Húnavaka - 01.05.1982, Síða 118
116
HÚNAVAKA
son í Brúarlandi, en þeir voru báðir vel að manni. Var það auðsótt mál
og fór síðan uppboðið fram að venju.
Eg, sem þetta rita, fór í mörg ár ýmist í fjallagöngur eða heiðar-
göngur og smalaði ásamt öðrum til Landsendaréttar.
Þetta var réttin mín, sem ég hlakkaði til allt árið, að draga lagð-
prúðar kindur eða fljúgast á við ótamið stóðið í sundurdrætti í seinni
rétt.
Um árabil dró Jón bóndi Sölvason í Réttarholti fé sitt í gegnum dilk
Hofs- og Skeggjastaða og lét í fjárhús sitt, sem stóð á bak við réttina.
Hann var líka réttarstjóri lengi, af þessu leiddi að við drukkum ævin-
lega gott réttakaffi hjá honum og hans ágætu konu, Þorbjörgu Hall-
dórsdóttur. Þau bjuggu lengi í Réttarholti. Um réttina skrifar Jón í
bréfi til Halldóru Bjarnadóttur, sem birt er í Hlín 1958:
— Landsendarétt, sem kölluð var, stóð við sjó, rétt hjá Réttarholti,
þar sem ég bjó um 30 ár. Réttin var hlaðin úr grjóti og því gott skjól
þarna. Réttin var yfir 100 ára gömul. Ég gerði fyrstur manna tilraun
með að setja þarna niður nokkur kg. af kartöflum og fékk 12-falt upp.
Þarna var nógur áburðurinn.
Eg hef sett þarna niður 50 kg. á ári i 30 ár. Þetta varð til þess að fleiri
fóru að nota réttina fyrir kartöflur.
Nú er búið að steypa nýja rétt við túnið á Spákonufelli. Svo var farið
að rífa þá gömlu, nota grjótið í vegkanta o.fl. Eg var að reyna að halda
í mína skjólgarða, sem lengst, en illa gekk það. Síðast fóru þeir 1956.
Það var töluvert sett niður í réttarstæðið, en lakari uppskera fyrir
skjólleysi. —
Þarna segir Jón frá hlutverki, sem réttin gegndi um árabil og ég man
vel. Það var að sjálfsögðu alltaf búið að taka upp þegar réttað var, en
ég man að hrekkjóttir strákar létu stundum kartöflur og jafnvel
„kartöflumóður“ fljúga af hendi og reyndu að hitta hver annan í
þröng og spenningi réttardagsins.
Hætt var að rétta í Landsendarétt 1952 eða 1953, því þá var búið að
steypa upp rétt norðan við túnið á Spákonufelli, eins og Jón Sölvason
segir hér að framan og nú stendur ekki steinn yfir steini, þar sem áður
var Landsendarétt.
Þessi litla samantekt um réttina, sem nú er horfin, á að minna á
sögustað, sem að vísu er ekki merkilegur, en mjög skemmtilegur í
endurminningunni.
Heimilda er getið í greininni, en að auki leitaði ég upplýsinga hjá nokkrum kunnugum mönnum.
j