Dagblaðið Vísir - DV - 05.01.2011, Qupperneq 17
Erlent | 17Miðvikudagur 5. janúar 2011
Andlát poppstjörnunnar Michaels Jackson velkist um í kerfinu:
Læknir Jacksons fyrir dómara
Laurent Gbagbo hefur enn ekki
viðurkennt ósigur í forsetakosn-
ingunum sem fóru fram á Fíla-
beinsströndinni í lok nóvember.
Nú hefur lögfræðingur Gbagbos,
sem hefur fengið viðurnefnið „tals-
maður djöfulsins“, varað við því að
erlent herlið verði sent til landsins
til að koma Gbagbo frá völdum.
Lögfræðingurinn, Jacques Ver-
ges, beindi orðum sínum sérstak-
lega að Frökkum en talið er líklegt
að Frakkar muni styðja Samband
vesturafrískra þjóða, ECOWAS, í
að koma Gbagbo frá völdum. Sam-
bandið hefur hótað Gbagbo að stígi
hann ekki til hliðar verði hervaldi
beitt til að gera það. Hann ætlar
hins vegar að sitja sem fastast.
Talsmaður djöfulsins
Jacques Verges fékk viðurnefni
sitt fyrir að hafa á ferli sínum var-
ið ekki ómerkari menn en hryðju-
verkamanninn Carlos „sjakala“ og
einnig Slobodan Milosevic, fyrr-
verandi forseta Serbíu. Milosevic
var ákærður á sínum tíma fyrir
þjóðarmorð og glæpi gegn mann-
kyni, en hann lést áður en dóm-
ur féll í máli hans. Nú hefur Ver-
ges tekið að sér að verja Gbagbo.
Verges sagði í viðtali við dagblað á
Fílabeinsströndinni, Notre Voie, að
ef Frakkar ætluðu sér að ráðast inn
í landið ásamt Vestur-Afríkuríkjum
ættu þeir að hugsa sig tvisvar um.
„Gleymið ekki hvernig fór í Víet-
nam, þið voruð sigurstranglegri
þar en sjáið hvað gerðist við Dien
Bien Phu. Í Alsír voruð þið sigur-
stranglegri en töpuðuð samt. Ráð-
ist þið á Fílabeinsströndina farið
þið í gröfina.“
Sáttafundur mistókst
Verges mælti þessi orð áður en
leiðtogar vesturafrískra ríkja hittu
Gbagbo í Yamoussoukro, höf-
uðborg Fílabeinstrandarinnar.
Var Gbagbo boðið að fá fulla sak-
aruppgjöf fyrir stríðsglæpi sem
hefðu verið framdir, auk þess að
halda öllum sínum fjármunum
og eignum, ef hann samþykkti að-
eins að stíga af valdastóli. Gbagbo
féllst ekki á þetta og vill ekki við-
urkenna ósigur í kosningunum en
sérstök kosninganefnd frá Samein-
uðu þjóðunum hefur úrskurðað
að úrslit forsetakosninganna sem
fram fóru í lok nóvember hafi ver-
ið réttmæt. Í þeim kosningum bar
keppinautur Gbabos, Allassane
Ouattara, sigurorð af honum með
56 prósentum atkvæða.
Ouattara í stofufangelsi
Síðan úrslitin í kosningunum urðu
ljós hefur Ouattara verið í nokkurs
konar stofufangelsi á hótelsvítu í
borginni Abidjan en þar nýtur hann
mikils stuðnings. Fylgismenn Gbag-
bos hafa hins vegar látið öllum illum
látum í borginni en talið er að þeir
fylgi fyrirmælum menntamála- og
æskulýðsráðherra Fílabeinsstrand-
arinnar, Charles Ble Goude. Ble
Goude er skjólstæðingur Gbagbos.
Á mánudagskvöld bárust fréttir
af því að Ble Goude hefði fyrirskipað
árás á Golf-hótelið, þar sem Ouatt-
ara dvelur. Fyrirskipunin var síðan
dregin til baka, þar sem Gbagbo vill
ennþá láta reyna á samningaviðræð-
ur. Þráheldni Gbagbos mun þó ekki
gera samningamönnum auðvelt fyr-
ir og talið er líklegt að átök brjótist
út. Nú þegar hafa 200 óbreyttir borg-
arar fallið og hundraða til viðbótar
er saknað. Tugþúsundir hafa flúið til
nágrannaríkisins Líberíu, vegna ótta
við að borgarastyrjöld brjótist út.
n „Talsmaður djöfulsins“, lögfræðingur Laurents Gbagbos, hótar Frökkum öllu illu
n Ekkert kom út úr sáttafundi Gbagbos og leiðtoga vesturafrískra ríkja n Sigurveg-
ari forsetakosninganna, Allasane Ouattara, í stofufangelsi n Miklar líkur á átökum
„Þið farið í
gröfina“ „
Var Gbagbo
boðið að fá
fulla sakarupp-
gjöf fyrir stríðs-
glæpi sem hefðu
verið framdir.
Björn Teitsson
blaðamaður skrifar bjorn@dv.is
Talsmaður djöfulsins Jacques
Verges hefur meðal annars tekið þátt í
málsvörn Slobodans Milosevic, Saddams
Husseins og Carlos Sjakala.
Allt í góðu? Laurent
Gbagbo heilsar Raila Odinga,
forsætisráðherra Keníu, á
sáttafundi á mánudag.
Conrad Murray, sem starfaði sem
einkalæknir hjá poppstjörnunni Mi-
chael Jackson, mætti fyrir dómara í
Los Angeles í gær. Hann hefur verið
ákærður fyrir manndráp af gáleysi
og verður yfirheyrður af dómaran-
um Michael Pastor næstu tvær vik-
ur en auk þess er búist við að allt að
30 læknar og aðrir sérfræðingar verði
kallaðir til vitnisburðar. Saksóknara-
embættið í Los Angeles hyggst sýna
fram á sekt Murrays og vill draga
hann til ábyrgðar fyrir að hafa verið
valdur að dauða Jacksons en hann
lést 25. júní árið 2009, fimmtugur að
aldri.
Murray hefur viðurkennt að hafa
sprautað Jackson með kraftmiklu
svefnlyfi, Propofol, til að hjálpa hon-
um að festa svefn. Poppstjarnan
Jackson hafði verið að undirbúa sig
fyrir endurkomu í tónlistina með
tónleikaseríunni This is It. Hafði
hann æft stíft fyrir komandi tónleika
sem áttu alls að vera 50 talsins og
áttu allir að fara fram í O2-höllinni í
Lundúnum. Að sögn Murrays hafði
Jackson þjáðst af mikilli streitu vegna
æfinganna, sem ollu honum tals-
verðu svefnleysi.
Fjölmargir læknar hafa hins vegar
lýst yfir furðu sinni á þeirri ákvörðun
Murrays að gefa Jackson jafnöflugt
lyf og Propofol en það er venjulega
einungis notað á sjúkrahúsum þar
sem sjúklingar eiga þess kost að vera
undir stöðugu lækniseftirliti. Verði
Murray sakfelldur gæti hann átt yfir
höfði sér allt að fjögurra ára fang-
elsisdóm auk þess sem hann yrði
sviptur lækningaleyfi. Búist er við að
fjölskylda Jacksons verði viðstödd
vitnaleiðslurnar en Murray hefur
ætíð haldið fram sakleysi sínu. Bú-
ist er við að viðkvæmar upplýsingar
um Jackson eigi eftir að koma fram
í dagsljósið, þá sérstaklega um ára-
langa lyfjafíkn söngvarans.
Michael Jackson Lést sumarið 2009 vegna hjartabilunar sem er rakin til notkunar
lyfseðilsskyldra lyfja.
Danir vilja hækka
eftirlaunaaldur
Alls vilja 59 prósent Dana hækka
eftirlaunaaldur samkvæmt skoðana-
könnun sem gerð var fyrir dagblaðið
Politiken og sjónvarpsstöðina TV2.
Samkvæmt núverandi eftirlauna-
kerfi geta Danir sest í helgan stein
við 60 ára aldur að nokkrum skil-
yrðum uppfylltum, meðal annars að
hafa átt svo gott sem óslitinn starfs-
feril eftir að námi lauk. Í nýársávarpi
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráð-
herra Danmerkur, sagði hann nauð-
synlegt að breyta núverandi eftir-
launakerfi þar sem það væri orðið of
stór baggi á ríkissjóði. Sósíaldemó-
kratar segja einnig að breytinga sé
þörf en þá eigi launþegar frekar að fá
að ráða því sjálfir hvenær þeir setjist
í helgan stein. Þeir sem vilji vinna
lengur eigi að sjálfsögðu að fá að
gera það óhindrað.
Þjóðverjar segja
skilið við herskyldu
Um þessar mundir eru rúmlega
12.500 manns að ganga í þýska her-
inn til að gegna herskyldu í Þýska-
landi. Þetta verður hins vegar síðasti
árgangurinn sem það þarf að gera.
Þýsk stjórnvöld hafa ákveðið að
skera niður í herafla sínum en nú
telur hann um 250 þúsund manns.
Eftir breytinguna mun herinn að-
eins vera byggður á fólki sem gengur
sjálfviljugt í herinn. Talið er að her-
afli Þýskalands muni telja um 185
þúsund manns eftir breytinguna.
Mótmæli krist-
inna í Egyptalandi
Alls féll 21 í öflugri sprengingu í
hafnarborginni Alexandríu á ný-
ársnótt. Fórnarlömbin voru úr röð-
um kristinna Egypta en talið er að
hryðjuverkamenn sem hafa tengsl
við al-Kaída hafi verið að verki. Á
mánudagsnótt fóru fram hörð mót-
mæli í Kaíró, höfuðborg Egypta-
lands, þar sem kristnir íbúar borg-
arinnar fjölmenntu á götum úti og
kröfðust þess að öryggi þeirra yrði
tryggt. Kalla þurfti óeirðalögregluna
til en engum sögum fer af ofbeldi
eða mannfalli. Kristnir Egyptar eru
í miklum minnihluta í Egyptalandi
en eru þrátt fyrir það um 10 prósent
íbúa landsins.