Dagblaðið Vísir - DV - 21.01.2014, Blaðsíða 12

Dagblaðið Vísir - DV - 21.01.2014, Blaðsíða 12
Vikublað 21.–23. janúar 201412 Fréttir íslenskra hjálparsamtaka n Erfitt að sjá í hvað styrkir fara n Lagt inn á persónulegan reikning G egnsæi í fjármálum hjálpar­ samtaka og líknarfélaga er mjög misjafnt hér á landi, og ekki er í öllum tilfellum auðvelt fyrir þá sem vilja veita styrki að finna upplýsingar um hvað peningarnir fara nákvæmlega í. Heimasíðurnar eru jafn misjafn­ ar og félögin sjálf en ársreikninga er stundum auðvelt að nálgast og sundurliðun á tekjum og kostnaði við rekstur. Í flestum tilfellum er þó ekki auðvelt að sjá það nákvæmlega hvert peningarnir fara. DV greindi frá því í byrjun árs að Fjölskylduhjálp gefur sig út fyrir að vera aðeins með sjálf­ boðaliða í öllum störfum, en svo er þó ekki. Eiga eftir að uppfæra heimasíðu Formaður samtakanna, Ásgerður Jóna Flosadóttir, sagðist vera með hálfa milljón króna í mánaðarlaun en hún er eini launaði starfsmaður samtak­ anna. Samkvæmt heimasíðu samtak­ anna eru allir starfsmenn í sjálfboða­ liðavinnu og þær upplýsingar eru því ekki réttar. „Við eigum eftir að upp­ færa heimasíðuna, við fengum hana gefins fyrir ári,“ sagði Ásgerður Jóna við DV. Þegar blaðamaður falaðist eft­ ir ársreikningi samtakanna reyndist það ekki mjög erfitt, en til þess þurfti hann þó að hitta Ásgerði Jónu í hús­ næði samtakanna. Hún var þar tilbú­ in með útprentað eintak af síðasta árs­ reikningi og sagði að hann væri ekki birtur á heimasíðunni þar sem enginn skanni væri á skrifstofunni. Tilnefndur sem hetja ársins Hjálparsamtök Íslendinga skutu upp kollinum síðasta haust, en stofnandi þeirra er Róbert Guð­ mundsson. Þegar fréttist af Lithá­ anum Ricardas Zazeckis sem bjó í bíl við Esjurætur var Róbert fljót­ ur á staðinn og bauð honum hjálp. Í kjölfarið fékk Ricardas vinnu og húsnæði á Akranesi, bílnum hans var komið í gang og hann fékk einnig nýjan síma. Fyrir vikið var Róbert tilnefndur sem hetja ársins hjá DV. Róbert hélt hjálparstarfinu áfram fyrir jólin, bakaði smákökur sem hann dreifði í kirkjur á Suður­ landi, gaf matarpakka til fólks sem er illa statt og fleira. Samtökin hafa enga heimasíðu, en eru mjög virk á Facebook. „Þú getur ekkert verið viss“ Á gamlársdag birti Róbert bókhald samtakanna, en öll fjárframlög eru lögð beint inn á persónulegan reikn­ ing hans. Samtals söfnuðust 206.520 krónur en auk þess lagði Róbert fram 98.272 krónur til viðbótar. Í stöðu­ uppfærslunni, þar sem bókhaldið er birt, segir Róbert að hann hafi keypt mat fyrir allan peninginn, sem síðan hafi verið notaður til að styrkja 43 fjöl­ skyldur með mat og jólapakka. Þegar blaðamaður heyrði hljóðið í Róberti og falaðist eftir nánari upplýsing­ um um bókhald sagði Róbert að slíkt væri ekki til. „Ég er ábyrgur fyrir mikl­ um pening, það er frjáls vilji fólks að leggja inn á reikninginn,“ sagði Ró­ bert. Þegar hann var inntur eftir því hvernig fólk sem vill styrkja samtökin geti verið öruggt með að peningurinn sem það leggur inn fari allur í hjálp­ arstarfið sagði Róbert: „Þú getur ekk­ ert verið viss. Það er bara þannig.“ Því næst sakaði hann blaðamann um að ætla sér að rakka samtökin niður, áður en hann skellti á. Úthringiver afla styrkja Fjölmörg hjálparsamtök og líknarfé­ lög nýta sér þjónustu úthringivera til þess að afla fjárstyrkja. Í slíkum tilvik­ um er peningurinn yfirleitt lagður inn á reikning hjálparsamtakanna, sem síðan borga fyrir þjónustuna til baka. Misjafnt er hvernig þeim greiðslum er háttað, hvort búið er að semja um ákveðið verð fyrirfram eða hvort það fari eftir því hversu mikils af styrkj­ um er aflað. Þjónustuaðilinn fær þá ákveðna prósentu, yfirleitt rúmlega þrjátíu prósent, í sinn hlut af þeirri upphæð sem safnast saman. Dæmi um hjálparsamtök sem nýta sér slíka þjónustu eru Samhjálp, S.O.S. barnaþorp, Umhyggja, Styrktarfélag krabbameinssjúkra og Fjölskyldu­ hjálp Íslands. Síðastnefndu samtökin nutu áður þjónustu Líknarfélagsins hjálpar, en að þeim stóðu þeir Tómas Bickel og Baldur H. Úlfarsson. Reglu­ lega bárust fréttir af því að líknarfé­ lagið hefði gefið Fjölskylduhjálp pen­ ingagjafir, sem gjarnan voru ríflegar. „Ég er ábyrgur fyrir miklum pening, það er frjáls vilji fólks að leggja inn á reikninginn. Rögnvaldur Már Helgason rognvaldur@dv.is Róbert Guðmundsson Stofnaði Hjálparsamtök Íslendinga fyrir jól og var tilnefndur sem hetja ársins hjá DV. Hann segir að fólk sem styrki samtökin geti ekki verið öruggt með að pen- ingarnir fari allir í hjálparstarfið. Mynd FacEbook Fjölskylduhjálp Íslands Á heimasíðu samtakanna segir að allir starfsmenn séu sjálfboðaliðar. Það gæti blekkt þá sem vilja styrkja þau, en formaðurinn fær hálfa milljón króna á mánuði. Oft ógagnsæi í fjármálum Málþing um ristilkrabba Ristilkrabbamein er þriðja al­ gengasta krabbameinið á Ís­ landi og ein algengasta dánar­ orsök af völdum krabbameins. Í dag, þriðjudag, hefst í Hörpu málþing um faraldur ristil­ skrabbameins sem ber yfir­ skriftina Faraldur ristilkrabba­ meins: Verður eitthvað aðhafst? Í tilkynningu vegna mál­ þingsins kemur fram að rannsóknir hafi sýnt að með skipulagðri leit að ristilkrabba­ meini og forstigi þess hjá ein­ kennalausum einstaklingum 50 ára og eldri sé hægt að lækka dánartíðni af völdum sjúk­ dómsins. Þingið er í tengslum við Læknadaga 2014. Dagskráin hefst klukkan 16.20 og fer fram í Kaldalóni í Hörpu. Aðgangur er ókeypis. Margir sektaðir fyrir stöðubrot Lögreglan á Suðurnesjum sektaði tuttugu og tvo ökumenn fyrir að leggja ólöglega við Reykjanes­ höllina á sunnudag, en á sama tíma fór knattspyrnumót fram í höllinni. Í tilkynningu frá lög­ reglunni kemur fram að fjórir ökumenn hafi einnig verið sektaðir fyrir að virða ekki stöðv­ unarskyldu. Þá var einn ökumað­ ur sektaður fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut og annar sem ók gegn einstefnu. Sjálfboðaliðar aðstoða við heimanámið Nemendum í fjórða til tíunda bekk býðst að koma á Borgar­ bókasafn Reykjavíkur og fá aðstoð frá sjálfboðaliðum við heimanámið sitt. Aðstoðar­ mennirnir eru frá Rauða krossinum í Reykjavík. Borg­ ararbókasafnið og Rauði kross­ inn hafa um árabil boðið upp á þessa aðstoð en nú hefur skóla­ og frístundasvið borg­ arinnar bæst í samstarfshóp­ inn. Í tilkynningu frá Borgar­ bókasafninu kemur fram að allir nemendur séu velkomnir en nánari upplýsingar um fyrir­ komulagið má nálgast á vefnum heilahristingur.is.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.