Öldrun - 01.05.2004, Side 6

Öldrun - 01.05.2004, Side 6
6 www.oldrun.net ÖLDRUN – 22. árg. 1. tbl. 2004 skilmerkilega af Eyjólfi Kolbeins – ásamt skýringum. Þýðing verksins er gerð af Kjartani Ragnars. Cíceró var einn af forustumönnum rómverska lýðveldisins á síðustu árum þess og á sinni tíð í mestum metum fyrir mælsku sína og aðra snilli í málflutningi á þingi og fyrir dómi. Á síðari öldum er Cícerós þó fremur minnst fyrir rit hans, en í þeim gerði hann öllum öðrum höfundum fremur móðurmál sitt, latínu, að því mennta- máli sem hún, og hennar vegna önnur Evrópumál, hafa verið síðan. Þetta gerði hann með því að fjalla á latínu um heimspekileg efni sem fram á daga hans hafði einungis verið skrifað um á grísku. Fyrir vikið má Cíceró heita einn skapari þess tungutaks sem hefur mótað evrópskar menntir allt til þessa dags (4). Cíceró var 62 ára gamall þegar hann samdi ritið Um ellina og tileinkaði það vini sínum Attícusi. Hann leggur það í munn öldungnum Marcúsi Cató hinum eldri til að gefa því aukið gildi að eigin mati. Cíceró glímir við fjórar fullyrðingar um ellina í ritinu og tengir þær við ham- ingjuna. 1. Ellin sviptir menn starfshæfninni. 2. Ellin veikir líkamann. 3. Ellin rænir menn lystisemdum. 4. Ellin er fyrirboði dauðans. Cíceró beitir nokkrum heimspekiaðferðum til að svara þessum fullyrðingum, en flest svörin bera keim af stóuspeki. Um ellina er bjartsýn bók og hún kennir lesendum sínum að taka jákvæða afstöðu til mála í stað þess að fyllast bölmóði. Hann nefnir mörg sannfærandi dæmi og rök fyrir þremur fyrstu fullyrðingunum. Hann sýnir að ellin geti orðið mönnum jafngifturík og önnur lífskeið. IV. Svör við fullyrðingum Fullyrðingarnar ættu allir að hugleiða. Starfsævin breytist með árunum og ný verkefni eru möguleg, þetta er bara spurningin um hugmyndaflug og starfsorku. Líkaminn breytist með árunum, en það er hægt að búa hann undir ellina til dæmis með heilsusamlegu líferni. Lystisemdir eru ekki háðar æskunni, þær breytast með árunum og verða aðrar og jafnvel dýpri í ellinni. Fjórða fullyrðingin er um óttann við dauðann en hún er spurningin um viðhorf. Cíceró skrifar: „Hvers vegna ætti ég þó að ala á ótta ef annaðhvort bíður mín algleymi eða alsæla? Og hver er annars svo heimskur að hann þykist geta gengið að því vísu að honum endist líf fram á kvöld þótt ungur sé? Lífi ungra manna er meira að segja miklu hættara en gamalla” (bls. 78). Röksemd hans felst m.a. í því að dauðinn vofir ekki aðeins yfir ellinni heldur yfir lífinu öllu og æviskeiðum þess. Sókrates sagði að lífið væri undirbúningur fyrir dauðann. Hann boðaði að menn ættu að búa sálina undir dauðann, þannig að hún gæti skilið við lífið án þess að þurfa að sakna þess. Verði manneskjur gamlar eru þær hólpnar, enda óttast elsta kynslóðin sjaldnast dauðann því hún hefur reynslu af lífinu og verður ósjálfrátt reiðubúin til að takast á við dauðann. Þegar staðið er við dyr dauðans er best að hafa sigrað líkamann og allar hans fýsnir, því annars verður erfiðara að skilja við (5). „Ég fyrir mitt leyti fagna því, og er dauðinn nálgast finnst mér ég kominn í landsýn þar sem ég muni innan tíðar taka höfn að lokinni langri sjóferð,” skrifar Cíceró (bls. 80). Cíceró segir að eftir dauðann líði mönnum annaðhvort ákjósanlega eða kenni sér einskis. Þetta er dæmigert viðhorf stóuspekinga. Gallinn er ef til vill sá, að óttinn við dauðann felst í hugmyndinni um að „persónan deyi og að lífið sé tilgangslaust. Þessi ótti snýst því um tilgang, líf og dauða” (6). Niðurstaða hans er „náttúran bjó oss hér gististað til skammrar dvalar en ekki fastan bústað. Ég fagna þeim dýrðardegi er ég hverf brott úr solli þessum og sora á málþing látinna í sölum guðanna” (bls. 87). Hann býst ekki við að vera eilífur og segir manninum hollt að slokkna útaf í fyllingu tímans. „Ellin er sem lokaþáttur í sjónleik, og þaðan er oss bezt að hverfa, áður en þreytan sverfur að, einkum þó ef vér erum að auki saddir lífdaga” (bls. 88). Þetta er bjartsýnn endir, hann svarar öllum þungum fullyrðingum um ellina og vísar þeim á bug. Það er engin ástæða til að óttast ellina. Hún er heilt æviskeið sem getur verið jafngjöfult og önnur – og jafnvel hamingjuríkara. Niðurstaðan er að ellin og hamingjan eiga góða samleið. Heimildir 1. Gunnar Hersveinn (1990). Um það fer tvennum sögum. Reykjavík, Gunnar Hersveinn útg. 5. kafli. 2. Cíceró (1982) . Um ellina. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag. 3. Aristóteles (1995). Siðfræði Nikómakkosar. 10. kafli. HÍB. 4. http://www.hib.is/laerdomsrit/cicero_ellin.html 5. Um það fer tvennum sögum, bls. 34. 6. Um það fer tvennum sögum, bls. 62.

x

Öldrun

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Öldrun
https://timarit.is/publication/1137

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.