Húnavaka - 01.05.1982, Page 34
BJARNI TH. GUÐMUNDSSON:
Byggð á Kálfshamarsnesi
og næsta nágrenni
I Byggðin fram til 1910
Um síðustu aldamót og á fyrstu áratugum þessarar aldar, var
stunduð blómleg útgerð frá Kálfshamarsvík. Um hana er rætt í ritinu
Húnaþingi I, bls. 263 og áfram. Á tímabili myndaðist smáþorp á
Kálfshamarsnesi og næsta nágrenni, sem tengdist þessum útvegi og er
ætlunin að rekja hér stuttlega sögu þessarar byggðar.
Það mun hafa verið nokkuð löngu fyrir síðustu aldamót, að fyrst var
byggt íbúðarhús á Kálfshamarsnesi. Klöpp mun vera fyrsta húsið er
þar var byggt, var það torfbær með timburhálfgafli að framan, það er
torfhlað upp að glugga og svo timbur ofar. Þennan bæ byggði Jón
Guðmundsson, er var afi Björns bónda á Örlygsstöðum, föður Sig-
urðar og þeirra systkina.
Höepfnersverslun á Skagaströnd keypti nokkru fyrir aldamót 3/5
hluta jarðarinnar Kálfshamars og þar með 3/5 byggingarlóða á
Kálfshamarsnesi, og reisti þar Salthúsið. Vár það stórt og myndarlegt
timburhús. Á neðri hæð var salt- og fiskgeymsla, en stór salur á efri
hæð og sjómannaíbúðir. Var Salthúsið í mörg ár eini samkomustaður
á Kálfshamarsnesi. Þar var spilað, drukkið og dansað næturlangt og
þar voru margar veislur haldnar. Um aldamótin reisti Karl Berndsen
á Hólanesi reisulegt timburhús austan við Salthúsið, hafði hann
verslun á neðri hæð og fiskgeymslu, en íbúð fyrir sjómenn á efri hæð,
var það hús kallað síðar Karlsbúð. Átti Karl Berndsen þá 2/5 af jörðinni
Kálfshamri, á móti Höepfnersverslun. Karlsbúð var rifin fyrir 1920.
Árið 1901 eru engir skráðir með lögheimili á Kálfshamarsnesi og
næsta nágrenni, þá hefur Klöpp verið í eyði.
Frá aldamótum til 1910 fjölgaði húsum á Kálfshamarsnesi. Þá
byggði Jóhann Helgason Hátún (Möngubæ) ofar á Nesinu, var það