Húnavaka - 01.05.1985, Page 31
HÚNAVAKA
29
I því sambandi get ég nefnt það að eftir fjárskiptin var fátt fé á mínu
búi, en heyöflun hefur alltaf verið nokkuð mikil hér og ég hafði mikil
afgangs hey. Halldór Pálsson ráðunautur, síðar búnaðarmálastjóri,
vissi um það, kom til mín og sagði mér að föður sinn, Pál á Guð-
laugsstöðum langaði til að setja nokkru fleiri lömb á en heyin beint
þyldu. Halldór spurði hvort ég vildi taka af honum 36 lömb í fóður og
við skyldum hafa það gamla lagið, ég skilaði 24 lömbum framgengn-
um um vorið, en fengi 12 lömb fyrir fóðrið. Eg gekk að þessu. Um vorið
10. maí rak ég þessi 24 lömb upp að Sólheimum og mætti Páli þar.
Þetta var sem sagt regla í þessum viðskiptum bæði hvað hey og
fóðurtöku snerti.
Hávaðasamt á hreppsnefndarfundum
Þú hefur tekið mikinn þátt í félagsmálum. Gustaði ekki um þau hér í Vatnsdal
fyrr á árum?
Jú, ég held að það sé nú óhætt að segja að allstormasamt hafi verið á
félagsmálasviðinu í Vatnsdalnum. Hérna voru margir menn sem létu
mikið að sér kveða. Þegar ég var að vaxa úr grasi fylgdist ég töluvert
mikið með, því að faðir minn var oddviti, þegar ég man fyrst eftir
skömmu fyrir 1930. Á þessum árum voru allir hreppsnefndarfundir og
margir almennir hreppsfundir haldnir hérna heima hjá honum. Það
er ekki því að neita að það var oft hávaðasamt, sérstaklega fannst mér
mikil breyting, þegar Guðmundur Ólafsson alþingismaður í Ási hvarf
úr nefndinni, en inn kom Hannes Pálsson á Undirfelli. Guðmundur
var hæglætismaður og prúðmenni með afbrigðum, en Hannes ungur,
áhugasamur og framgjarn.
Stundum var mikið deilt og rifist á hreppsnefndarfundum á þessum
árum um úthlutun á grenjavinnslu. Þá voru loðskinn í háu verði. Það
komu hingað yrðlingakaupmenn frá Snæfellsnesi og Breiðafjarðar-
eyjum og keyptu yrðlinga háu verði. Þá var grenjavinnslan eftirsótt og
mikið kapp í mönnum að fá hana.
Hvað viðkemur þátttöku minni í félagsmálum, þá hefur hún ekki
verið það mikil að orð sé á gerandi. Eg losnaði að vísu ekki við að sitja
í hreppsnefnd um nokkurra ára skeið.
Annars hafði ég lengi mest afskipti af samvinnufélags- og búnaðar-
félagsmálum. Hef oftast verið fulltrúi á aðalfundum Sölufélagsins