 01.05.1982, Page 30
28
HÚNAVAKA
mánuði. í Árósum vorum við þrjár frá Islandi, ein frá Finnlandi,
nokkrar sænskar og norskar, en flestar voru danskar. Þetta varð til þess
að við lærðum að skilja Norðurlandamálin. Skólanum var skipt í
námskeið (kursusa) A, B og C. Við ætluðum allar í C, en Salóme
Gísladóttir frá Saurbæ í Vatnsdal var þarna í Árósum og kynntist þar
manni sínum. Hún sagði okkur að við skyldum ekki vera allar á sama
námskeiðinu. Ég fór þess vegna í A sem var næringarefnafræði og
fleira, en hinar tvær fóru í B, þar var meira um tækni og áhaldafræði.
Steinunn Ingimundardóttir, sem nú er forstöðukona á Varmalandi
var með mér þarna úti og eins Sigríður Kristjánsdóttir. Hún varð síðar
kennari við Húsmæðrakennaraskólann og giftist Jónasi Kristjánssyni
handritafræðingi. Sigríður hafði verið kennari á Laugalandi í Eyja-
firði, en hætti og ég fékk hennar starf sem þvotta- og ræstikennari. Sá
kostur var við það að vera kennari á Laugalandi að ég gat farið til
Akureyrar og keypt það sem mig langaði til, til þess að bæta aðstöðu
við kennsluna og það gerði ég fyrir mína peninga. Þar með varð
kennslan mikið skemmtilegri fyrir mig. Eg var þrjú ár á Laugalandi,
en svo gifti ég mig.
ÞEGAR BÖRNIN VORU FARIN LEIDDIST MER
Lá svo leiðin hingað vestur í Höskuldsstaði?
Já, en þar var nú ekki verulega góð aðstaða fyrir konuna. Pétur
hafði búið ógiftur í 15 ár. Eg heyrði sagt að þeir í kirkjumálaráðu-
neytinu hefðu sagt þegar einhver prestkona kom og bað um að láta
gera við eitthvað hjá sér. „Þið ættuð að hafa það eins og hann séra
Pétur á Höskuldsstöðum. Hann biður aldrei um neitt.“ Þá hefði
konan sagt. „Nú ætlar hann að gifta sig og þá verður breyting á.“
Ég man eftir því að á fyrstu prestastefnu sem ég kom á, kom
Ásmundur biskup til mín og spurði hvort ég vildi endilega fara til
Skagastrandar. Eg hafði hug á því þegar ég sá hvað það var mikið sem
þurfti að gera á Höskuldsstöðum. Hann lofaði ýmsu bara ef ég yrði á
Höskuldsstöðum. Það varð úr að við vorum þar í 7 ár.
Um tíma var skóli hjá okkur á Höskuldsstöðum. Pétur kenndi og
mér þótti gaman að hafa skólann. Þegar börnin voru farin leiddist
mér.