Húnavaka - 01.05.1982, Page 55
HÚNAVAKA
53
ábúenda einstakrar jarðar, þá er yfirleitt seilst um eina öld aftur í
tímann. Um það er þó engin regla. Sá hluti meginmáls, sem fjallar um
Austur-Húnavatnssýslu, er 274 síður.
Mikill ljóður er það á Föðurtúnum að hvergi er vitnað beint til
heimilda eða gerð fullnægjandi grein fyrir notkun þeirra. í formála er
getið þeirra einstaklinga sem mestar upplýsingar veittu og er þar
vitnað til Magnúsar á Syðra-Hóli, Jónasar Illugasonar í Brattahlíð og
Sigurlaugar Guðmundsdóttur í Asi um austurhluta sýslunnar, auk
móður höfundar og ömmu. Þá er það tekið fram að víða sé orðrétt
vitnað til Húnvetningasögu um lýsingar á einstökum mönnum.10 Að
öðru leyti er óljóst hverjar heimildir Páls eru en þó tekur hann fram að
löngum tíma hafi verið varið til könnunar á skjallegum gögnum í
Þjóðskjalasafni og þá mest kirkjubókum.11 Af öðrum heimildum, sem
höfundur hefur notað án þess að geta um sérstaklega, má nefna
Landnámu, Sturlungu og fslenskt fornbréfasafn.
Hugmyndafræði Páls Kolka og afstaða hans til viðfangsefnisins er
afdráttarlaust sett fram í ritgerðasafninu í lok Föðurtúna. Ást hans og
aðdáun á öllu húnvetnsku er takmarkalaus og hástemmd er lýsingin á
því er landnámsmenn
. . . litu fyrst náttúru héraðsins í ósnortnum yndisleika meydóms
hennar [þ.e. sýslunnar].12
Síðan rekur höfundur söguna áfram og segir héraðið hafa orðið
strjálbýlt vegna landshátta, jarðir stórar og gott undir bú.
Fyrirmyndin hér varð búhöldurinn, sem hafði vit á hagrænum
efnum, þurfti ekkert til annarra að sækja né þola neinn ágang af
öðrum. Einstaklingshyggja og einstaklingsmetnaður þróuðust í
þessu héraði flestum öðrum fremur. Húnvetningurinn varð ekki
oflátungur, heldur stórbokki.13
f röksemdafærslu fyrir þessari skoðun leitar Páll eftir samanburði
við önnur héruð og má segja að allt verði honum að vopni þegar um
upphafningu húnvetnskra dyggða er að ræða.14 Hann leitast við að
finna og skýra sérstök einkenni á Húnvetningum og segir að:
Það óstýrilæti, sem þolir jafningja við hlið sér, en ekki höfðingja
yfir sér, virðist vera arfur þeirra frá upphafi.15