Húnavaka - 01.05.1982, Page 40
38
HÚNAVAKA
Bœjarrústir á Kálfshamarsnesi.
Á þessum árum fyrir 1930 komu „trillur“ til sögu á Kálfshamarsnesi,
það er opnir vélbátar. Þá komu þangað tvær skipshafnir að sunnan.
Önnur með Albert Þorvarðarsyni frá Gróttu á Seltjarnarnesi, sem átti
og var formaður á stórum trillubát. Byggði hann timburhús með
skúrþaki á þeim grunni, er Ásbyrgi hafði verið, fyrir sig, skipshöfn sína
og ráðskonu. Gekk það jafnan undir nafninu Albertshús. Hinn
formaðurinn, sem kom með trillu og skipshöfn, hét Jón, ég held
Árnason, hélt hann til á Kálfshamri. Var Jóhannes Einarsson með
honum um sumarið, og keypti svo af honum bátinn, er Jón fór suður
aftur um haustið. En Albert var hér tvö eða þrjú sumur og reif svo hús
sitt, er hann fór héðan aftur. Á þessum árum voru komnar vélar í alla
opna báta, er gengu frá Kálfshamarsvík. Fyrir sunnan Albertshús
byggði Ari Einarsson íbúðarhús sitt, er hann nefndi Hvamm. Það var
timburhús með skúrþaki. Síðar keypti Haraldur Guðlaugsson þetta
hús af Ara og bjó þar með móður sinni, þar til hún flutti suður til
dóttur sinnar. Þá keypti Jóhannes Einarsson Hvamm, en húsið brann
nokkrum árum síðar.
Eftir að Sigurður Ferdinantsson flutti aftur frá Kálfshamri, flutti
þangað með fjölskyldu sína Lárus Frímannsson, er lengi hafði búið á
Tjörn. Eftir nokkurra ára búskap á Kálfshamri slitu þau samvistum
\