Húnavaka - 01.05.1982, Page 88
86
HÚNAVAKA
— Var ekki verslun hér í Kálfshamarsvík?
— Jú, hér var smáverslun og löggilt höfn, því hér var viðkomu-
staður strandferðaskipa. Hingað komu skip með salt og héðan var
skipað út saltfiski. Mér er sérstaklega minnisstæður einn atburður í
sambandi við útskipun á saltfiski.
Við vorum fjórir í bát, og nokkur kvika þennan dag og vont i sjó, og
þegar einn okkar var að reyna að ná taki á kaðli á skipshliðinni tók
hann fyrir borð, en sem betur fór tókst að bjarga honum upp í bátinn
og fara með hann í land og varð honum ekkert meint af volkinu.
Svo komu kreppuárin og afturkippur kom i alla útgerð, menn urðu
að selja bátana og skúrana og hættu allri útgerð og fluttust burt.
í kringum 1930 voru eftirtalin tómthúsbýli í Kálfshamarsvík:
Garðshorn, Blómsturvellir, Steinholt, Holt, Malarland, Jaðar,
Lambastaðir, Hátún, Hvammur, Klöpp, Albertshús, Klettur og Iða-
vellir eða alls 13 býli.
— Vilt þú segja okkur frá starfi þínu sem vitavörður og frá vitunum sem hér
hafa staðið og standa enn.
— Sumarið 1913 var byggður hér á Kálfshamarsnesi smáviti, hann
var ekki nema tæpir 3 metrar á hæð, járnviti, áttkantaður og var hann
látinn duga hér þangað til árið 1939. Þá var byggður sá viti sem
stendur hér á Kálfshamarsnesi nú og er starfræktur í dag. Emil Jóns-
son var þá vitamálastjóri. Verkstjóri við vitabygginguna var Sigurður
Pétursson frá Sauðárkróki og yfirsmiður við vitann var Sigurður Pét-
ursson frá Djúpadal í Skagafirði. Vitinn er stór og falleg bygging hann
er 15 metra hár og logtími hans er frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert.
Allan sand í steypuna þurfti að flytja á reiðingshestum upp á nesið,
því þangað lá enginn vegur og ekki hægt að komast að með kerru eða
önnur ökutæki. 1 gamla vitanum var gasljós og fyrst framan af í nýja
vitanum. En þegar rafmagnið var leitt hér út í Skagahrepp og út fyrir
Króksbjarg þá var sett rafmagn í nýja vitann og hefur verið þar síðan,
en til öryggis er haft gas ef rafmagnið færi. Vitaskipið flutti hingað
gasflöskurnar og ýmsar aðrar vörur sem ég þurfti á að halda.
Þeir áttu að lýsa saman þrír vitar á þessu svæði, Kálfshamarsvitinn,
vitinn á Selskerjum út af Reykjarfirði á Ströndum og Skagatáarvitinn,
en stríðið stöðvaði að hægt væri að setja ljósaútbúnaðinn í Kálfs-
hamarsvitann. Þjóðverjar voru á sveimi hér og virðast hafa skotið á
vitann því far var í honum eftir eina kúlu. Eftir stríðið var fenginn
góður ljósaútbúnaður frá Svíþjóð.