Húnavaka - 01.05.2011, Blaðsíða 117
H Ú N A V A K A 115
-- Satt segir þú, 4712, en mundu það að þeir síðustu verða stundum fyrstir
og þeir þarna í útflutningsnefndinni eru víst ekki ofsælir af því að semja við
þessa déskotans drjóla þarna úti í löndunum.
Slá ein með afar fínan útprjónaðan kant og viðamikla hettu velti vöngum
og ýfingin á voðinni reis eins og kambur á ketti. -- Mér finnst hreint til
háborinnar skammar með framleiðsluna á okkur fyrir jólin. Voðin í okkur var
svo götótt að víða var hægt að stinga fingri í gegn og þó þeir væru tveir. Og þó
að þessi elskulega kona í græna golíatinu bæði stoppaði okkur og bætti, dag
eftir dag, ja, þá sáu þessir háu herrar enga leið til að borga nema skítakaup
fyrir að sauma okkur, svo náttúrulega varð að hætta því. Svo nú erum við
aðeins eftirlegukindur sem enginn vill sauma. Þegar hún hafði lokið þessari
ræðu saug hún upp í hettuna og stundi.
Lítil peysa með gulum röndum komst öll á loft og reyndi að belgja sig út.
-- Já, það hafa fleiri sömu sögu að segja. Ég átti að fara alla leið til Rússlands
og skýla skólabörnunum þar en það er sama sagan. Þó að stúlkurnar sitji
sveittar við vélarnar allan daginn og saumi mikið á annað hundrað peysur á
dag þá segja forráðamennirnir að framleiðslan borgi sig ekki. Svo var öllu
pakkað í kassa og sent með skipi til Rússaveldis - en ég varð eftir eins og
einhver sýningargripur ef seinna þyrfti á mér að halda. Ó, hvað ég öfundaði
þá. Mér er alveg sama þó einhver lítill strákur óhreinkaði mig og kæmu göt á
ermarnar, það væri þó til einhvers lifað. Kjökurhljóð var komið í röddina en
hún reyndi þó að harka af sér.
Hildu-peysan þurrkaði sér um kragann með ermastroffinu og muldraði. --
Tíminn er oft lengi að líða. Ég er nú búin að vera hér í tvö ár og er því orðin
vistinni vön. En ýmislegt hefur svo sem komið fyrir eyru mín, - ef einhver
væru. Heimsfréttir og dægurmál, vísnagerð og gátur, allt þetta styttir tímann.
Eða þegar konurnar ræða um sjónvarpsdagskrána. Þær voru allar dauðskotnar
í Stierlitz, þeim rússneska og Húsbændur og hjú voru hreint komin inn á pall
hjá þeim.
4710 greip fram í með karlmannlegum róm og stakk ermunum í vasana. --
Félagar mínir fóru til Þýskalands en eftir að hafa heyrt lýsingarnar af Gestapó
og leyniþjónustunni er ég bara feginn að fá heldur að hanga hér heldur en að
klæða svoleiðis karla. En annars held ég að þess háttar menn séu liðnir undir
lok.
Í horninu við sníðaborðið skrjáfaði í tuskupokanum og afklippurnar hristu
alla vega lagaða skankana. -- Hí,hí, heyra í þessum spæla-sportjökkum. Þeir
ættu bara að skipta við okkur. Hér er sko hlýtt og notalegt niðri í pokanum og
nógur er félagsskapurinn, engin leið að kasta tölu á hópinn og félagsandinn er
alveg frábær. Hún er líka alveg draumur, hún litla vinkona okkar sem sníður.
Svo hlustar hún á létta músík í útvarpinu og hún er svo natin við að sortera
okkur og vigta að hver einasta tuska kemst á blað hjá henni. Já, ekki vildum
við skipta við ykkur þarna á slánni.
Stóri sníðahnífurinn ræskti sig fyrirmannlega en sagði fátt. Litli hnífurinn
kippti í snúruna svo að tengillinn hrökk úr sambandi og sagði ákveðið. -- Ég
veit, hún er skotin í strák.