Húnavaka - 01.05.1985, Page 81
HUNAVAKA
79
samræmi við þenna lærdóm, þótt vitaskuld sé ekki um kristinn áróður
að ræða.
í lýsingunni á Jökli er einsætt að hann skortir hvorki afl né áræði, en
hins vegar skortir hann vizku á við Þorstein og einnig réttlæti og
þolinmæði. Þetta kemur fram í frásögninni af viðureigninni við þá
Hrollaug og Berg. Yfirleitt er það algengt í sögunum að menn vanti
bæði réttlœti og hófsemi, og ef þeir eru einnig áleitnir við aðra, þá kallast
þeir ójafnaðarmenn; eitt einkenni þeirra er að þeir bæta ekki fyrir það
sem þeir misgera, sem ber vitni um óréttlæti. Ójafnaðarmenn eru oft
andstæðingar réttar og laga, og er því mikil landhreinsun þegar þeim
er rutt úr vegi. Þorsteinn Ingólfsson sýnir réttlæti sitt með því að
berjast gegn illræðismönnum á borð við Þórólf sleggju og Þorgrím
skinnhúfu. Um vizku hans er það að segja að hann er ekki einungis
„vitrastur allra bræðra“, heldur einnig langsœr, sem merkir þá tegund
af vizku að geta séð hlutina löngu fyrirfram; í Eddu segir Snorri að
nafnorðið langsœi sé sama og „vizka.“ Hér er rétt að minna á Brennu-
Njál, sem var bæði langsýnn og langminnugur: hann sá atburði fyrir löngu
áður en þeir urðu og mundi þá um langan tíma eftir að þeir höfðu
gerzt. Orðið vit var notað um meðfædda vitsmuni, sem gátu þróazt á
þá lund að verða vizka, sem var í eðli sínu góð, ella þá varð það að slœgð,
sem beitt var til ills og var ríkur þáttur í fari Marðar í Njálu; Snorri
segir um Loka í Eddu: „Hann hafði þá speki umfram aðra menn, er
slœgð heitir, og vélar til allra hluta.“ Sumum lesendum Vatnsdælu
kann að þykja óþarft að hyggja svo náið að einstökum orðum, en sú
afstaða stafar einkum af þeirri tilhneigingu að vilja fljóta viðstöðu-
laust með frásagnarstraumi.
Öllum hlutum skyldi stilling fylgja, segir í Sverris sögu, og hitt þótti
einnig mikið lof ef einhver var talinn hófsmaður um alla hluti, eins og
kveðið er að orði um Þorstein Ingimundarson. Lýsingin á Þorsteini Egils-
syni í Gunnlaugs sögu er sambærileg við ummælin um Hofverjann:
Mýramaðurinn var „höfðingi mikill, vitur maður og hógvær og
hófsmaður um alla hluti. “ Sama setningin er notuð um ýmsa aðra menn í
fornritum, og má hér vekja athygli á lýsingunni á Ólafi Haraldssyni
kyrra í Fagurskinnu (1847: 142): „fámálugur oftast og ekki margræð-
inn á þingum, glaður við öl og fagurmæltur við vini sína og hófsmaður
um alla hluti. “ Engum mun hafa komið til hugar að nota skáletruðu
setninguna um föður Ólafs, Harald harðráða, en faðir Haralds, Sig-
urður sýr, hlýtur svofelldan dóm sögunnar: „Landstjórnarmaður var