Húnavaka - 01.05.1985, Page 101
HÚNAVAKA
99
Hvemig tókfólk þessu?
Því fannst þetta dálítið óhuggulegt til að byrja með, en vandist
þessu. Svo var sumt af fólkinu sem ekki vildi viðurkenna að það væri
neitt yfirnáttúrlegt við þetta. En það var öðruvísi með mömmu og
pabba. Þau voru orðin svo gömul að þau höfðu komist í kynni við
ýmislegt þannig í gamalli tíð í Skagafirðinum, þegar allt logaði af
Skottum og Þorgeirsbolum og voru ekki mjög uppnæm fyrir því. Þau
voru alla tíð viss um að ýmislegt dularfullt væri til.
Þessi læti endurtóku sig oft, en urðu langmest 1920. Eiginlega man
ég ekki eftir þessu síðan nema 1925, í hríðinni þegar hún Rósa varð úti
í Skyttudal. En svo segist Daddi bróðir muna vel eftir þessu 1934 í
mikilli hríð sem kom þá í desember. Á tímabilinu 1925 og fram yfir
1930 komu næstum aldrei hríðar.
Var þetta fyrirboði einhvers?
Ekki veit ég það, en þetta virtist ekki koma fram nema í hríðum.
Fólk var að setja þetta í samband við lát Guðmundar Pálssonar
silfursmiðs, en hann var á leið hingað frá Bollastöðum, yfir hálsinn, og
varð úti á leiðinni. Það mun hafa verið 1871. Hann kemur eitt sinn
síðar hér á glugga og kveður þessa vísu:
Eg var nokkuð ölvaður,
æviþráður slitinn minn,
kemst svo ekki í kórinn inn
kvíði litlu drengurinn.
Hann hafði ekki verið þíddur og komst kistan ekki í kórinn þar sem
hún var smíðuð utan um hann frosinn eins og hann fannst. Þetta var
nokkurs konar trú hjá fólkinu að það væri hann sem var á ferðinni.
Örnefnið Beinavarða er uppi á Hálsinum á merkjum milli Bolla-
staða og Steinár, rétt hjá þar sem hann varð úti. Ekki veit ég hvort það
örnefni er tengt þessum atburði.
Geturðu ekki sagt okkur frá einhverju merkilegu í göngum?
Ég fór fyrst í göngur 1921, þá 14 ára gamall, og fór síðan á hverju ári
bæði í fyrri göngur og eftirleitir þar til Daddi komst upp, en þá fórum
við að skipta því meira, sérstaklega fyrri göngum, en ég var þá meira í
eftirleitum. Ég man ekki eftir sérstaklega erfiðum göngum, nema
eftirleit eftir miklu hríðarnar, sem gerði haustið 1929, þegar þeir lágu
úti Pétur á Skriðulandi og Guðmundur Stefánsson sem var alinn upp