Húnavaka - 01.05.2011, Page 170
H Ú N A V A K A 168
löngum sæti í skólanefndum þessara skóla. Einnig kenndi hún matreiðslu við
grunnskólann um nokkurra ára skeið eftir að kvennaskólinn var lagður niður.
Hún samdi matreiðslubók í samstarfi við Halldóru Eggertsdóttur, sem kom
út árið 1954 og var endurprentuð árið 1961 en er nú löngu ófáanleg. Var hún
notuð sem kennslubók í matreiðslu við húsmæðra skólana í landinu.
Solveig starfaði við Tónlistarskóla Austur-Húnavatnssýslu í 10 ár, kenndi á
píanó og gegndi þar stöðu skólastjóra lengst af. Um margra áratuga skeið var
hún organisti og söngstjóri við Blönduósskirkju og hljóp gjarnan í skarðið við
fleiri kirkjur ef þörf var á.
Hún starfaði lengi með Kvenfélaginu Vöku og var formaður þess um hríð.
Hún átti sæti í stjórn Sambands Austur-Húnvetnskra kvenna og Sambands
norðlenskra kvenna.
Ræktunarstörf og gróður voru henni jafnan hjartans mál og ræktaði hún
garðinn sinn af stakri natni. Auk trjánna og blómanna ræktaði hún fjölda
grænmetistegunda og náði ótrúlega góðum árangri í því en á þessum tímum
töldu flestir að skilyrði til ræktunar væru afleit á Blönduósi. Dáðist hún jafnan
seinni árin að þeim stakkaskiptum sem staðurinn hefði tekið frá því hún kom
þar fyrst. Þá voru berir melar áberandi en nú væri allt vafið gróðri.
Síðustu æviárin bjó hún á dvalardeild Héraðshælisins á Blönduósi.
Solveig lést á Héraðshælinu á Blönduósi. Útför hennar fór fram frá
Blönduósskirkju þann 6. ágúst.
Ragnheiður Sövik.
Helga Emilía Guðmundsdóttir,
Blönduósi
Fædd 3. júlí 1921 – Dáin 14. ágúst 2010
Helga Emilía Guðmundsdóttir fæddist á Blönduósi. Faðir hennar var
Guðmundur Bergmann Jónsson frá Blönduósi, 1900-1924. Móðir hennar var
Sigríður Kristín Jónsdóttir frá Hrófá í Steingrímsfirði, 1883-1960.
Helga var elst þriggja systra sem nú eru allar látnar. Ári yngri var Sigurbjörg,
f. 1922 og síðan kom Guðmunda Kristbjörg, f. 1924.
Foreldrar Helgu hófu búskap sinn á Hólmavík á Ströndum en í lok
janúarmánaðar árið 1924, þegar þau höfðu eignast tvær dætur og sú þriðja var
á leiðinni, kvaddi sorgin dyra hjá ungu fjölskyldunni. Guðmundur Bergmann,
faðir Helgu, drukknaði rétt í landsteinunum í Skeljavík á Steingrímsfirði,
aðeins tæplega 24 ára gamall.
Sem nærri má geta var slysið mikið áfall fyrir móður Helgu og eftir þetta
hörmulega slys tók hún sig upp og flutti til Blönduóss, þar sem hún átti athvarf
hjá tengdafólki sínu.
Helga ólst upp á Blönduósi og naut ástríkis föðurafa síns og -ömmu og ekki
síður föðurbróður síns, Tómasar R. Jónssonar og eiginkonu hans, Ingibjargar
Vilhjálmsdóttur og fjölskyldu þeirra. En síðast en ekki síst skal nefna hjónin,