Húnavaka - 01.05.1985, Page 85
HUNAVAKA
83
heim til Islands og gerir að eiginkonu sinni. Arneiður hét hún og
reyndist vera dóttir Ásbjarnar skerjablesa jarls yfir Suðureyjum.
Fljótsdæla saga fjallar hins vegar um Droplaugu dóttur Björgólfs jarls
yfir Hjaltalandi; Þorvaldur Þiðrandason bjargar henni úr trölla-
höndum og fær hana í laun fyrir tilvikið. Eins og jarlsdóttirin úr
Suðureyjum, þá gerist Droplaug húsfreyja á Arneiðarstöðum í Fljóts-
dal. Höfundur Fljótsdælu hefur löngum þótt heldur lélegur sagn-
fræðingur, en þó getur lítill vafi á því leikið, að hann mun hafa gert sér
grein fyrir annmörkum sínum sjálfur. Ætla má að honum hafi verið
fullkunnugt um að Hjaltland var aldrei sjálfstætt jarlsríki, heldur laut
það ávallt ýmist Noregi eða Orkneyjum. En hvernig sem uppruna
þessara göfugu kvenna var háttað í raun og veru, þá hressa þær
óneitanlega ættir manna fyrr á öldum. Má því undarlegt teljast í
Vatnsdælu að hún víkur ekki einasta orði að niðjum Þorkels kröflu, og
var þó móðir hans í ætt við orkneyska jarla.
1.7. Frásagnir Vatnsdælu af landnámum þeirra Ingimundar og
vina hans eru sambærilegar við aðrar Islendinga sögur, en þó eru þær
einnig sérstæðar að sumu leyti. Eftirminnileg er vinátta þeirra Ingi-
mundar og Sæmundar, að þeir láta ekkert á sig fá, þótt annar gerðist
stuðningsmaður Haralds hárfagra og hinn þverneitaði að fara að ráði
vinar síns. Andúð á konungi og ótti við ofríki hans munu hafa valdið
því að margir flýðu úr Noregi, og á hinn bóginn hefur þótt býsna
mikið afrek að flytjast búferlum til íslands, eins og sögurnar telja. Þó
verður ávallt að hafa í huga að atburðirnir sjálfir (svo sem landnámin)
lifa jafnan miklu lengur í minni en tildrættir þeirra. En hvað sem
staðreyndum líður, þá eru frásagnir Landnámu og nokkurra Is-
lendinga sagna (einkum Eglu, Eyrbyggju, Laxdælu, Grettlu og
Vatnsdælu) af frumbyggjum nokkurra héraða og tildrögum landnáms
ómetanlegur menningararfur: þar er lýst mönnum sem skiptu ekki
einungis um átthaga, heldur ýttu þeir úr norskri vör staðráðnir að
byrja nýja þjóð i nýju landi, þar sem menn væru „frjálsir af ágangi
konunga og illræðismanna,“ eins og raunar er hermt í Vatnsdælu
sjálfri.
Hér á eftir verða glefsur úr landnáms sögu Vatnsdælu bornar sam-
an við hliðstæða þætti í öðrum sögum.