Húnavaka - 01.05.1982, Blaðsíða 163
HÚNAVAKA
161
Guðrún þá 10 ára að aldri. Settust þær að á Blönduósi, þar sem hún
vann m.a. sem þjónusta hjá Evald Sæmundsen, kaupmanni.
Segja má, að Guðrún hafi allt frá þeim tíma, er hún flutti með
móður sinni hingað, unnið fyrir daglegu brauði sínu, oftast í kaupa-
vinnu á sumrum eða skemmri dvöl við vinnu, lengst af á Hjallalandi
hjá Jórunni, er þá bjó þar eftir föður sinn, Jósef Einarsson.
Um skólagöngu var eigi að ræða, vegna sárrar fátæktar, en Guðrún
var bókhneigð og las mikið.
Þann 27. júlí 1924 gekk hún að eiga Júlíus Jónsson frá Brekku í
Þingi. Hófu þau búskap árið 1925 að Litlu-Giljá, þar sem þau höfðu
undir hluta af jörðinni. Bjuggu þau þar um tveggja ára skeið. Eftir það
fluttu þau að Hurðarbaki í Torfalækjarhreppi, en þar bjuggu þau til
ársins 1930. Það ár festu þau kaup í jörðinni Mosfelli í Svínadal, er þá
var í eigu Björns Eysteinssonar og átti það eftir að verða heimili
hennar til dauðadags.
Áttu þau hjón þrjú kjörbörn er Guðrún annaðist eins og sín eigin
börn. En þau eru: Sólveig húsfreyja að Ríp í Hegranesi í Skagafirði,
gift Þórði Þórarinssyni bónda þar, Hallgrímur Anton bóndi á Þor-
kelshóli í Víðidal, en kona hans er Jóhanna Eggertsdóttir og Bryndís
húsfreyja á Mosfelli, gift Einari Höskuldssyni bónda.
Einnig tóku þau börn í fóstur, er dvöldu á heimili þeirra um lengri
eða skemmri tíma. Lengst dvaldi þar Pétur Sigurðsson, skrifstofu-
maður í Reykjavik frá sex ára aldri til 16 ára aldurs.
Guðrún var félagslynd og tók ung þátt í félagsmálum kvenna hér
um slóðir. Var ein af stofnendum Kvenfélags Svínavatnshrepps og
formaður félagsins lengst af. Sat í sóknarnefnd Auðkúlusóknar um 20
ára skeið. Sat í barnaverndarnefnd og formaður hennar um langt
árabil.
Fyrir öll hin margháttuðu störf hennar í þágu málefna kvenna var
hún kjörin heiðursfélagi Kvenfélags Svínavatnshrepps árið 1977 og ári
síðar eða 1978 heiðursfélagi Sambands húnvetnskra kvenna.
Með Guðrúnu á Mosfelli er gengin merk húsmóðir. Heimili hennar
var henni allt. Þar var ævistarfið unnið. Hún helgaði manni sínum og
börnum alla krafta sína. Öllu er þarfnaðist hjálpar, hlynnti hún að
með fórnandi kærleika. Börnin mörgu og smáu vafði hún kærleika
sínum. Blómin í garðinum hennar er hún annaðist af svo mikilli
kostgæfni spruttu í skjóli hennar. Málleysingjarnir er hún lét sér
jafnan annt um áttu öruggan vin og talsmann, þar sem hún var.
n