Húnavaka - 01.05.1985, Side 150
148
HÚNAVAKA
Ærsmjör var mun hvítara en kúasmjör og virðist hvíti liturinn í
sumum tilfellum hafa verið talinn galli á því. Kaupmaðurinn á
Hvammstanga seldi gulan lit til að setja út í ærrjómann svo smjörið
líktist kúasmjöri. Ennfremur var nokkuð um að rjóma úr ám og kúm
hafi verið blandað í strokknum til þess að fá gulara smjör, en að öðru
leyti var mjólk úr ám og kúm ekki blandað í vinnslu.
Af ýmsu sem hér hefur verið rakið má sjá, að í flestu hafi orðið
umtalsverðar breytingar frá því tímabili sem Jónas frá Hrafnagili lýsir
í bók sinni og til lokaskeiðs fráfærna í Húnavatnssýslum. Þetta getur ef
til vill vakið okkur til umhugsunar um, að ekki sé alls kostar rétt að líta
á lífs- og atvinnuhætti gamla bændasamfélagsins sem staðnaða og
gjörsamlega óumbreytanlega uns nútíminn ruddist skyndilega inn á
þjóðina með allri sinni tækni. Vitanlega hafa sífellt átt sér stað þróun
og hægfara breytingar byggðar á reynslu fyrri kynslóða og þess vegna
er vafasamt að slá föstu, að svona og svona hafi þetta verið „í gamla
daga“.
Hins vegar er athyglisvert að sjá, að aðeins eru þrjú atriði í frá-
færnabúskapnum, þar sem verulegur munur er á milli héraða. Þar á ég
við hvort stíað hafi verið, hvort stekkir hafi verið í notkun og hvort
mjólkað var í fasta- eða færikvíum. Erfitt er að finna skýringar á
síðasttalda þættinum, þar sem ekki er hægt að tengja þetta mun á
staðháttum eða búskaparlagi að öðru leyti. Hins vegar kemur í ljós, að
þar sem stekkir voru enn í notkun í minni heimildamanna, var nær
undantekningarlaust um mjög gamalt fólk að ræða og á svæðum þar
sem fráfærum var hætt fyrr en annars staðar í sýslunni. Frásagnir
þessa fólks áttu því við eldri tíma en annarra.
Venjan að stía dreifðist hins vegar jafnara yfir sýslurnar, en vert er
að benda á þá sérstöðu Vatnsnessins sem áður var rakin, að þar bjó
helmingur allra þeirra heimildamanna sem mundu slíkt. Þetta má
vera tilviljun, en vert væri að gera könnun á, hvort aðrir starfshættir,
ótengdir því sem hér um ræðir, hafi líka haldist lengur þar en annars
staðar í sýslunni.
Þá er komið að hinni forvitnilegu spurningu, hvenær fráfærur
lögðust af og ástæðunum sem að baki lágu. Áður en könnunin var
gerð, var nokkuð ljóst, að einhver munur var á milli landshluta í þessu
tilliti, en nú kom í ljós, að Húnavatnssýslur voru með allra fyrstu
svæðunum á landinu til þess að leggja fráfærur niður.