Húnavaka - 01.05.1985, Síða 152
150
HUNAVAKA
mikilvægustu ástæðu þess að fráfærum var hætt. Einnig töldu sumir
verðfall á smjöri á fyrstu árum aldarinnar sem ástæðu.
I Langadal reyndist mönnum að sögn auðveldara en víða annars
staðar að hætta að færa frá, því að kýr voru þar oftast 3-4 á hverjum
bæ og jafnvel fleiri, mun fleiri en almennt tíðkaðist. Á fyrstu árum
aldarinnar tóku búnaðarfélögin einnig að ráða menn sem ferðuðust
um og ristu þýfi fyrir bændur og stuðlaði þessi aukna túnaræktun líka
að því að auðveldara varð að heyja ofan i fleiri kýr. Þessi breyting
tengist öðru atriði sem margir nefndu, en það var fólksekla. Með
þorpamyndun og tilkomu annarra atvinnutækifæra varð æ erfiðara
að ráða aðkomufólk, fyrst og fremst smala og mjaltakonur. Þess eru
dæmi að kaupakonur hafi sett sem skilyrði við ráðningu, að þær þyrftu
ekki að mjólka ær. Möguleikar á aukinni túnaræktun og fjölgun kúa
gerðu það að verkum, að ef til vill var ekki gengið eins fast að því að fá
fólk í þessi óvinsælu störf.
Auk þess sem hér hefur verið talið upp, komu einstaklingsbundnar
ástæður við sögu. Lambadauði á bæ á Heggstaðanesi vorið 1914 varð
til þess að ekki var fært frá eftir það, Vatnsdælingur einn kvað 1906
hafa verið leiðindavor og hafi þá verið hætt o.s.frv. En eftir að reglu-
legum fráfærum var hætt, gat staðið svo á að menn tækju þær upp
aftur eitt og eitt ár. Ástæðurnar voru oftast fátækt og mjólkurleysi,
einkum ef menn voru að byrja búskap og áttu ekki kú, en líka til þess
að gera ær hagspakar eftir flutning.
Oftast var þetta á árabilinu 1914-20. Þau ár kom tvennt til sem
sérstaklega var tilgreint, harðindi frostaveturinn 1918 svo að kýr
drápust, og skömmtun á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Síðustu
óyggjandi heimildir um að fært hafi verið frá er árið 1927, þegar ungur
bóndi hóf búskap í Langadal. Auk þess minnti mann einn í Miðfirði,
að fært hafi verið frá heima hjá honum vorið 1931, en systkinum hans
bar ekki saman við hann. Þar skeikaði allt að 10 árum, svo að það ártal
ætti að taka með fyrirvara.
Allt þetta amstur er orðið æði fjarlægt okkur nú á dögum. Ær-
mjaltir töldust með verstu skítverkum og mjaltakonur kvörtuðu oft
undan bakverk og dofa í hægri hendi, en með henni var mjólkað. Þótt
ærmjólkin væri feit og skyrið gott, bar öllum saman um að flestir hafi
verið fegnir þegar hægt var að hætta að færa frá. Ólíklegt er að nokkur
fengist til þess nú til dags að tutla túnrotturnar, en svo nefndu sumir
heimildamanna okkar þær ær sem sóttu mikið í túnin.