Húnavaka - 01.05.2011, Blaðsíða 70
H Ú N A V A K A 68
Pabba dreymdi um son en hann eignaðist mig. Það voru fyrstu vonbrigðin.
Önnur þau að ég gat vel lært en hafði ekki áhuga á því, hafði meiri áhuga á
drengjunum sem hann var að kenna. Þriðju vonbrigðin skullu líklega á honum
með bréfi frá fína heimavistarskólanum sem ég hafði verið send í til geymslu
– tilkynning um brottrekstur vegna óásættanlegrar hegðunar. Ég gæti haldið
lengi áfram en ég ætla ekki að gera það, ekki núna.
Aldrei sagði mamma neitt, laut bara höfði og horfði í gaupnir sér, þannig
vissi ég að henni leið illa – eða ætti ég að segja ver en venjulega. En það skipti
mig ekki máli.
Ég man varla eftir mér öðruvísi en í feluleik, alltaf að fela mig eða
leyndarmálin mín. Í gamla skólahúsinu heima voru óteljandi felustaðir og ég
held að ég hafi þekkt þá alla. Hin ýmsu skúmaskot, geymslur, háaloft og
myrkvaðir gangar – ég hafði verið þar, stundum á flótta undan pabba og
reglunum hans, stundum með einhverjum af nemendum hans á leynilegum
stefnumótum og seinna meir við afar leynilega hegðun. Spennan sem ég fann
fylla líkama minn og sál á þessum stefnumótum, vellíðanin sem streymdi um
hverja einustu taug varð ávanabindandi. Ég varð alltaf að fá meira – og ég
fékk meira og meira enda fjölmargir drengir við skólann. Á þessum stundum
fékk ég viðurkenningu fyrir ágæti mitt, viðurkenningu sem ég þráði en fékk
ekki annars staðar.
Eftir á að hyggja þá vorkenni ég pabba. Nemendur hans sátu glottandi í
tímum hjá honum, pískruðu og hvísluðu sín á milli sögur af mér. Pabbi naut
ekki virðingar þessara ríku yfirstéttardrengja, ég hafði stolið þeim möguleika
af honum með framferði mínu. En ég vorkenndi honum ekki þá og hélt ótrauð
áfram að lifa lífinu ábyrgðarlaus með öllu. Sextán ára, áhyggjulaus og hélt að
ekkert gæti velt mér af þeim prinsessustalli sem ég hafði komið mér fyrir á.
Afleiðingar hegðunar minnar virtust ekki koma föður mínum á óvart. Þegar
ég sagði honum fréttirnar var hann ískyggilega rólegur, allt að því vélrænn og
kaldur. Hann var með áætlun – alveg eins og hann hafi beðið eftir þessum
degi. Ég, hins vegar, var ekki tilbúin að horfast í augu við það að ég var
barnshafandi og enn síður þá staðreynd að ég hafði ekki hugmynd um hver
faðirinn var.
Systir pabba virtist líka hafa átt von á símtalinu sem hún fékk aðeins
nokkrum mínútum eftir að ég talaði við hann og degi síðar sat ég í rútu á leið
til hennar, aftur á leið í geymslu. Líðan mín endurspeglaðist í haustmyrkrinu
utan við gluggann sem ég hallaði mér upp að á leiðinni.
Mamma hafði venju samkvæmt sagt fátt og það var greinilegt á öllu að
pabbi hafði ákveðið þetta – eins og allt annað í þeirra hjónabandi. Hún
pakkaði niður fyrir mig og þrátt fyrir lítið álit mitt á þessari konu þá hafði hún
vit á því að pakka niður víðum kjólum og fatnaði sem hentaði því vaxtarlagi
sem yrði mitt næstu mánuðina.
Föðursystir mín tók vel á móti mér, það vantaði ekki en ég fór ekki út fyrir
hússins dyr í hálft ár. Ég held að nágrannar hennar hafi ekki vitað af þessari
frænku sem geymd var á efri hæðinni þennan snjóþunga vetur.
Ég var hraust og fann lítið fyrir meðgöngunni og barnið virtist dafna vel, ég