Húnavaka - 01.05.1985, Side 204
202
HÚNAVAKA
Hvítklædda konan
Það mun hafa verið árið 1925, sem eftirfarandi gerðist á Sæunnar-
stöðum í Hallárdal. Sú jörð er nú í eyði, en þá voru foreldrar mínir þar,
þau Jón Klemensson og Guðrún Sigurðardóttir.
Faðir minn bað mig að skreppa einhverra erinda niður á Árbakka.
Tók ég tvö rauð hross, sem heima voru og hélt af stað niður að ánni.
Þegar ég kom niður á Taglið, sem er fyrir neðan Vakurstaði og sá
yfir ströndina og Húnaflóa, lognsléttan og baðaðan sól, fannst mér
sem ég sæi inn í aðra veröld.
Mér leið framúrskarandi vel. Hryssan, sem ég sat á, var viljug, rauði
folinn léttur í taumi og fuglarnir sungu. Allt var bjart og fagurt og það
komst ekkert annað að í mínum huga en að njóta stundarinnar sem
lengst og best.
Þegar ég kom niður á götuna á milli Vindhælis og Árbakka lét ég þá
rauðu greikka sporið og var brátt komin svo nærri Árbakka, að ég sá
vel heim og það sem gerðist þar.
Ég sá hvar hvítklædd kona kom heiman frá bænum og gekk hægt
niður syðri traðarbrúnina. Horfði ég á hana og var að hugsa um, hvað
hún væri í drifhvítum búningi. Þannig hagaði þá til sunnan við
tröðina, neðarlega á túninu, að þar var hesthús og þurfti að fara fram
hjá því til að komast í hliðið.
Konan fór á bak við húsið, frá mér séð, en hún kom ekki í augsýn
aftur. En eftir dálitla stund kom unglingsstúlka heiman frá bænum og
gekk nákvæmlega sömu leið og hvítklædda konan hafði gengið stuttri
stund áður. Eg horfði á stúlkuna, en hún kom í ljós aftur, eftir að hafa
gengið bak við hesthúsið, svo sem eðlilegt var og fór síðan í gegnum
hliðið. Hún var að fara í kaupstað og hélt áfram sem leið liggur.
Ég fór heim í Árbakka og rak það erindi, sem mér var falið og hélt
heim að því loknu. Ekki man ég til að ég ræddi þetta atvik við neinn
heima. Eg var þá búin að átta mig á því, hver þessi hvítklædda kona
var, en það var móðir ungu stúlkunnar, sem var að fara í kaupstaðinn
og hafði móðirin andast veturinn áður. Og það var dóttirin, sem gekk
í spor móðurinnar á traðarbarminum þennan dag.