Húnavaka - 01.05.2005, Page 85
INGIBJORG EYSTEINSDOTTIR, Beinakeldu:
Hvað var í fjörunni?
Fyrir um sjötíu árum gerðist, á bæ einum norðanlands, atburður sá er
hér segir frá. Bær þessi stóð skammt frá sjó og hesthús nokkuð frá en
nær sjónum. Brött brekka var frá hesthúsinu niður í fjöruna.
Það var venja að sjóbaða hrossin hvert haust til þess að losa þau við
óþrif eða lús. Níu ára drengur var til sumardvalar á bæ þessum og var til
snúninga og hjálpar bóndanum. Nú var kominn sá tími er baða skyldi
hrossin. Var þá sjórinn borinn í vatnsfötum upp á brekkubrún og hellt
þar í stampa. Var það töluvert erfiði.
Þegar búið var að fylla stampana skyldi tekið til við baðið sem fór
þannig fram að ausið var með íláti úr stömpunum yfir hrossin, eitt í senn
og burstað inn að skinni þar til ekki var þurr blettur eftir.
Bóndi fór nú inn í hesthúsið og kveikti þar á olíutíru til að sjá til þess
að beisla hrossin og teyma þau út, eitt í einu. Þá heyra þeir er út kom að
hundurinn, sem með þeim var, lét ófriðlega niðri í fjörunni í rökkrinu
en þetta mun hafa verið í septembyrjun. Sjá þeir báðir, bóndi og dreng-
urinn, að seppi er að kljást við þústu ókennilega og hrekst hundurinn
afturábak undan ferlíkinu með urri og óhljóðum miklum. Berst nú leik-
urinn áfram, með sama fyrirgangi að brekkunni, þar til hundurinn er
kominn mjög vígalegur næstum upp á brekkubrún og þústan á eftir.
Beið bóndi þá ekki boðanna, stökk á bak hesti þeim sem átti að fara að
baða, þreif í drenginn og dró hann upp fyrir aftan sig, þeysti síðan af
stað svo hratt sem auðið var heim að bæ, stökk þar af baki og hljóp sem
fætur toguðu inn í bæinn. Drengurinn ætlaði að flýta sér sömu leið en
var svo óheppinn að þegar hann hoppaði af baki, steig hesturinn ofan á
fótinn á honum svo að það tók hann nokkra stund að losna.
Þegar hann loks komst inn í bæinn, sat bóndi titrandi á rúmi sínu og
fól andlitið í höndum sér en heimilisfólkið stóð agndofa yfir honum og
skildi ekkert í hvað hafði komið fyrir því að ekkert orð hafðist upp úr
bónda. Var drengurinn nú yfirheyrður af fólkinu sem ekki var farið að
standa á sama um skelfingu bónda.
Ekki er vitað dl þess að nokkurn tíma hafi sannast hvað þetta var. En
eftir að bóndi fékk málið aftur var hann viss um að ófreskja þessi hafi
ekki verið af okkar heimi.