Húnavaka - 01.05.1985, Page 201
HUNAVAKA
199
væri að gera upp við rétt. Mamma sagði, að hann væri ekki þar, hann
hefði farið í kaupstað snemma í morgun og um aðra gat ekki verið að
ræða, því að faðir minn og vinnumaðurinn voru heldur ekki heima.
Ég mun hafa verið fimm eða sex ára, þegar ég sá þessar fyrstu sýnir.
Öskrið í þokunni
Það var þoka og hún var dimm eins og veggur og þá var okkur
Guðnýju sagt að sækja hrossin. Við Guðný löbbuðum af stað en
fundum ekki hrossin og vorum framlágar. Þokan var ekkert lamb að
leika sér við, fannst okkur, því að maður sá næstum ekkert frá sér.
Hrossin sáust hvergi, slæmt skyggni, eins og sagt er nú til dags.
Við vildum ekki gefast upp og héldum því áfram, lengra upp
brekkurnar, gengum síðan suður yfir Taglið, sem liggur frá brekku-
brúninni niður að Hádegisholtinu. Við vorum búnar að ganga ansi
langt, að okkur fannst og fundum ekki hrossin. Okkur datt þá í hug, að
kannski hefðu þau farið suður í Fífulág og væru þá sennilega komin
saman við stóðið. Ræddum við um þetta fram og aftur.
Ætluðum við nú að hvíla okkur litla stund og settumst á þúfur. Þá,
allt í einu, var sem þokan sveiflaðist frá og við sáum á sama andartaki
langt frá okkur. En við sáum ekki hrossin. Þau voru ekki í sjónmáli.
En við sáum annað. í barði skammt frá okkur sáum við einhverja
skepnu, nautgrip, sýndist okkur einna helst. Þó fannst okkur ekki
líklegt, að nautgripur væri þar einn og ekki fóru heimakýrnar á
þennan stað, svona langt upp í brekkuna.
Við gláptum á þetta ofurlitla stund og skildum ekki neitt í neinu. Þá
heyrðum við þetta ógurlega öskur, sem nísti merg og bein. Þá biðum
við ekki boðanna en hlupum heim í einum spretti. Sögðum við farir
okkar ekki sléttar þegar heim kom. Móðir mín tók sig þegar upp og fór
sjálf til að forvitnast um þessa skepnu og hrossin, en sá hvorugt og var
þó öll þoka á bak og burt.
Þegar mamma var rétt komin úr leiðangri sínum, án þess að verða
nokkurs vísari, kom gestur einn heim, sem sagt var að Þorgeirsboli
fylgdi.
Oft hef ég umgengist naut og til þeirra heyrt og þau láta oft til sín
heyra svo um munar, en aldrei hef ég heyrt annað eins nautsöskur og
að framan er frá sagt og við systurnar heyrðum sunnan og ofan við
Kambakot fyrir 55 árum síðan.