Húnavaka - 01.05.1982, Side 142
JÓN ÍSBERG, Blönduósi:
Skýjaborgir
sem geta orðið að veruleika
Blönduós hefur engan miðbæ, kjarna, þar sem menn koma til þess
að sýna sig og sjá aðra. Strax fyrir aldamót skiptist staðurinn og enn
hefur enginn kjarni myndast. Þessir staðir, verslanir, samkomuhús og
hótel eru dreifðir um allan bæ. Mannlífið sjálft skapar oftast svona
staði en nú fær það ekki að gera það, því allt er skipulagt. Þess vegna
þurfum við hér á Blönduósi að skipuleggja eða búa til miðbæ, þ.e.
kjarna, þangað sem flestir koma og vilja vera.
Mín uppástunga er sú, að við notfærum okkur svæðið milli Félags-
heimilisins og Kaupfélagsins og byggjum þar eins konar markaðspláss
undir gler- eða plastþaki. Meðfram Félagsheimilinu — og þá hyrfi
íbúðarhúsið með tímanum — og meðfram verslunarhúsi K.H. verði
byggðar litlar einingar á tveimur hæðum en milli þeirra væri þak úr
gleri og þar yrði „opið“ svæði með gróðurhúsaplöntum eða ekki ólíkt
og er í Eden í Hveragerði. Framhliðin að Húnabrautinni yrði úr gleri
og þar yrðu veitingastaðir, sem hægt væri að opna þá fáu daga ársins,
sem veður leyfir slíkt. Að norðan verður þetta tengt nýrri hótel-
byggingu, sem væri svona 6-8 hæðir. Tvær neðstu hæðirnar yrðu beint
áframhald af svæðinu milli Félagsheimilisins og K.H. Þarna yrðu
móttökur og ýmsar þjónustugreinar t.d. bankaafgreiðsla vegna ferða-
manna og fleira.
Á efri hæðum hótelsins yrðu svo hótelherbergi, sem mætti nota að
vetrinum sem heimavist unglinga í framhaldsskóla, sem örugglega
kemur með auknum íbúafjölda.
I norðurendanum mætti svo koma fyrir aðstöðu vegna íþróttavall-
arins, svo sem söluaðstöðu, snyrti- og baðaðstöðu. Þá verði hótelið og
þar með allt svæðið tengt nýja íþróttahúsinu austan Melabrautar með
gangi undir götunni. Með þessu yrði tengt saman, íþróttamiðstöðin,
verslunarhverfi og skemmtanahúsin á staðnum og þar með er komin
miðstöð, sem mikið yrði sótt af ungum sem öldnum.