Húnavaka - 01.05.1985, Page 142
140
HÚNAVAKA
Já, þannig gekk þetta. Heim kom Dalabóndinn með vörur þær, er
hann hafði fest kaup á í kaupfélaginu. Hann kunni best við að versla
við sitt eigið félag. Við kaupmenn verslaði hann einnig nokkuð. Var
sem sagt ekki einsýnn í þessum efnum.
Á Hólanesi verslaði alllengi Einar Thorsteinsson kaupmaður á
Blönduósi, sem ég hef getið í þætti mínum um verslun á Blönduósi. Á
Hólanesi hafði Thorsteinsson útibú. Hann rak þar sláturhús meira að
segja. Verslunarstjóri á Hólanesi var lengi Ásgeir í Höfðahólum, stór
maður vexti. Hann var mjög fatlaður, átti erfitt um gang vegna þess
að hann var staur um mjöðm. En það var mesta furða hvað Ásgeir,
sem þá var orðinn aldraður maður er ég man hann, gat gert. Og
slyngur kaupmaður var karlinn. Þegar hann sagði hvað hlutirnir
kostuðu heyrðist hann segja aurar, en krónurnar heyrðust ekki nefnd-
ar. Mikið sælgæti var keypt af krökkum í verslun Thorsteinssons.
Þröng var búðarholan, en samt sem áður mátti þar margt finna, bæði
ætt og óætt. Þegar ég var í skóla á Hólanesi, en það var raunar aðeins
einn vetur, hljóp ég oft í búðina til Ásgeirs, ásamt öðrum krökkum, til
að kaupa eitthvað gott. Raunar held ég að ekki hafi verið keypt fyrir
mikið í hvert skipti. Ætíð var Ásgeir viðfelldinn í framkomu. Og víst
er, að út á framkomuna seldi hann ekki svo lítið, karlinn.
Sigurður Jónsson, aldraður maður, verslaði einnig á Hólanesi.
Hann hafði bækur til sölu. Er mér í minni, er foreldrar mínir voru að
kaupa námsbækur þar handa mér, rétt áður en ríkisútgáfan tók að
úthluta bókum til barna fyrir lítið sem ekkert gjald. Karlinn afgreiddi
sjálfur í búðarholunni sinni. Og það man ég, að mikið reykti hann.
Var nær ólíft þarna, í þessari skonsu, af þeim sökum. En þarna keyptu
foreldrar mínir fslands sögu, eftir Jónas Jónsson, Dýrafræði eftir sama
höfund, Biblíusögur Klaveness, Náttúrufræði eftir Bjarna Sæmunds-
son og Landafræði eftir Karl Finnbogason. Þetta kostaði nokkrar
krónur. Ekki þýddi annað en að sjá drengnum fyrir námsbókum, sem
orðinn var 10 ára, já, langt kominn á það ellefta. Þetta var fyrsta
bókaverslunin sem ég leit augum á minni lífsleið. Gaman væri að eiga
allar þessar bækur, varð mér á að hugsa. Ekki var um aðra bókaversl-
un á Skagaströnd að ræða. En fólk virtist ekki í svo mikilli þörf fyrir að
kaupa bækur þá, eða var kannski orsökin sú að fólkið skorti peninga til
bókakaupa? Kannski er það trúlegast. Einhvern veginn hafði fólk þó
nokkuð að lesa. Lestrarfélögin sáu um að fullnægja lestrarþörf fólksins