Húnavaka - 01.05.1982, Side 46
44
HÚNAVAKA
Jón Benónýsson var formaður og mjög góður aflamaður, hann var
aðgætinn og góður stjórnari. Jón var smiður bæði á tré og járn, gerði
hann margt handtakið fyrir menn, án þess að ætlast til greiðslu fyrir.
Jón bjó á norðurparti Kálfshamars með systur sinni og hafði móður
sína hjá sér, hann hafði símstöðina og áttu því margir leið að Kálfs-
hamri. Jón var mjög gestrisinn og var gott að leita til hans ef mikið lá
við, hann var skjótur og úrræðagóður. Fór hann stundum svaðilfarir
fyrir aðra. Hann mun hafa flutt burt frá Kálfshamri 1934.
Að sumu leyti var mjög erfitt að búa á Kálfshamarsnesi. Þá notuðu
allir mó til eldunar og upphitunar, hann varð að taka upp fyrir ofan
Garðshorn eða fyrir sunnan Kálfshamar og bera hann á bakinu niður
á Nes. Ef mór var tekinn fyrir ofan Garðshorn, var stundum hægt að
nota sleða á vetrum við að koma honum heim þegar tjörnin var
ísilögð. En væri mórinn tekinn fyrir sunnan Kálfshamar, var ekki
hægt að nota sleða fyrir skurðum, girðingum og öðrum tálmunum.
Á Kálfshamarsnesi var ekkert neysluvatn að hafa, það varð að sækja
langa leið í fötum í læk fyrir ofan Bárubúð, hvernig sem viðraði.
Vestarlega á Nesinu, stutt frá Klöpp, var brunnur, en þar var vatnið
svo salt að það var bara notað handa skepnum. Voru margir, sem
óskuðu þess að vatnsleiðsla væri komin niður á Nesið, en sá kostnaður
var mönnum ofviða.
Margt er enn ósagt um mannlíf í því litla samfélagi, sem þarna
skapaðist við Kálfshamarsvík, en hér verður þó látið staðar numið.
★
DRAUMUR JÓNS í SELHAGA
Nálægt 1820 var vinnufnaður sá í Selhaga í Húnavatnssýslu, er Jón hét Jónsson.
Hann var rúmlega vel að vexti og með knárri mönnum. Nokkru fyrir jól dreymdi Jón,
að honum væri nauðgað til að kvænast konu þeirri, er Guðbjörg hét. Hann þóttist
biðja um frest og fékk hann, en aðeins um þrjá daga. Fjórða daginn eftir draum sinn
stóð Jón yfir fé, en þá brast á ofsahríð með ákaflegum norðanvindi og fannkomu. Jón
kom ekki heim að kvöldi og fannst dauður uppi á fjalli skammt fyrir framan Selhaga,
þar sem Saxhöfði heitir, þegar af létti hríðinni. Þótti mönnum Jón hafa orðið ber-
dreyminn.
Eftir handriti Sighvats Grímssonar Borgfirðings í Emmu, en hann hafði eftir
Húnvetningasögu Gísla Konráðssonar.