Morgunblaðið - 11.06.2015, Side 22
22 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 11. JÚNÍ 2015
Að kveðja ætt-
ingja og vin er ekki
auðvelt. Ein af mín-
um fyrstu minning-
um er að ég fór með
honum í bílferð. Plötuspilarinn
spilaði Lóan er komin. Ég söng af
lífs og sálarkröftum með. Mörg-
um árum seinna skildi ég að svip-
urinn á frændanum lýsti skelfingu
því ég var alveg rammfölsk en
hann sagði við mig að ég hefði ver-
ið dugleg að syngja með. Hann
var afar barngóður, svo mjög að
flestöll börn hændust að honum.
Við áttum margar stundir saman
ég og frændinn. Ég studdi við
hann og hann við mig. Á stundum
skammaðist ég er ég taldi of
mörgum stundum varið með
Bakkusi. Hann tók því nú oftast
vel, margar rökræðurnar fóru
fram okkar á milli. Það er nefni-
lega svo satt sem hann sagði: Það
er ekki sama hver og hvernig
maður er skammaður, Ásta. Í dag
skil ég betur hvað hann átti við en
áður.
Já, það eru svo margar minn-
ingar svo skemmtilegar og fyndn-
Friðrik Gestsson
✝ Friðrik Gests-son fæddist 14.
janúar 1950. Hann
lést 23. maí 2015.
Útför Friðriks
fór fram 2. júní
2015.
ar eins og þegar
Eygló mín og Torfi
teiknuðu framan í
þig með art line-
penna þegar þú
fékkst þér kríu í sóf-
anum. Þú svaraðir
fyrir þig með vísu.
Mikið hlegið eftir að
vísan var lesin og all-
ir sáttir. Þú varst
snillingur í að yrkja
ljóð og mikill sögu-
maður enda orðheppinn mjög.
Það var aldrei leiðinlegt að eyða
með þér stundum enda vorum við
mikið saman gegnum tíðina. Eitt
sinn leigðum við okkur sumarbú-
stað á Illugastöðum yfir helgi og
fórum þangað með Tryggva Jón.
Það var alveg mögnuð helgi, gerð-
ar krossgátur, gerðar vísur, eld-
aður góður matur, já og alltaf
hlátur og sögustundir.
Þú og Tryggvi Jón voruð ein-
staklega miklir vinir. Þú hafðir
alltaf tíma fyrir hann og þolin-
mæði. Það eru nú samt til alveg
ótrúlega margar myndir hjá mér
af ykkur tveimur saman í fyrr-
nefndum stofusófa að fá ykkur
kríu.
Þú varst aldrei mikið fyrir að
mæta í veislur og ég man eitt sinn
þegar ég hafði boðið þér í afmælið
mitt og þú komst ekki en mættir
nokkrum dögum seinna og færðir
mér vísu:
Þrettánda desember skaust hún í heim-
inn
ég man ekki árið því ég er svo gleym-
inn.
Fimm dögum seinna ég mæti hér feim-
inn
og vona að ég fái ekki spark útí geim-
inn.
Svona var nú alltaf stutt í grínið
hjá frændanum. Alltaf að sjá
spaugið í sem flestu. Af mörgu er
að taka í minningabankanum en
ég held að ég segi ekki mikið
meira að sinni. Ég hugsa þeim
mun meira og trúi því að hann
muni vita af því. Nú getur hann
hitt ásvini sína sem farnir eru,
glaðst og grínast með þeim öllum.
Litið eftir prinsinum mínum og
þeir prakkarast saman. Ég læt
fylgja orðum mínum hér ljóð er ég
samdi eftir að þú, minn kæri,
kvaddir þennan heim og hélst af
stað á betri stað þar sem gleðin
mun ráða ríkjum.
Elsku, Magga, Susan, Sara,
Gestur og Maggý, mínar innileg-
ustu samúðarkveðjur.
Öðlingur hefur fallið mér og öðrum frá,
seint ég mun honum Fidda gleyma.
Hann kunni að yrkja og segja vel frá,
ég sit og myndir fram í hugann streyma.
Tárin detta eitt, tvö, þrjú,
samt var gleðin okkur oft svo nærri.
Hann gat verið bæði húsbóndi já eða
hjú,
allt eftir því hvað á var kosið.
Þrátt fyrir vorið þá finnst mér nú,
að í sál minni sé allt dálítið frosið.
Ásta Fr. Reynisdóttir.
✝ Kristín Þor-leifsdóttir
fæddist 22. maí
1917 á Höfða í
Eyjahreppi í
Hnappadalssýslu.
Hún lést á dvalar-
og hjúkrunarheim-
ilinu Grund í
Reykjavík 4. júní
sl.
Foreldrar henn-
ar voru Þorleifur
Jónsson, bóndi á Höfða, f. 20
apríl 1874 í Ytri-Hraundal,
Hraunhreppi í Mýrasýslu, d. 19.
október 1954 í Reykjavík, og
kona hans, Jóhannna Sigríður
Ólafsdóttir, f. 25. október 1878 í
Tjaldbrekku, Hraunhreppi í
Mýrasýslu, d. 9. febrúar 1979 í
Reykjavík.
Kristín giftist 17. júní 1952
Guðjóni Kristmannssyni, f. 18.
október 1918 í Gíslholti vestra,
við Ránargötu í Reykjavík.
Guðjón var löngum togara-
sjómaður en síðast inn-
heimtumaður. Hann lést í
Reykjavík 6. maí 1984. Kristín
og Guðjón áttu heima á Holts-
götu 18 í Reykjavík en frá 1993
var heimili Kristínar á Granda-
vegi 47 í Reykjavík.
Barn Kristínar
og Guðjóns er Auð-
ur, f. 13. apríl 1954
í Reykjavík, kenn-
ari við Fjölbrauta-
skólann í Breið-
holti. Hún var í
sambúð með Magn-
úsi Snædal há-
skólakennara.
Barn þeirra er
Kári, f. 10. nóv-
ember 1978, forrit-
ari í Reykjavík. Auður giftist 5.
júní 1998 Helga Þorlákssyni há-
skólakennara. Barn þeirra er
Kristín Halla, f. 8. nóvember
1993 í Reykjavík, háskólanemi.
Kristín var yngst níu systk-
ina, þau eru öll látin. Hún réð
sig í vist í Reykjavík en
skömmu síðar fluttist fjölskylda
hennar til Reykjavíkur, faðir
hennar var bóndi í Langholti
1934-36 og síðan í Breiðholti
1936-54. Kristín stundaði m.a.
kaupavinnu á ýmsum stöðum
og síldarsöltun en vann annars
á búi föður og bróður í Breið-
holti. Hún starfaði lengi í bók-
bandsvinnu, lengst af í Bókfelli
á Hverfisgötu í Reykjavík.
Útför hennar hefur farið
fram í kyrrþey.
Elsku amma mín. Þegar ég
fæddist átti ég enga ömmu á lífi.
En svo gerðist það. Við Kári sát-
um í eldhúsinu í yndislegu ris-
íbúðinni þinni á Holtsgötu að
borða ís og ég spurði „Amma, má
ég fá meira?“ Þetta sagðir þú
mér mörgum árum seinna, líka
það að þér var brugðið, þarna
kallaði ég þig ömmu í fyrsta
skipti.
Þú passaðir mig á nánast
hverjum degi frá því að ég var
þriggja mánaða gömul og fram til
fimm ára aldurs. Þannig voru
margar af mínum fyrstu minn-
ingum heima hjá þér, með þér.
Þú, blómin, pilsin þín, garðurinn,
sólskinið, lyktin, maturinn. Þú
varst alltaf að reyna að fita mig.
Mikið var alltaf gott að koma til
þín. Einhverra hluta vegna var
mjólkin alltaf langbest hjá þér.
Það var samt ekki bara mjólkin
sem var best heldur var lífið líka
best þá. Ég hugsa til þessa tíma
með mikilli hlýju. Sömu yndis-
legu hlýjunni og örygginu sem ég
fann fyrir þegar ég var með þér.
Elsku amma. Það er svo sárt
til þess að hugsa að geta aldrei
aftur faðmað þig, verið hjá þér.
En þú skilur eftir þig svo margar
fallegar minningar. Takk fyrir
allt sem þú hefur gert og allt sem
þú varst í mínu lífi. Þú komst þér
rækilega fyrir í hjartanu mínu og
ég get sótt hlýjuna þína þangað
hvenær sem er. Ég mun sakna
þín, elsku besta amma. Nú færðu
loksins að hvíla þig. Þín
Hanna Kristín.
Kristín tengdamóðir mín var
fumlaus og forkur til vinnu, sterk
og hraust. Um leið var hún ljúf og
blíð og alltaf tilbúin að spauga,
mest á eigin kostnað. Undanfarin
ár sagðist hún bara „liggja í leti
og ómennsku“, gerði ekkert ann-
að en að hvíla sig. Stundum
spurði ég um gamla daga og þá
kom í ljós að hún sló með orfi og
ljá eins og karlarnir, var í kaupa-
vinnu og ráðin til sláttar, enda
skemmtilegra en að raka, sagði
hún. Um áttrætt var hún enn svo
mikilvirk að undrun vakti. Hún
vildi aldrei láta hafa neitt fyrir
sér, gerði alltaf skyldu sína og sat
fram á kvöld, á tíræðisaldri, lagði
saman reikningana sína, meðan
sjón leyfði, og greiddi allt í tæka
tíð. Hún gladdist yfir litlu, t.d.
kaffisopa og sígarettu, já hún
reykti á tíræðisaldri. Hún kættist
þegar boðið var upp á spil. Minn-
isstæð er hún í sumarbústað, 97
ára gömul, hálfsjónlaus og spilaði
eins og engill, var kannski öðrum
lengur að sortera í upphafi en
sagnirnar voru skynsamlegar og
hún var klók að reikna út hvað
aðrir höfðu á hendi enda vann
hún nánast alltaf. Oft fór hún yfir
stöðuna, að loknu spili, rakti hvað
hver hefði haft á hendi og hvenær
staðan var tvísýn og sérstaklega
spennandi. Stundum benti hún á
eigin mistök og hló yfir aula-
skapnum sem hún kallaði svo.
Síðan fór hún kannski út á pall
með kaffi og sígarettu nema hún
færi í heita pottinn. Full af inn-
lifun og lífsgleði, 97 ára.
Í fyrrahaust datt hún illa í
íbúðinni sinni, fór á sjúkrahús og
loks á Grund. Við það fóru venju-
bundnir hættir úr skorðum, svo
sem tengslin við útvarpið, þótt
gerðar væru ráðstafanir til að
bjarga því. Áður gat dóttir henn-
ar hringt og spurt, þegar á þurfti
að halda, hvernig veðrið yrði á
morgun; aldrei brást að hún
kunni veðurspána utan að, en
ekki lengur, eftir byltuna. Og hún
var hætt að hlusta á upplestur á
diskum sem Hljóðbókasafnið
sendi. Það eru fá misseri síðan
hún var jafnan fyrst í fjölskyld-
unni til að kynna sér nýjustu jóla-
bækurnar, hlýddi á þær lesnar
upp, og ræddi um þær af skiln-
ingi og skynsemi.
Á Grund hlaut hún góða
umönnun og við tókum stundum í
spil. En þetta var ekkert líf, fyrir
þennan dugnaðarfork, og samt
tók hún öllu með æðruleysi og
gerði að gamni sínu fram í and-
látið. Fyrir fáum dögum lýsti
dóttir hennar fyrir henni að nóg
væri að gera hjá okkur, hún hefði
gert þetta, ég hitt. „Getið þið ekki
fundið eitthvað fyrir mig að
gera?“ sagði Kristín og brosti. Þá
hafði hún enn hrasað, fann fyrir
eymslum og dóttir hennar, sem
vildi að færi betur um hana, vissi
ekki hvernig hún gæti mjakað
henni upp á við í rúminu. „Toga
hérna,“ sagði Kristín, og greip í
eigið hár í hnakkanum.
Mér er nær að halda að Kristín
Þorleifsdóttir hafi verið alveg
fullkomin tengdamóðir, laus við
alla afskiptasemi og naut þess að
hjálpa og gleðja, veitingasöm og
hlý, stórbrotin í gjöfum og besta
amma sem Kári og Stína gátu
ímyndað sér. En mest var um
vert að fá hana í heimsókn um
helgar, uppábúna og glaða og
spjalla við hana um gamla daga,
minnuga og hleypidómalausa.
Helgi Þorláksson.
Stína frænka sagði mér að það
hefði snjóað mikið þegar ég
fæddist og hún því ekki komist
strax til að skoða barnið. Nú er
enginn lengur til frásagnar um
merkilegan atburðinn. Að sjálf-
sögðu er margs að minnast af
langri lífsgöngu okkar saman.
Stína var alltaf til staðar en
mamma kallaði hana „hjálpar-
sveitina“ því hún var stoð hennar
og stytta, að síðustu í veikindum
hennar fyrir um 30 árum. Með
þessum skrifum vil ég þakka allt
það sem Stína gerði fyrir okkur á
langri ævi sinni.
Ófáa sumardagana dvöldum
við á Þingvöllum. Þar við vatnið,
undum við í tjöldum umvafin lág-
vöxnu kjarrinu, ásamt fleiri
systkinum Stínu og börnum. Man
ég vel kvöldgönguna þegar við
stelpurnar röltum að Valhöll með
Stínu frænku í sérkennilegri aft-
anbirtunni. Smáar upplifanir
æskunnar eru yndislegar.
Stína hafði mikla ánægju af
veiði og fór oft með körlum og
börnum enda fannst henni sil-
ungur góður matfiskur. Því rat-
aði oft afli annarra veiðitúra til
hennar síðar meir. Við frænka
mín áttum það sameiginlegt að
hafa gaman að hannyrðum, hún
saumaði mikið út og prjónaði
margar flíkurnar og sýndi mér
gjarnan vinnu sína. Ég naut þess
að geta aðstoðað hana þegar þess
þurfti og sjónin var að hverfa.
Margar voru ferðirnar okkar
upp í sumarbústað þeirra Stínu
og Guðjóns í Breiðholtinu, rétt
hjá gamla Breiðholtsbænum, þar
sem þau systkini bjuggu áður
ásamt foreldrum sínum. Þá tók-
um við t.d. far með strætisvagni
upp í Blesugróf og gengum upp
holtið að bústaðnum. Þegar ég
sagði ungum dætrum mínum frá
þessum bústaðarferðum okkar
frá því í gamla daga, þótti þeim
líklegt að við hefðum gengið upp
eftir á sauðskinnsskóm, svo mikil
forneskja fannst þeim vera í frá-
sögninni. Stór Breiðholtsfjöl-
skyldan tók móður mína að sér
opnum örmum, við skilnað for-
eldra hennar þegar hún var 6 ára
gömul, en þau leigðu húsið sem
afi minn smíðaði á Rauðamel á
Snæfellsnesi.
Aldrei voru veislurnar hjá for-
eldrum mínum á gamlárskvöld
án þeirra hjóna úr Vesturbænum
og einkadóttur þeirra, Auðar. Við
vorum í rauninni öll alin upp sam-
an, ásamt systurdætrum Stínu,
þeim Helgu og Jóhönnu, sem
voru á svipuðu reki. Síðustu árin
hittumst við í afmæli Stínu þar
sem hún bakaði sjálf veitingarn-
ar, seinast komin á tíræðisaldur.
Alltaf var Stína tilbúin að að-
stoða okkur yngri kynslóðina.
Hún var hjálparhellan mín og
gætti dóttur minnar þegar skóli 6
ára stúlku var brot úr degi. Svip-
að gerði hún fyrir Önnu systur og
eftir það kölluðu dætur hennar
hana ömmuna sína þar eð þær
áttu enga slíka á lífi.
Þegar aldurinn færðist yfir
komu Stína og Hanna með okkur
í sumarbústaði víðsvegar á land-
inu. Í Þórsmörk gengum við Auð-
ur langa vegu með þeim systrum
á áttræðisaldri. Sumarkvöld-
göngunni frá Vífilsstöðum að El-
liðavatni gleymi ég ekki, þar sem
þær mæðgur og ég réðumst
göngulúnar til inngöngu í mann-
laust hús og tókum á móti hús-
ráðendum stuttu síðar með rjúk-
andi heitu kaffi. Nú gengur Stína
síðustu skrefin inn í sólsetrið til
móts við Guðjón og alla vinina
sem hún saknaði samvista við síð-
ustu æviárin sín.
Hrafnhildur Gunnlaugsdóttir
Hún elsku Stína okkar er nú
fallin frá 98 ára að aldri.
Ég var svo lánsöm að eiga
Stínu sem frænku. Þegar ég
hugsa til baka koma upp margar
skemmtilegar og ljúfar minning-
ar. Þar ber hæst allar sumarbú-
staðarferðirnar í Sauðhúsaskóg
og veiðiferðirnar sem tilheyrðu
ferðalögunum. Stína hafði gaman
af því að ferðast, prjóna og baka.
Þegar farið var í Sauðhúsa-
skóg var alltaf mikil spenna og
gleði, hún var búin að baka
margs konar bakkelsi til að taka
með í nesti og var maulað á þessu
alla ferðina. Hún naut útiverunn-
ar og þegar sólin ákvað að láta
sjá sig var hún fyrst út á verönd
með góða bók í hönd. Það til-
heyrði að fara að veiða í Langa-
vatni í þessum ferðum, Stína og
afi höfðu einstaklega gaman af
því að láta okkur krakkana koma
orminum á öngulinn því okkur
fannst það ógeðslegt og vor-
kenndum aumingja ánamaðkin-
um.
Að koma til hennar á Holtsgöt-
una og á Grandaveginn var alltaf
spennandi og gaman, þar tók á
móti manni ilmandi baksturslykt,
bakstur var Stínu lítið mál. Vildi
hún að við boðuðum komu okkar
til hennar þannig að hún gæti
verið búin að baka pönnukökur
eða finna til það sem hún átti í
frysti, aldrei skorti neitt þegar
þangað var komið. Á meðan Guð-
jón lifði var farið út í smíða-
geymslu og ýmislegt brasað þar
ásamt því að taka upp radísurnar
í garðinum og að því loknu fékk
maður mjólkurglas og eitthvað
nýbakað í gogginn.
Stína var mikil prjónakona og
prjónaði hún margar flíkurnar
sem við vorum svo heppin að
eignast. Hún kenndi mér að
prjóna og hjálpaði mér með
fyrstu peysuna, til hennar var
alltaf hægt að leita ráða með
prjónaskap og margt annað.
Stína var hreinskilin, jarð-
bundin og samkvæm sjálfri sér,
minnug og full af fróðleik það var
andleg næring að sitja með henni
á spjallinu.
Börnin okkar Gunna tóku
miklu ástfóstri við Stínu frænku
og var hún í miklu uppáhaldi hjá
þeim. Þegar bakað er banana-
brauð hér á bæ tala þau alltaf um
Stínu brauð. Þau bíða spennt eft-
ir því að fara í Veiðivötn og nota
Stínustöng og á jólunum setja
þau upp jólasveinana sem Stína
prjónaði handa þeim
Við kveðjum nú elsku Stínu
með söknuði með góðar og fal-
legar minningar í hjörtum okkar.
Anna, Gunnar, Malín María,
Rak6el Rán og Oliver Orri.
Langlífi virðist sumum ættum
betur gefið en öðrum. Það þarf
ekki endilega að vera blessun,
sumum jafnvel böl, en ef lífið
farnast vel skapast ómetanleg
tenging milli kynslóða. Færir
vitneskju gamalla og hálf-
gleymdra tíma inn á gafl afkom-
enda og sannfærir þá á svip-
stundu um að merkilegustu
framfarirnar voru þegar gúmmí-
stígvélin komu til sögunnar og
verður ekki deilt um það. Annars
var Stína ekkert að velta sér upp
úr þessu, var frekar að pæla í
samtímanum og hafði skoðun á
öllum fjáranum, jafnvel svo að
yngra fólk sem allt þykist vita
varð kjaftstopp. Stundum er þörf
að leiðrétta þegar farið er með
fleipur.
Með sitt blágráa hár, sem var
ekta, með sitt ákveðna ljúflyndi,
sem líka var ekta, var hún af-
skaplega góður sessunautur,
ræðin og rökföst, og minnið nán-
ast óbrigðult. Það er ávallt eft-
irsjá að öllum þeim fróðleik sem
fer forgörðum þegar slíkir sagna-
bankar kveðja og verður seint
bætt.
Hún leit til með stelpunum
mínum þegar þær voru litlar og
var þar í ömmustað, sveif
áreynslulaust inn í það skarð sem
tengdamóðir mín og uppeldis-
systir hennar, Hanna Haralds-
dóttir, skildi eftir þegar hún lést,
langt um aldur fram. Þá bar hún
veturlangt á milli okkar Guðjóns
mannsins síns kerskniskveðskap
og rímþrautir af ýmsum gæðum
og gerðum en við höfðum alla-
vega gaman af. Ófáum sinnum
dvöldum við saman í sumarbú-
stöðum hingað og þangað um
landið og undum okkur við spil og
léttar veigar í góðum félagsskap
Auðar dóttur hennar og Helga
hennar manns, að ógleymdri
Stínu nöfnu hennar, en þetta fólk
tel ég til minna bestu vina. Í þess-
um hópi var mikla vitneskju að
finna, sem var óspart deilt og er
ég mun fróðari fyrir bragðið.
Það hefur auðgað líf mitt að fá
að verða samferða Kristínu Þor-
leifsdóttur öll þessi ár, en þau eru
orðin æði mörg. Minningarnar
um hana, Guðjón og ljóð og sögu
landsins munu fylgja mér alla tíð.
Farvel Stína mín.
Sigurður Rósarsson.
Að fá að kynnast Kristínu Þor-
leifsdóttur og eiga fyrir vinkonu
voru forréttindi. Hún var amma
bestu vinkonu minnar, Kristínar
Höllu. Milli þeirra var einstök
tenging og leitun er að fallegra
sambandi. Síðasta heimsókn mín
til Kristínar eldri var viku áður
en hún dó og mun ég ævinlega
vera þakklát fyrir að hafa getað
kvatt hana á þann hátt. Sólríkur
maídagur sem ég og Stína höfð-
um varið í Vesturbæjarlaug.
Kristín lá þá á Grund þar sem
hún dvaldi síðasta hálfa æviár
sitt. Stína var þegar komin til
hennar, sat á rúmstokknum og
hélt um hendurnar á ömmu sinni.
Þar voru samankomnir tveir
sálufélagar. Það var ekki að sjá á
Kristínu að hún væri á förum
eitthvað í bráð þó hún hefði verið
rúmliggjandi undir hið síðasta,
svo brann gleðin og kímnin í aug-
unum. Hún reisti sig upp við
dogg þegar ég kom inn í herberg-
ið og fannst gaman að sjá mig og
mér hana. Hún lék á als oddi,
með glettið bros á vör. Hún tók
sig aldrei hátíðlega og það var
ekki til í henni tilgerð eða hroki.
Með báða fætur á jörðinni, kona
sem hafði marga fjöruna sopið og
uppskar eins og hún sáði á langri
og gæfuríkri ævi. Aldrei logn-
molla í kringum hana. Kristín var
oft mjög hnyttin og orðheppin í
tilsvörum – húmoristi fram í fing-
urgóma, en Stína vinkona hefur
sennilega erft það í beinan kven-
legg. Fyrst og fremst var Kristín
þó blíð og góð, með hlýja og ynd-
islega nærveru. Hugurinn reikar
aftur til gæðastunda sem ég átti
með þeim nöfnum í litla eldhús-
inu á Grandavegi 47, með útsýni
yfir hafið, sérbakað vínarbrauð á
borðum og spjall um daginn og
veginn. Þetta eru minningar sem
ég mun varðveita eins og fjár-
sjóð.
Þegar Stína hringdi í mig og
sagði mér að amma hennar hefði
kvatt, hjólaði ég út í búð og vildi
finna blóm. Ég staldraði fyrst við
hvítan rósavönd, hafði heyrt að
það væri viðeigandi við andlát.
En hvít blóm fannst mér dapur-
leg og alls ekkert lýsandi fyrir
Kristínu Þorleifs. Upp í huganum
kemur mynd af smávaxinni en
hraustri konu, fullri af seiglu og
lífsgleði. Alltaf glæsileg til fara,
oft í litríkum blússum, með fín-
gerða gullkeðju um hálsinn og
snjóhvítt hár. Með sígarettu og
kaffibolla við hönd, svalir fylltar
blómum sem hún sinnti af alúð.
Sannarlega góð og elskandi
amma. Ég endaði á að velja lítið
og sterkrautt rósabúnt, fegursta
vöndinn sem ég fann og í takt við
hennar einstaka og fallega kar-
akter.
María Elísabet Bragadóttir.
Kristín
Þorleifsdóttir