Húnavaka - 01.05.1982, Page 45
HÚNAVAKA
43
haldnir, kom fólk stundum langt að í góðu veðri til að vera á
skemmtun í Nesjum. Ekki var önnur hljómsveit en ein tvöföld har-
mónika, sem Ari Einarsson spilaði oftast á, en systkinin á Sviðningi
leystu stundum af svo hann gæti fengið sér snúning. Vermenn, sem
bjuggu á sumrin og haustin í Barnaskólahúsinu, stóðu venjulega fyrir
dansleikjunum. Menn tóku ekki svo nærri sér að dansa frá kl. 9 að
kvöldi til kl. 7 að morgni, en oft voru gerð hlé á dansi og tekið lagið eða
farið í leiki. Til að skapa tilbreytingu var tekinn mars og farið út í
kringum skólahúsið ef gott var veður.
I tómstundum var mikið spilað á spil og sumir tefldu, var þá
stundum vakað heilar nætur ef svo bar undir. Ennfremur var alltaf
hægt að fá bækur til að lesa. Ýmislegt fleira gerðu menn sér til
skemmtunar, sem of langt yrði upp að telja. Meðal annars æfðu menn
glímu um skeið, og haldnar voru tombólur til að styrkja góð málefni.
Barnaskólahúsið var almennur samkomustaður og opinber kjörstaður.
Eins og gengur í sjávarplássi eru formenn misgóðir, bæði sem
sjósóknarar, aflamenn og stjórnendur í vondum veðrum. Mér finnst að
hér eigi ég erfitt með að gera upp á milli manna, þó held ég að á þeim
árum, sem ég átti þarna heima, hafi Sigurður Júlíusson verið mesti
aflamaðurinn og sjósóknarinn. En Guðmundur Einarsson í Holti eða
Jón Benónýsson á Kálfshamri, verið mestu stjórnendurnir þegar í vont
var komið. Annars voru þetta allt ágætis formenn, er stunduðu sjósókn
frá Kálfshamarsvík.
í þessari grein hefur lítið verið minnst á þá, sem bjuggu á bænum
Kálfshamri austan við Kálfshamarsvík. En íbúar þorpsins höfðu við
þá margvísleg samskipti. Ég get því ekki látið hjá líða að minnast
þriggja eftirtalinna manna, sem þar áttu heima á mínum árum á
Kálfshamarsnesi.
Jóhannes Einarsson stundaði manna lengst sjósókn frá Kálfsham-
arsvík. Hann bjó með móður sinni í litlum kofa á Kálfshamri, var
góður aflamaður og ákaflega hjálpsamur og vel látinn af öllum.
Lárus Frímannsson, sem áður er getið, var formaður þessi ár, en
stundaði þó jafnframt nokkurn búskap. Alltaf var gott að leita til hans,
hann var mjög hjálplegur og vildi fúslega leysa allan vanda. Margir
tómthúsmenn fengu slægjur og móupptak hjá honum, en aldrei tók
hann við greiðslu fyrir.