Öldrun - 01.05.2004, Qupperneq 10
10 www.oldrun.net ÖLDRUN – 22. árg. 1. tbl. 2004
talsvert notaður (12). Íslensku þýðinguna á skalanum
má finna á Netinu. Slóðin er:
http://www.stanford.edu/~yesavage/GDS.html
Ýmsir fleiri spurningalistar um þunglyndiseinkenni
hafa verið þýddir á íslensku, en þeir eru ekki sér-
staklega gerðir fyrir eldra fólk.
Greining þunglyndis hjá öldruðum krefst tals-
verðrar vinnu þar sem taka þarf tillit til margvíslegra
þátta. Ekki er nóg að hafa eitt eða tvö einkenni á
spurningalista til að hægt sé að setja greininguna
þunglyndi. Huga verður að líkamlegum sjúkdómum,
hugsanlegri heilabilun, félagslegum aðstæðum, lyfja-
gjöf og ýmsum öðrum þáttum áður en greiningin er
sett. Þegar greining liggur fyrir er hægt að hefja
meðferð.
Þunglyndi er stærsti einstaki áhættuþátturinn hvað
varðar sjálfsvíg. Þess vegna er mat á sjálfsvígshættu
mikilvægt við greiningu þunglyndis. Erlendar rann-
sóknir sýna að um það bil þrír fjórðu hlutar eldra fólks
sem sviptir sig lífi hafði leitað til heimilislæknis
skömmu fyrir dauða (2).
Meðferð þunglyndis
Við meðferð verður m. a. að hafa eftirfarandi atriði í
huga:
1. Að eyða öllum einkennum þunglyndis. Ef það
tekst ekki og eitt eða fleiri einkenni eru enn til
staðar þrátt fyrir meðhöndlun er hætta á
langvinnu þunglyndi og að bata af líkamlegum
sjúkdómum seinki (13)
2. Að minnka áhættu á sjálfsvígi eða líkur á því að
sjúklingurinn verði sjálfum sér til skaða vegna
sjúkdóms síns (2)
3. Stuðla að því að sjúklingurinn nái mestu
mögulegu færni, bæði líkamlega og félagslega
4. Að bæta úr skorti á næringu, meðhöndlun á
líkamlegum sjúkdómum
5. Að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn komi aftur
6. Að fræða sjúklinginn og aðstandendur hans um
eðli þunglyndis
7. Að meðhöndla líkamlega sjúkdóma sem koma
samhliða þunglyndinu
8. Að bæta úr óþægilegri félagslegri einangrun
9. Að endurskoða lyf sjúklingsins einkum þau sem
hugsanlega hafa þunglyndi sem aukaverkun
Þessum markmiðum má ná með ýmsum hætti.
Mörg meðferðarform hafa verið mikið rannsökuð og
árangur vel þekktur.
1. Lyfjameðferð. Vitað er að lyfjameðferð með þung-
lyndislyfjum er mjög árangursrík þegar sjúklingur-
inn hefur greint þunglyndi (14). Ekki er jafn mikil
vissa um áhrif þunglyndislyfja á eitt eða örfá
einkenni þunglyndis, einkum þegar þau hafa ekki
staðið lengi. Hins vegar eru vísbendingar um að
þunglyndislyf geti haft áhrif á langvinn (margir
mánuðir eða ár) þunglyndiseinkenni jafnvel þótt
fjöldi þeirra sé ekki nægilega mikill til að hægt sé að
setja sjúkdómsgreininguna þunglyndi (15). Þegar
svo háttar er réttlætanlegt að reyna lyfjameðferð í
fyrirfram ákveðinn tíma en hætta ef árangur er lítill
eða enginn. Lyfjameðferð við þunglyndi hjá eldra
fólki er oft flókin. Gæta verður að því að niðurbrot
lyfja er öðru vísi hjá öldruðum en hjá yngra fólki og
skammtar því aðrir. Einnig taka aldraðir oft mörg lyf
samhliða og því verður að gæta vel að milliverk-
unum lyfja. Verkun er mjög einstaklingsbundin, lyf
sem verkar vel hjá einum sjúklingi getur verið
gagnslaust hjá öðrum. Ef illa gengur verður einstaka
sinnum að gefa tvö þunglyndislyf samhliða. Ef góð
virkni fæst er rétt að halda meðferð áfram í a. m. k.
eitt ár (2).
2. Raflækningar. Raflækningar þar sem krömpum er
komið af stað hjá sjúklingnum með hjálp rafmagns
er árangursríkasta aðferðin sem til er við alvarlegu
þunglyndi hjá eldra fólki. Rannsóknir benda til að
þessi meðferð sé árangursríkari hjá öldruðum en hjá
sjúklingum á miðjum aldri (16, 17). Aðferðin hefur
fáar og vægar aukaverkanir. Raflækningar fá venju-
lega mjög neikvæða umfjöllun í fjölmiðlum eða kvik-
myndum og er sjúklingurinn því oft tregur til að
undirgangast þessa meðferð.
3. Sérhæfð viðtalsmeðferð. Sú skoðun hefur lengi
verið uppi að viðtalsmeðferð sé gagnslítil hjá eldra
fólki. Rannsóknir sýna að þetta er rangt. Árangur af
sérhæfðri viðtalsmeðferð hjá eldra fólki er jafngóður
og hjá hinum yngri (18). Nokkrar aðferðir eru til og
hefur árangur sumra þeirra verið staðfestur með
rannsóknum.
Gangur þunglyndis
Þegar leiðrétt er fyrir algengum sjúkdómum á efri
árum svo sem heilabilun virðast horfur hjá öldruðum
með þunglyndi vera svipaðar og hjá þeim sem yngri eru
(19, 2). Horfurnar eru þannig allgóðar. Þó má búast við
að milli 15% og 20% sjúklinga fái langvinn einkenni.
Þunglyndi eitt og sér virðist leiða til aukinnar dánartíðni
hjá öldruðum en ástæður þessa eru ókunnar. Reynt
hefur verið að finna þætti sem hafa áhrif á gang
þunglyndis. Rannsóknir hafa sýnt að sjúklingar með
ranghugmyndir eða ofskynjanir samhliða þunglyndinu
hafa verri horfur og sama má segja um sjúklinga, sem
samhliða þunglyndinu hafa ákveðna tegund af heila-
skemmdum sem fram koma í segulómun (20).
Forvarnir
Fyrsta stigs forvarnir miða að því að koma í veg fyrir
sjúkdóminn og hvað þunglyndi varðar hefur mikið verið
gert víða um lönd til að fræða almenning um þennan
sjúkdóm og eðli hans. Stuðningur og fræðsla til
aðstandenda flokkast einnig undir fyrsta stigs forvarnir.