Lögmannablaðið - 01.06.2015, Blaðsíða 22

Lögmannablaðið - 01.06.2015, Blaðsíða 22
22 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/15 Á LÉTTUM NÓTUM Lagadagurinn að kvöldi í fylgd ritstjóra Lögmannablaðsins Sem fyrr ríkti nokkur eftirvænting þegar veisluhöldin hófust að kvöldi Lagadagsins 2015 með fordrykk og standandi forréttum á Hilton Hóteli. Ritstjórinn smellti sér í betri blússuna en var heldur lengi að sparsla upp í andlitið og náði því rétt í blálokin á forréttunum. Það vannst þó tími til að smakka á sushi og snittum sem gáfu góð fyrirheit um framhaldið. Kvöldið var afar vel sótt og voru 440 manns við borðhaldið. Bekkurinn var því þétt setinn ­ þröngt máttu sáttir sitja en aðrir standa. Glæsikvendið Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður hjá embætti ríkislögmanns, hélt um þræði og stjórnaði veislunni. Fórst henni það vel úr hendi og átti hún gjörvallan salinn þegar hún steig á stokk og söng tvö lög við undirleik Loga Kjartanssonar lögfræðings sem sá jafnframt um dinnermúsík. Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður átti einnig stórleik með nefflautu­performans á heimsmælikvarða en það mun vera í fyrsta skipti í sögunni sem spilað er opinberlega á slíkt hljóðfæri á Íslandi. Þvílíkir hæfileikar sem leynast hjá einu embætti! Einn þekktasti „afbrotamaður“ landsins, Kenneth Máni, var síðan með uppistand. Góður rómur var gerður að aðalréttinum sem var hægeldaður kálfahryggsvöðvi og heldur mikið reykt svínasíða ásamt ostrusveppasalati, gulrótum og Béarnaise sósu. Rauðvínið rann þó ljúflega niður og gott ef það slæddist ekki með kokkteill inn á milli rétta. Eftirréttaplanka með ýmsu góðgæti var jafnframt gerð góð skil ásamt kaffi og Grand af barnum þar sem lögfræðingar áttu endurfundi með gömlum vinum. Lögfræðingar spændu upp dansgólfið með Páli Óskari og pallíettuklæddu dönsurunum hans. Glimmerkóngurinn hélt uppi stuðinu fram á rauða nótt og var dansgólfið smekkfullt allan tímann. Þeir allra hörðustu héldu svo áfram djamminu eftir að Palli fór að sofa og fjölmenntu á hótelbarinn. Þar mátti m.a. sjá dómara, prófessora, hæstaréttarlögmenn og a.m.k. einn fjölmiðlamann ljúka kvöldinu með gini & tónik eða jafnvel vodka í sóda. Í eina tíð enduðu árshátíðir laganema í morgunverði á Hótel Loftleiðum. Það skal ósagt látið hvort einhverjir hafi byrjað verkalýðsdaginn í Brunch á Vox en klukkan var að ganga fjögur þegar ritstjórinn steig upp í leigubíl og hélt heim á leið og var ekki síðastur úr húsi. Hvað gerðist eftir það er ekki á margra vitorði, kannski sem betur fer. Þyrí Steingrímsdóttir hrl.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.