Dagblaðið Vísir - DV - 20.01.2010, Síða 12
12 MIÐVIKUDAGUR 20. janúar 2010 FRÉTTIR
SYSTKININ
VILDU LOSNA
Bæði Steingrímur Wernersson og
systir hans Ingunn vildu selja sig út
úr eignarhaldsfélagi þeirra Wern-
erssystkina, Milestone, fyrir hrun-
ið 2008, samkvæmt heimildum DV.
Karl Wernersson bróðir þeirra var
hins vegar ekki hrifinn af því að leyfa
þeim að selja sig út úr félaginu.
Þó fór það svo að bræðurnir
keyptu Ingunni út úr Milestone árið
2006 fyrir rúma 5 milljarða króna.
Ingunn hafði átt 28 prósent í félaginu
á móti 31 prósenti Steingríms og 41
prósenti Karls. Karl vildi kaupa Ing-
unni út á lægra verði en Steingrím-
ur mun hafa sett sig upp á móti því
og því var hlutur hennar keyptur á
hærra verði en ella. Steingrími mun
hafa sviðið þetta og hefur samband
hans við Steingrím og systur sína
ekki verið gott eftir þetta.
Steingrímur mun svo sjálfur hafa
viljað selja sig út úr félaginu en Karl
mun hafa talað hann inn á að gera
það ekki því þeir bræðurnir þyrftu
að standa saman. Steingrímur mun
hafa látið undan þrýstingi frá bróð-
ur sínum.
Milestone skilyrði Werners
Ástæðan fyrir því að þau systkin-
in áttu Milestone saman til að byrja
með er sú að þegar faðir þeirra,
Werner Rasmusson apótekari,
greiddi þeim arf fyrir fram árið 1999
setti hann það sem skilyrði að syst-
kinin settu peninga inn í fjárfestinga-
félag sem þau ættu saman.
Werner hafði auðgast á lyfja-
bransanum og meðal annars verið
framkvæmdastjóri og stjórnarfor-
maður lyfjafyrirtækisins Pharmaco
um árabil. Hann var einn af stofn-
endum lyfjafyrirtækisins Delta sem
aftur sameinaðist Pharmaco síðar
undir nafninu Actavis. Hann eign-
aðist einnig Ingólfsapótek sem síð-
ar varð hluti af keðjunni Lyfjum og
heilsu sem bræðurnir eiga enn sam-
an í dag – Karl á 60 prósent og Stein-
grímur 40.
Werner tengist svo aftur Mile-
stone að því leyti að eignarhaldsfé-
lag í hans eigu, Svartháfur, var stofn-
að gagngert til þess að miðla láni
til dótturfélaga Milestone í febrúar
2008. Dótturfélög Milestone þurftu
að standa í skilum við bandaríska
fjárfestingabankann Morgan Stanley
en voru komin yfir lánaheimildir sín-
ar hjá Glitni. Því þurfti að búa til ann-
að eignarhaldsfélag sem miðlað gæti
fjármununum úr Glitni og til dóttur-
félaga Milestone.
Skilyrðið var þannig að systkinin
áttu að taka þátt í félaginu sem Karl
átti að stjórna. Ef eitthvert þeirra vildi
ekki taka þátt í því áttu hin systkin-
in að kaupa það út á tilteknu verði.
Heimildir DV herma að Steingrími
hafi þótt þetta verð of lágt til að hann
tæki ekki þátt í félaginu frekar. Hann
og Ingunn tóku því þátt í Milestone.
Tvö önnur eldri systkini þeirra, Anna
og Ólafur, voru hins vegar aldrei
hluthafar í félaginu. Heimildir DV
herma að þetta hafi annaðhvort ver-
ið vegna þess að Karl vildi það ekki
eða vegna þess að þau vildu ekki vera
með í félaginu.
Í samtali við DV vill Anna ekki
svara því af hverju hún tók ekki þátt í
stofnun Milestone á sínum tíma. „Ég
ætla ekki að svara því.“
Ekki náðist í Ólaf á þriðjudag.
Viðskiptin rannsökuð
Viðskipti Milestone og Ingunnar
hafa verið til skoðunar hjá skipta-
stjóra þrotabús Milestone, Grími Sig-
urðssyni. Hann er meðal annars að
skoða hvort hægt sé að rifta viðskipt-
um félagsins við Ingunni sem lokið
var við með tveggja og hálfs milljarðs
króna greiðslu árið 2007.
Ástæðan fyrir því að mögulega
er hægt að rifta viðskiptunum er
sú að engar skýringar hafa fund-
ist á greiðslunum í bókhaldi Mile-
stone. Skiptastjórinn komst að því í
skýrslu sem lögð var fyrir kröfuhafa
Milestone í desember að líta þyrfti
á greiðslurnar sem lán. Skýringar
þeirra Karls og Steingríms hafa hins
vegar verið á þá leið að ekki hafi verið
um lán að ræða heldur hafi þeir ver-
ið að kaupa systur sína út. Peningar
Milestone, en ekki persónulegir fjár-
munir þeirra sjálfra, voru hins vegar
notaðir til þessa.
Heimildir DV herma að afar lík-
legt sé að þrotabúið reyni að sækja
þá fjármuni sem greiddir voru frá
Milestone til Ingunnar því litið sé svo
á að annaðhvort hafi verið um lán að
ræða eða einfaldlega gjafir til Ing-
unnar sem engar útskýringar fáist á.
Kröfuhafafundur verður haldinn
hjá þrotabúinu þann 25. þessa mán-
aðar þar sem þetta verður meðal
annars rætt.
Einbeitti sér að listum og
menningu
Eftir að Ingunn, sem er menntuð
hjúkrunarkona, var keypt út úr Mile-
stone hefur hún fyrst og fremst ein-
beitt sér að fjárfestingum á sviði
menningar og lista. Hún stofnaði fé-
lag sem heitir Inn Fjárfesting eftir að
hún seldi sig út úr Milestone sem sér
um þessi viðskipti hennar.
Ingunn hefur meðal annars fjár-
fest í Stradivarius-fiðlu – sem íslensk-
ur fiðluleikari hefur haft til umráða –
listaverkum og svo keypti hún gamla
Borgarbókasafnið í Þingholtsstræti
af norska málaranum Odd Nerdrum
árið 2007. Heilmiklar framkvæmdir
voru við húsið á síðasta ári.
Fjárhagsstaða Ingunnar er ekki
þekkt í dag en ljóst er að það mun
koma sér illa fyrir hana ef þrotabú
Milestone reynir að sækja til hennar
fjármunina sem hún fékk greidda út
úr Milestone enda er um á 6. milljarð
króna að ræða.
Ekki náðist í Ingunni á þriðju-
dag til að spyrja hana hvort hún gæti
greitt fjármunina aftur til þrotabús-
ins ef þurfa þætti í framtíðinni.
Dramatískri sögu Milestone, sem
hófst með því að Werner greiddi
börnum sínum arf, er því hvergi
nærri lokið: Enn á eftir að gera bú fé-
lagsins upp og niðurstöður eiga eft-
ir að koma í rannsókn sérstaks sak-
sóknara á félaginu og eigendum þess
og starfsmönnum.
INGI F. VILHJÁLMSSON
blaðamaður skrifar ingi@dv.is
n Karl Wernersson, 48 ára,
viðskiptafræðingur. Hluthafi og
stjórnarformaður Milestone.
n Steingrímur Wernersson,
44 ára, lyfjafræðingur. Hluthafi í
Milestone og stjórnarmaður.
n Ingunn Wernersdóttir, 46 ára,
hjúkrunarkona og fjárfestir. Hluthafi í
Milestone til 2006.
n Anna Wernersdóttir, 50
ára, kennari. Var aldrei hluthafi í
Milestone.
n Ólafur Wernersson, 53 ára,
tæknifræðingur. Var aldrei hluthafi í
Milestone.
Wernerssystkinin
Ég ætla ekki að svara því.
Tvö systkini Karls Wern-
erssonar vildu selja sig út
úr Milestone en hann var
tregur til að samþykkja
það. Werner faðir þeirra
setti það sem skilyrði fyrir
fyrirframgreiddum arfi að
systkinin stofnuðu saman
fjárfestingafélag. Tvö önnur
systkini tóku ekki þátt í
stofnun Milestone. Líklegt
er að sölu Ingunnar Wern-
ersdóttur á Milestone-
hlutnum verði rift.
Skilyrði Werners Werner Rasmusson
faðir þeirra Milestone-systkina setti það
sem skilyrði að systkinin stofnuðu saman
fjárfestingafélag þegar hann greiddi
þeim arf fyrir fram árið 1999.
Tilefni deilna Karl
Wernersson mun hafa verið
fúll út í bróður sinn Steingrím
eftir að sá síðarnefndi krafðist
þess að Ingunn Wernersdóttir
yrði keypt út úr Milestone á
sanngjörnu verði. Ingunn,
sem er mikill kattavinur, sést
hér með ísbjarnarfeld og
verk eftir Baltasar Samper í
bakgrunninum.