Lögmannablaðið - 01.03.2007, Page 4
< LÖGMANNABLAÐIÐ – 1 / 2007
Frá ritstjórn
Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.
Meginefni þessa tölublaðs er könnun sem Lögmannablaðið
lét gera meðal lögmanna á lögmannsstofum. Þetta er í
fyrsta sinn sem könnun af þessu tagi er gerð hér á landi en
lögmannafélög á Norðurlöndum hafa gert svipaðar kann-
anir reglulega síðustu ár. Það ber að þakka lögmönnum
undirtektirnar. Svarhlutfallið var 63% sem er sambærilegt
við samsvarandi kannanir í Noregi og Svíþjóð.
Fjölda spurninga var haldið í lágmarki og þeim hagað
þannig að auðvelt væri fyrir lögmenn að svara þeim. Fyrir
vikið er könnunin ekki jafn ítarleg og norrænu kannanirnar
sem byggjast mikið á því að safna upplýsingum um rekstr-
arafkomu lögmannsstofanna.
Ef litið er til stærðar lögmannsstofanna staðfesta niðurstöð-
urnar að hátt í helmingur þeirra lögmanna sem starfa á
lögmannsstofum (42%) eru á stærri stofum, þar sem eru
fleiri en fimm lögmenn. Fulltrúum virðist fara hlutfallslega
fjölgandi og þeim sem starfa á stóru stofunum með tíu eða
fleiri lögmönnum. Það er sama þróun og víða annars staðar.
Aðsókn að réttindanámskeiðunum staðfestir það einnig að
ungir lögfræðingar vilja eiga þann möguleika að fara í lög-
mennsku. Þá er ánægjulegt að fá staðfest að konur standa
jafnfætis körlum hvað varðar tímagjald og eru framsæknari
þegar kemur að sérhæfingu og markaðssetningu.
Þessi könnun er vonandi upphafið að frekari kortlagningu
á starfsumhverfi lögmanna. Megingildi kannana af þessu
tagi felst í endurtekningunni, að geta mælt breytingar og
fylgst þannig með þróuninni innan greinarinnar. Þá getur
verið ástæða til að bæta við spurningum. Að þessu sinni
voru lögmenn, svo dæmi sé tekið, ekki spurðir hvort þeir
sinntu aðallega ráðgjöf við fyrirtæki eða einstaklinga. Eins
og sést af umfjöllun blaðsins um norrænu kannanirnar er
verulegur munur er á þessum tveimur hópum þar bæði
hvað varðar tekjur og sérhæfingu.
Notkun á hugtökum olli nokkrum þeirra sem svöruðu
könnuninni erfiðleikum. Það á ekki síst við um einyrkja-
hugtakið en almennt hefur það verið notað um þá sem
starfa einir án aðstoðar eða félags við aðra. Hugtakið „sjálf-
stætt starfandi lögmaður“ er heldur ekki mjög lýsandi og
ekki síst þegar lögmenn eru hluthafar í félagi um rekstur
stofunnar. Það er því spurning hvort þetta heiti eigi lengur
rétt á sér sem samheiti yfir lögmenn sem eru eigendur eða
eiga eignarhlut í lögmannsstofu nema ef vera skyldi af sögu-
legum ástæðum. Annars sýnist mér eðlilegra að tala um
eigendur. Eins er með fulltrúana. Í könnuninni er gengið út
frá því að allir sem ekki eru eigendur séu fulltrúar. Ekki var
kannað hvort fulltrúarnir hefðu allir sömu stöðu gagnvart
eigendum eða hvort einhver breyting hefði orðið þar á með
fjölgun fulltrúa. Mér sýnist að þessi hugtakanotkun miðist
frekar við gamla einyrkjafyrirkomulagið en síður þróuð fyr-
irtæki eins og margar lögmannsstofur eru í dag.
Í blaðinu er einnig fjallað nokkuð ítarlega um þjónustu-
tilskipunina sem ætlað er að auðvelda lögmönnum og
öðrum þeim sem veita þjónustu að fara á milli landa innan
EES- svæðisins. Í því felst ekki aðeins áskorun fyrir íslenska
lögmenn heldur einnig tækifæri til starfa erlendis. Sá réttur
er reyndar þegar fyrir hendi eins og fram kemur í grein
Margrétar Gunnarsdóttur um hvernig hún fékk íslensk lög-
mannsréttindi sín viðurkennd í Noregi en þar starfar hún
nú sem „advokat“.
Þá er ástæða til að árétta mikilvægi þess fyrir hlutleysi dóm-
stóla að persónur dómara séu ekki dregnar inn í umfjöllun
um niðurstöðu mála eins fram kemur í pistli formanns hér
í blaðinu.