Húnavaka - 01.05.1985, Page 20
18
HÚNAVAKA
Þegar við komum vestur lá ekki ljóst fyrir hvernig kaupin á lömb-
unum færu fram. Höfðum við nokkrar áhyggjur af því hvernig til
mundi takast. Það var yndislegt veður þegar við komum vestur, en það
gæti snögglega breyst. Það var bæði hættuleg og löng sjóferð að flytja
féð fyrir Horn til Skagastrandar.
Sannleikurinn var sá að þegar við komum þarna voru bændurnir
fyrir vestan, seljendur fjárins, óánægðir með að fá ekki fast verð fyrir
lömbin. Þeir höfðu talað sig saman um að láta enga kind fala fyrr en
gengið væri frá því að þeir fengju fast verð. Það var sest á ráðstefnu og
var Páll Pálsson á Þúfum í fyrirsvari fyrir heimamenn, en Sæmundur
Friðriksson kom að sunnan til að jafna málin. Samkomulag varð um
að við fengjum féð eftir vigt. Öll lömbin skyldu vigtuð og borgað
ákveðið verð fyrir hvert kíló i lifandi þunga og uppbætur síðar, eftir
því sem verðlagið yrði þetta haust.
Þegar þetta lá fyrir fóru allir af stað og var unnið kappsamlega við
kaupin. Mikið var rekið á eftir okkur, því að það var sléttur sjór og
skipstjórarnir, sem áttu að flytja féð vildu fá það sem fyrst. Það voru
yfirleitt síldarskip, sem notuð voru og hentuðu þau mjög vel til þessara
flutninga.
Venjulega fóru tveir í hvern hrepp. Ég lenti vestur í Ögurhrepp með
Magnúsi í Brekku. Það var mjög ánægjulegt að ferðast með honum.
Hann var duglegur ferðamaður og traustur á allan hátt. Við komum
að Ögri um nótt og gistum þar, veðrið var yndislegt, kyrrt og fagurt
þarna við Djúpið. Við skiptum okkur við kaupin og það varð mitt
hlutskipti að fara út í Vigur. Ég fékk bát með mig út í eyna og ætlaði
að láta hann bíða meðan ég keypti fé. Þá bjó þar rausnarbúi mikill
myndar- og heiðursmaður, Bjarni Sigurðsson. Hann sagði að ég fengi
enga kind þarna, því að hann væri með sinn mannskap í heyvinnu og
það væri glansandi þurrkur. Hann hefði engan tíma til þess. Ég hafði
ekki getað gert boð á undan mér, því að enginn sími var út í eyjuna.
Rafmagn hafði Bjarni ekki nema frá vindrafstöð, en vegna þess að það
hafði verið logn voru rafgeymarnir tómir og talstöðin rafmagnslaus.
Ég kom því alveg fyrirvaralaust.
Hann tók mér samt hið besta, bauð í bæinn og sagði að við skyldum
semja um þetta. Hann sagðist skyldi láta húskarlana hætta í heyinu og
fara að smala fénu, ef ég vildi gista hjá sér um nóttina. Eg var fljótur að
játa því, og það var í einu orði sagt ánægjulegt að vera þarna. Ég
gleymi því ekki hvað kvöldsólin var falleg, þegar við vorum að vigta