Dagblaðið Vísir - DV - 12.03.2012, Blaðsíða 10
B
jörgvin G. Sigurðsson, alþing-
ismaður Samfylkingarinnar
og fyrrverandi viðskiptaráð-
herra, var tvísaga í skýrslutöku
rannsóknarnefndar Alþingis í
mars 2009 og fyrir landsdómi á þriðju-
daginn í síðustu viku. Björgvin G. var
viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs
Haarde frá 1. maí 2007 og þar til hann
sagði af sér embætti snemma árs 2009
skömmu áður en ríkisstjórnin féll.
Fyrir landsdómi lýsti Björgvin því
yfir að efnahagsmál og málefni bank-
anna hefðu oft verið rædd á ríkisstjórn-
arfundum þó að þau hafi ekki verið á
dagskrá. Björgvin sagði jafnframt að
hann hefði fylgst vel með starfi sam-
ráðshópsins um efnahagsstöðugleika
sem settur var á fót snemma árs 2008
og að honum hafi alls ekki verið haldið
utan við störf annarra ráðherra.
Geir Haarde er meðal annars
ákærður fyrir að hafa ekki haldið ráð-
herrafundi um mikilvæg stjórnarmál-
efni mánuðina fyrir hrun. Í ákærunni
segir að hann hafi ekki átt frumkvæði
að formlegum ráðherrafundi um
ástandið og hafi hann ekki gefið ríkis-
stjórninni sérstaka skýrslu um vanda
bankanna eða hugsanleg áhrif hans
á íslenska ríkið. Þá er hann einn-
ig ákærður fyrir að hafa vanrækt að
tryggja að starf samráðshóps stjórn-
valda um fjármálastöðugleika hafi ver-
ið markvisst.
Taldi sig vel upplýstan
Björgvin G. sagði hins vegar sem
vitni fyrir landsdómi í síðustu viku að
sér hafi verið haldið vel upplýstum
um gang mála og vísaði á bug full-
yrðingum um að honum hefði verið
haldið utan við ákvörðunarferli. „Ég
fullyrði að starf samráðshópsins hafi
verið markvist og gott,“ sagði Björg-
vin G. fyrir landsdómi og tók fram að
hann hafi sem ráðherra haft vitneskju
um starf hópsins. Hann sagðist alls
ekki hafa fengið minni upplýsingar en
aðrir ráðherrar í aðdraganda hruns-
ins. Hann sagði að ráðuneytisstjórar
sem áttu sæti í samráðshópi stjórn-
valda hafi upplýst ráðherra með sam-
bærilegum hætti um hvernig starfi
hópsins hafi verið háttað og hvað hafi
verið að gerast þar. Hann sagði að
engar skriflegar skýrslur hefðu ver-
ið lagðar fram en að ráðuneytisstjóri
hefði munnlega greint honum frá
framgangi málanna. Björgvin sagði
fyrir dómi að sér hefði ekki fundist
þörf á því að kalla eftir tillögum frá
samráðshópnum.
Allt önnur saga
Framburður Björgvins G. fyrir lands-
dómi stangast raunar mjög mikið
á við þá atburðarás sem lýst er ná-
kvæmlega í skýrslu rannsóknar-
nefndar Alþingis. Um þátt viðskipta-
ráðherra mánuðina fyrir hrunið,
þegar Geir átti marga fundi með
Davíð Oddssyni, þáverandi banka-
stjóra Seðlabankans og bankastjórum
bankanna, segir orðrétt í skýrslunni:
„Bankastjórn Seðlabankans átti einn-
ig á tímabilinu febrúar til maí 2008
a.m.k. fimm fundi með forsætisráð-
herra, fjármálaráðherra og utanríkis-
ráðherra. Félagsmálaráðherra sótti
einn þessara funda þegar rætt var um
málefni Íbúðalánasjóðs. Af skýrslu
Björgvins G. Sigurðssonar, viðskipta-
ráðherra, verður ráðið að hann hafi
ekki verið boðaður á neinn þessara
funda. Þar var þó m.a. rætt um vanda
bankanna og lausafjárkreppuna en
málefni bankakerfisins heyrðu undir
ráðuneyti hans. Að auki virðist við-
skiptaráðherra hvorki hafa verið
gerð grein fyrir því að fundirnir fóru
fram né upplýstur um það sem þar
fór fram, þó með þeirri undantekn-
ingu að upplýst er að á þingflokks-
fundi Samfylkingarinnar 11. febrúar
2008 gerði formaður Samfylkingar-
innar Björgvin og fleirum grein fyrir
fundi sem hún átti ásamt forsætis- og
fjármálaráðherra með bankastjórn
Seðlabankans 7. febrúar 2008.“
Sniðgengu hvor annan
Í skýrslutöku sinni fyrir rannsóknar-
nefnd Alþingis sagði Björgvin G. að
menn hefðu sniðgengið hverja aðra
kerfisbundið og að Davíð Oddsson
hafi með mjög yfirveguðum hætti
haldið sér frá upplýsingum og atburð-
um og ýmsu slíku. Í skýrslu rannsókn-
arnefndarinnar er margsinnis fjallað
um hvernig Björgvin G., sem þó var
ráðherra bankamála, hafi ekki verið í
innsta hring ákvarðanatöku.
Í skýrslunni segir frá fundi sem
fjórir ráðherrar héldu 8. ágúst 2008
með Má Guðmundssyni, Gauta B.
Eggertssyni, Friðriki Má Baldurssyni
og Jóni Þór Sturlusyni. Fundinn sóttu
Geir H. Haarde forsætisráðherra, Ingi-
björg Sólrún Gísladóttir utanríkisráð-
herra, Árni M. Mathiesen fjármála-
ráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir
félagsmálaráðherra. Í skýrslunni, er
fjallað um ástæður þess að Björgvin
var ekki á fundinum.
„Björgvin G. Sigurðsson, við-
skiptaráðherra, var ekki meðal fund-
armanna. Um ástæður þessa upplýsti
Jón Þór Sturluson við skýrslutöku fyr-
ir rannsóknarnefnd Alþingis að þetta
hefði verið „súperráðherrahópur-
inn“. Hagfræðingarnir Friðrik, Gauti
og Már hefðu á fundinum haldið
framsögu um lausafjárvandann.“
Baldur drottnaði yfir
Þá eru tekin dæmi í skýrslunni um
hvernig Björgvin G. taldi að Baldur
Guðlaugsson hafi haldið öllum hlut-
um mjög hjá sér og drottnað mjög
yfir öllu saman.
Við skýrslutöku hjá rannsókn-
arnefnd Alþingis var Björgvin G.
spurður hvort að hann hafi vitað
að ráðuneytisstjóri forsætisráðu-
neytisins hefði farið yfir stöðu mála
með forsætisráðhera og utanríkis-
ráðherra, eins og lýst er í fundargerð
samráðshóps stjórnvalda frá 16.
september 2008.
Björgvin sagðist ekkert hafa vit-
að um þennan fund. Þá sagði hann
fyrir rannsóknarnefndinni að sam-
ráðshópurinn hefði verið mikill
leynihópur sem ekki hefði mátt upp-
lýsa að til væri, að hópurinn hefði
aldrei komið með neinar skriflegar
skýrslur.
Hann kannaðist aðspurður held-
ur ekkert við að ráðuneytisstjóri við-
skiptaráðuneytisins hefði nokkurn
tíma borið undir hann tillögur af
vettvangi samráðshópsins sem hann
hefði þurft að taka ákvörðun um.
Sem fyrr segir sagði Björgvin G.
fyrir landsdómi að oftsinnis hefði
þróun efnahagsmála verið rædd á
fundum ríkisstjórnarinnar mán-
uðina fyrir hrun. Í skýrslunni er hins
vegar haft eftir honum að það það
hefði verið „ofboðslega fátæklegt“
hvað rætt var í ríkisstjórninni um
stöðu bankanna og lausafjárkrepp-
una. Þessu samskiptaleysi er lýst
með nákvæmum hætti í skýrslunni,
þar sem segir:
„Besta dæmið væri að eftir fall
krónunnar í mars 2008 og hræðslu-
bylgjuna sem gengið hefði í gegn-
um samfélagið hefði ekkert verið
rætt í ríkisstjórninni vikum saman.
Kristján Möller, samgönguráðherra,
og Össur Skarphéðinsson, iðnaðar-
ráðherra, hefðu orðið mjög óþreyju-
fullir út af því og spurt hvort ekki ætti
að fara að ræða stöðu efnahagsmála.
Það hefði hins vegar ekki verið gert
fyrr en löngu síðar.“
Hengdur upp til þerris
Í skýrslunni kemur einnig fram að
Björgvin hafi ekki fengið upplýsing-
ar um alla fundi eða efni sem síðar
hefði komið á daginn að Geir hefði
átt með Davíð Oddssyni árið 2008.
Lýsing Össurar Skarphéðinsson-
ar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis
var hispurslaus. Þar sagði hann að
Geir hefði ekki miðlað þeim alvar-
legu upplýsingum sem komið hafi á
daginn að seðlabankastjórar hefðu
veitt honum munnlega á fundum.
Hann hefði heldur ekki miðlað þeim
til Björvins G.
„Í hvaða ríki myndi það gerast
að forystumaður ríkisstjórnarinnar
hafi fund með seðlabankastjóra,
ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki
þrisvar, heldur sex eða sjö sinnum,
og eftir því sem seðlabankastjórinn
segir að þá komi þar fram alls kon-
ar „warnings“, ég veit ekkert um það,
en að viðskiptaráðherra sé ekki lát-
inn vita?“ er haft eftir Össuri í skýrsl-
unni.
Um þetta samskiptaleysi sagði
Össur einnig í skýrslunni: „ Mér
þykir vænt um drenginn [Björgvin
G. Sigurðsson] og við erum gamlir
samstarfsmenn, en hann var nátt-
úrulega bara hengdur upp á snúru
til þerris, skilurðu. Ég meina, í hans
stöðu, að hann sé ekki látinn vita af
þessum fundum, ekki bara að hann
sé ekki látinn vita, skilurðu, honum,
þeim bar skylda til þess að hann
væri þar, til þess að hann gæti þá
að minnsta kosti fengið tækifæri til
að standa undir þeirri ábyrgð sem
á honum hvíldi. Og ég tel að hann
hafi ekki fengið það. Og ég meina,
þið getið spurt þau bæði, Ingibjörgu
Sólrúnu og Björgvin, um það en mér
er til efs að hún hafi nokkru sinni
hringt í hann, kannski einu sinni,
tvisvar, til þess að konferera hann,
allan tímann, fyrir og eftir hrun. Og
ég meina, þessir fundir, ég bara held
að hann hafi ekkert vitað um þessa
sex eða sjö seðlabankafundi. Klárt
er að ekki vissi ég um þá, við töluð-
um mikið saman.“
Alveg skýr niðurstaða
Árni Mathiesen, þáverandi fjár-
málaráðherra, staðfesti einnig
fyrir rannsóknarnefnd Alþingis
að Björgvin G. hefði verið haldið í
myrkrinu með mörg mikilvæg mál
í aðdraganda bankahrunsins. Þeg-
ar hann var spurður hvers vegna
Björgvin G. hefði ekki verið hafð-
ur með á ráðherrafundum þegar
rætt var um málefni bankanna við
bankastjórn Seðlabankans, svar-
aði hann því til að það hefði verið
ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar.
Hann sagðist halda að Björgvin
hefði bara ekki verið treyst. Árni
sagði: „Menn treystu því ekki […]
að það sem væri verið að tala um
á þessum fundum mundi ekki ein-
hvern tímann og einhvers staðar
endurspeglast í því sem hann segði
í fjölmiðlum.“
Jón Þór Sturluson, aðstoðar-
maður viðskiptaráðherra, sagði að
hinn svokallaði súperráðherrahóp-
ur hefði komið fyrst að umfjöllun
um stóru málin, svo sem ríkisfjár-
mál, kjarasamingsráðstafanir og
síðan mótað stefnuna áður en aðrir
ráðherrar hefðu komið að máli.
Niðurstaða rannsóknarnefndar
Alþingis um þekkingarleysi Björg-
vins og hvernig honum var hald-
ið skipulega utan við hlutina, þrátt
fyrir það sem hann segir núna, er
alveg skýr: „Af skýrslu Björgvins G.
Sigurðssonar, viðskiptaráðherra,
verður ráðið að hann hafi ekki ver-
ið boðaður á neinn þessara funda
þar sem þó var m.a. rætt um vanda
bankanna og lausafjárkreppuna
en málefni bankakerfisins heyrðu
undir málefnasvið ráðuneytis hans.
Að auki virðist viðskiptaráðherra
hvorki hafa verið gerð grein fyrir því
að fundirnir fóru fram né upplýstur
um það sem þar fór fram.”
10 Fréttir
„Ég fullyrði að
starf samráðs-
hópsins hafi verið mark-
vist og gott.
Björgvin tvísaga
12. mars 2012 Mánudagur
Valgeir Örn Ragnarsson
blaðamaður skrifar valgeir@dv.is
Árni Mathiesen Menn treystu Björgvin
ekki og þess vegna var honum haldið fyrir
utan.
Össur Skarphéðinsson Sagði að Björg-
vin G. hefði verið hengdur upp til þerris.
Björgvin G. Sigurðsson Rannsóknar-
nefnd Alþingis fjallar ítarlega um hvernig
honum hafi verið haldið utan við mikilvæg
mál í ríkisstjórninni. Fyrir landsdómi hafnaði
hann þessu öllu.
n Allt annar framburður fyrir landsdómi en hjá rannsóknarnefnd Alþingis