Húnavaka - 01.05.1985, Page 200
MARGRÉT JÓNSDÓTTIR frá Fjalli:
Dulrænar frásagnir
Fyrstu sýnir
Þaö var vetur og víðast myrkur í gamla bænum. Foreldrar mínir
voru frammi í fjósi, en hitt fólkið inni í baðstofu. Einhverra hluta
vegna var ég ein inni í búri. Þannig háttaði til, að tvö búr voru á
bænum og var venjulega borðað í innra búrinu. Þaðan var gengið í
gegnum fremra búrið. Þar fyrir framan var hlóðaeldhús og úr því
langur gangur inn baðstofu og þaðan var einnig gengið inn í fjósið.
Eg var að stjákla þarna í búrinu og hef sennilega ekki þorað að fara
í myrkrinu inn í baðstofu. En ljósgeislinn í innra búrinu, þar sem ég
var, féll fram um fremra búrið og alveg fram í eldhúsið.
Allt í einu sá ég hvar maður stóð frammi í eldhúsinu. Hann var í
mórauðri peysu og móleitum buxum. Hann hélt á einhverju, sem
hann brá upp í ljósgeislann, eins og til að sjá það betur. Ekki sá ég
framan í hann, en taldi víst að þetta væri faðir minn, þangað kominn
úr fjósinu, einhverra hluta vegna. Ég var því ekkert hrædd.
Þegar foreldrar mínir komu úr fjósi, spurði ég föður minn hvort
hann hefði farið inn í eldhús, en hann sagðist ekki hafa komið þangað
fyrr en nú. Sagði ég foreldrum mínum þá frá manninum, sem ég hafði
séð, en þau sögðu ekkert. Ég minntist ekki meira á manninn við þau.
Súmarið eftir var ég einu sinni úti stödd, sem oftar og var eitthvað
að hoppa og leika mér. Þannig háttaði til, að ofan við túnið var stórt
hesthús og við hliðina á því var fjárrétt. Mér varð litið upp að réttinni
og sá þá, að þar stóð maður upp við réttarvegginn. Ég sá hann
greinilega, enda var bjart og sólskin. Hann var í móleitum fötum. Ekki
mun ég hafa virt hann lengi fyrir mér, því að ég var að leika mér með
eitthvert dót.
Þegar ég kom inn spurði ég móður mína, hvað frændi (föðurbróðir)