Dagblaðið Vísir - DV - 17.06.2014, Blaðsíða 12

Dagblaðið Vísir - DV - 17.06.2014, Blaðsíða 12
Vikublað 17.–19. júní 201412 Fréttir A lvarleg rafmagnsslys verða á tveggja til þrigja ára fresti. Önnur slys sem upp koma virðast kannski lítil í fyrstu en geta engu að síður haft alvarlegar afleiðingar. Skaðinn er ekki alltaf sýnilegur strax eftir slysið en síð- búnir áverkar geta haft víðtæk áhrif á líf og heilsu manna, jafnvel gert þá óvinnufæra fyrir lífstíð. Jafnvel rafmagnsslys sem valda ekki þrálátum heilsuvandamálum geta samt sem áður fjölgað kvörtun- um um vöðvaverki hjá annars heil- brigðum rafvirkjum. Nú er til dæmis talið að axlaverkir, sem rafiðnaðar- menn kvarta mikið undan og hafa hingað til verið skýrðir með því að þeir vinni mikið upp fyrir sig, séu til- komnir vegna smástuða sem þeir fá af og til. „Líkaminn er ekkert annað en gott element,“ segir Ásgeir Þór Ólafsson, ör- yggisstjóri hjá Rarik. „Þar sem straum- ur fer um element myndast hiti og það getur valdið margvíslegum kvillum. Það eru kannski þessir innri áverkar sem eru ekki sýnilegir í fljótu bragði sem eru alvarlegastir,“ útskýrir hann. Hann hefur kynnt sér hvern- ig norsk heilbrigðisyfirvöld bregðast við rafmagnsskaða og hefur reynt að koma þeim upplýsingum á framfæri við heilbrigðisyfirvöld hér á landi, þar sem hann telur kerfið bregðast. Fólk fái ekki þá þjónustu og eftirfylgni sem eðlilegt væri að veita eftir raf- magnsslys, út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir. „Við eigum gríðarlega miklar upplýsingar frá Noregi varð- andi það hvernig heilbrigðiskerfið ætti að bregðast við rafmagnsskaða. Það má vera vegna þess hversu fá þessi slys eru að menn eru ekki í stakk búnir til að bregðast við hér á landi.“ Meiðslin alvarlegri en talið var Hann tekur dæmi af manni sem slas- aðist við vinnu í Fjarðaáli í janúar 2008. Í frétt um málið kemur fram að maðurinn var fluttur strax á Fjórð- ungssjúkrahúsið í Neskaupstað þaðan sem hann var útskrifaður daginn eftir og talinn ómeiddur. Helgina á eftir fór hann hins vegar að finna til óþæginda og fór til Reykjavíkur þar sem hann var lagður inn á Landspítalann á sunnu- deginum. Við frekari rannsóknir kom í ljós að meiðsli hans voru mun alvar- legri en á horfðist í fyrstu. Maðurinn var að vinna fyrir undir- verktaka í álverinu og var við mæl- ingar í keri þegar slysið varð. Ástæðan var galli á frágangi rafmagns í kerskála og var Vinnueftirlitinu tilkynnt um slysið. „Ég spyr annað slagið um þetta slys, en enginn í kerfinu hefur getað sagt til um það hvernig fór, ekki nema fyrrverandi vinnufélagar hans. Þetta var Pólverji sem fór út aftur eftir slysið en hann var mjög illa farinn. Í sumum tilvikum eru afleiðingarn- ar að birtast vikum, mánuðum, miss- erum og jafnvel árum eftir slysið. Við höfum reynt að vekja athygli heil- brigðiskerfisins á því. Þá höfum við viljað skoða hvort það sé mögulegt að draga úr alvarlegum afleiðingum með betra eftirliti.“ Þörf á betra eftirliti Hann segir að í Noregi séu til ákveðnir verkferlar um hvernig eigi að takast á við rafmagnsslys. Þar séu menn tekn- ir til ítarlegrar skoðunar á nokkurra mánaða fresti og niðurstöðurnar bornar saman við fyrri stöðu. Þessu sé síðan haldið áfram eftir því sem þörf er talin á. „Þá hefur það komið fram að ýmsir kvillar koma ekki fram fyrr en á seinni stigum. Þessar upplýsingar sem koma frá Noregi eru mjög merkilegar. Ég er hissa á því hvað þeim hefur verið gef- inn lítill gaumur af þeim sem málið varðar. Þarna eru til dæmis mjög ná- kvæmar upplýsingar um hvaða mæl- ingar eru gerðar á mönnum og hvaða prufur eru teknar á hverjum tíma fyr- ir sig og hvernig er tekist á við síð- búna áverka. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort það hafi áhrif að hér á landi séu þessi slys svo fá, hvort það valdi því að menn hafi minni áhuga á þessu en eðlilegt væri. Af því að þetta eru virkilega alvarlega afleiðingar sem menn eru að glíma við. Ég velti fyrir mér hvort hér sé brugðist við af þeirri ábyrgð og færni sem er nauðsynleg til að lágmarka tjónið. Ég hef ekki orðið var við það.“ Geta misst bótarétt Það eru ekki bara rafiðnaðarmenn sem eru í hættu. Slysin geta einnig hent venjulegt fólk sem er að fikta í rafmagni. „Um fimm ár eru liðin frá því að faðir og eiginmaður dó á eld- húsgólfinu heima hjá sér þar sem hann var að reyna að gera við upp- þvottavélina. Hann fór með höndina undir vélina, fékk rafstuð og lést. Rafmagnsslys eru alltaf að gerast, en það sem er alvarlegt er þegar það er ekki sagt frá þeim. Fá rafmagnsslys eru tilkynnt samanborið við önnur slys. Alvarlegustu slysin eru tilkynnt en annað ekki. Líklega vegna þess að það getur verið erfitt að vita hvort og hvenær þú berð skaða af straumi ef áverkarnir eru ekki sýnilegir. Við hvetjum fólk til að tilkynna öll slys vegna þess að síðbúnir áverkar geta haft verulegar afleiðingar. Ef slys- ið er ekki rétt skráð geta menn misst réttindin til að gera bótakröfu og ann- að. Ég þekki dæmi þess að menn hafi þurft að berjast fyrir réttindum sínum og það getur verið mjög snúið að afla upplýsinga þegar langt er liðið frá slysi.“ Hitinn skemmir líffæri Í raun ættu allir sem hafa feng- ið lágspennustraum í gegnum lík- amann, háspennustraum eða orðið fyrir eldingu, hafa orðið ringlað- ir, vankaðir eða misst meðvitund að leita sér aðstoðar á spítala. „Í bráð- aumönnun er mikilvægt að taka mið af sérstöðu rafmagnsslysa, sérstak- lega varðandi langvarandi hjarta- og lungnaskaða og yfirhleðslu á líffær- um og þá sérstaklega nýrunum sem eru hreinsistöð líkamans. Eins er mikilvægt að leita að innri bruna ef viðkomandi er með bruna- sár. Eins og ég segi þá er líkaminn bara element og þar sem straumur fer í gegn verður hiti.“ Hversu hár hitinn verður fer eft- ir straumstyrk, viðnámi líkamans og tíma til útleysinga. Hann sýnir rann- sókn sem gerð var á apa sem fékk raf- straum upp á þrjú og hálft kílóvolt og fjögur amper í tvær og hálfa sekúndu. „Hitastigið fór allt upp í 87 gráður. Á einum stað mældist hitinn 41 gráða en alls staðar annars staðar var hann hærri en 43 gráður. Við 47 gráður eru innri líffæri farin að skemmast, þannig að það þarf ekkert rosalega mikið til að það gerist. Þessir fallskaðar eru ekki síð- ur alvarlegir, eins og rifnar sinar og áframhaldandi frumudauði.“ Brann fastur við stálplötu Annar maður fékk 22 kílóvolt inn um hægri handarkrika og út í gegn- um hnakka og vinstra hné. Maðurinn brann fastur með hnakkann í stál- plötu í rafspenninum, fékk krampa í vöðva og kjálkaliðir læstust. Hann missti meðvitund en komst fljótlega aftur til meðvitundar. Hluta úr næstu viku fann hann fyrir minnisleysi. Maðurinn var 42 ára gamall Norð- maður og einkennunum var lýst af yf- irlækni og taugasérfræðingi í Bergen. Hálfu ári eftir slysið kom maðurinn í skoðun. Þá kom í ljós að einkennin fóru vaxandi. Hann var með stöðugan höfuðverk, verk milli herðablaða, sér- staklega á næturnar, stífleika og doða í hægri handarkrika, doða í fótleggj- um og púðatilfinningu undir báðum fótum. Hann var óstöðugur á gangi og missti gjarnan jafnvægið, fékk dagleg svimaköst og var með suð fyrir eyr- um. Hann var uppstökkari en áður og gleymdi nöfnum og fleiru þannig að hann þurfti að skrifa allt niður til að gleyma ekki. Við taugaskoðun kom einnig í ljós að maðurinn hafði minni tilfinningu í andliti, hálsi, hnakka, vinstri fót og fótlegg. Hann hafði minni skynjun titrings í vinstri fæti og hægri hand- legg. Hann var með vægan krampa í hægri handlegg, hægari hreyfingar og aukið viðbragð í vinstri fæti. Einkennin verri ári seinna Ári síðar voru einkennin jafnvel enn verri en áður. Höfuðverkurinn hafði aukist og sömuleiðis verkurinn á milli herðablaðanna. Doði í höndum og fót- um var meira áberandi en áður og mað- urinn upplifði dofin svæði og skjálfta í vinstri hlið líkamans, sem hann hafði ekki fundið fyrir áður. Handleggirn- ir voru stirðari, einbeitingin minni og maðurinn uppstökkari. Jákvæðu frétt- irnar voru þær að hann hafði örlítið betri stjórn á fótum. Í taugaskoðun kom í ljós að hægra sjáaldur var orðið stærra en það vinstra, hann var óöruggari þegar hann átti að setja fingur á nef- broddinn, viðbragð hafði aukist í báð- um fótum, vinstra hælviðbragð fram- kallaði einhvers konar vöðvakippi og hann var með krampa í hægri hand- legg og fæti. „Þetta eru þessir síðbúnu áverkar sem menn verða fyrir þegar þeir lenda í svona slysum,“ segir Ásgeir Þór. „Þeir eru ekki margir, sem betur fer, en þetta er ekkert öðruvísi hér en í Noregi. Sálræn áhrif eru líka mikil. Þetta fólk upplifir mikla hræðslu, ofsareiði, sljóleika og létti yfir því að vera á lífi. Fólk upplifir einnig vandkvæði í einkalífinu vegna þreytu, svefnvanda, orkuleysis, depurðar og þunglyndis. Það á erfiðara en áður með að takast á við hversdagslífið og taka ákvarðanir. Viðbrögðin eru mismunandi en að öllu jöfnu er þetta skelfileg staða sem fólk lendir í.“ Aðgerðaleysi landlæknis Ásgeir Þór og hans samherjar í þessari baráttu hafa reynt eitt og ann- að til að vekja athygli á málinu. Árið 2007 héldu þeir ráðstefnu þar sem fjallað var um síðbúna áverka vegna rafmagnsslysa. Til stendur að halda aðra ráðstefnu í haust. „Við höfum fundað með Vinnueftirlitinu þar sem við reyndum að koma þessum upp- lýsingum á framfæri sem annað mál á dagskrá, og þá sem hvatningu um að tekið yrði á þessu, en við höfum ekk- ert heyrt af því. Á heimasíðu Landlæknisembætt- is eru upplýsingar um ráðstefnuna. Við sendum þeim skeyti og inntum þá eftir því hvort verið væri að vinna með þessar upplýsingar en fengum þau svör að embættið væri ekki að því. Ég hélt að Landlæknisembættið ætti að leggja línurnar varðandi heil- brigðisstarfsemi í landinu og koma á verklagi sem væri eðlilegt að nota, en kannski er það mín rangtúlkun á hlut- verki embættisins. Ég hef alltaf haldið að hér á landi sé einhver miðlæg starfsemi sem upplýsir alla hlutaðeig- andi um það sem best er gert á hverj- um tíma. Það eru heilsugæslustöðvar og spítalar um allt land. Einhver hlýt- ur að bera ábyrgð á því að miðla rétt- um upplýsingum, leiðbeiningum og fræðslu til þeirra, eins og því hvernig bregðast á við rafmagnsslysum.“ n Alvarlegar afleiðingar síðbúinna áverka n Heilbrigðiskerfið tekur ekki við upplýsingum n Telja eftirliti ábótavant Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ingibjorg@dv.is „Ég velti fyrir mér hvort hér sé brugð- ist við af þeirri ábyrgð og færni sem er nauðsynleg til að lágmarka tjónið. Ég hef ekki orðið var við það. Slysin ekki tilkynnt Afleiðingar birtast vikum, mánuðum og jafnvel árum eftir slysið. Erfitt er að leita réttar síns hafi slysið ekki verið tilkynnt. Reyndi að ná til landlæknis Ásgeir Þór horfir til Noregs þar sem eftirfylgni eftir rafmagnsslys er betri en hér á landi. Hann hefur reynt að ræða það við bæði landlækni og Vinnueftirlitið en ekkert breytist.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.