Nesfréttir - 01.03.2015, Síða 20
20 Nes frétt ir
U M H V E R F I S H O R N I Ð
Verkin í garðinum eru fjölbreytt og
óþrjótandi. Lífverur garðsins taka á sig
ólíkar myndir eftir því hver árstíðin er
og oftar en ekki þarf að nýta sumarið
vel ef ætlunin er að ala áhugaverðar
plöntur til augnayndis eða átu.
Skipulagning er nauðsynleg ef vel á að
takast til. Kíkjum því á árið í garðinum
okkar og sjáum hvenær best er að
standa að hinu og þessu.
Janúar - mars
Flestir myndu ætla að fátt væri hægt
að gera í garðinum á þessum árstíma.
Samt sem áður er ýmislegt sem hægt
er að gera til undirbúnings komandi
sumri.
- Á þessu tímabili má sá flestum
þeim sumarblómum sem hugurinn
girnist. Það er mikil gleði sem felst
af því að horfa á heimaaldar stjúpur,
morgunfrúr og hvaðeina vaxa og dafna
í garðinum.
- Grúska í garðyrkjutímaritum,
bókum og plöntulistum gróðrarstöðva
og skipuleggja framkvæmdir vorsins
og sumarsins. Tilvalið er að fá
ráðleggingar landslagsarkitekta og
garðhönnuða til að auka notagildi og
ásýnd garðsins enn frekar.
- Í febrúarlok fara vorlaukar að fást
í garðyrkjuverslunum. Maríusóleyjar,
begoníur og ýmsar framandi liljur eru
meðal þess sem fæst á þessum tíma og
úrvalið eykst sífellt.
- Klippa og snyrta trjá- og
runnagróður í garðinum. Það má í raun
gera allt árið, en stórtækar aðgerðir
eru heppilegar á þessum tímabili og
allt fram á gróandann.
- Njóta garðsins í vetrarbúningi
og hugsa sér hverju megi bæta við til
að fegra ásýnd hans þegar sumarið
gengur í garð. Til dæmis lífga sígrænir
runnar mikið upp á garðinn að
vetrinum og má þá nefna himalajaeini,
dvergfuru og lyngrósir.
- Setja út ávexti, korn og brauð til
að fæða fiðraða vini á köldum dögum.
Reglubundnar fóðurgjafir lokka oft
flækingsfugla frá nágrannalöndunum í
garðinn. Fátt er skemmtilegra en að sjá
gráþresti, hettusöngvara, glóbrystinga
og silkitoppur innan um heimakæra
þresti og stara.
Apríl – maí
Nú er verulega farið að halla að vori,
sólin farin að verma grund og víða
ber þess vitni í umhverfinu. Brum og
blómknúppar á trjágróðri eru farið
að þrútna og ýmsir fjölæringar eru
farnir að gægjast upp úr moldinni.
Vetrargosar, krókusar og ýmsar
snemmbærar tegundir eru jafnvel
búnar að blómstra á þessum árstíma.
- Nú má hefja forræktun á
grænmeti. Kálmeti í aprílbyrjun, salat
í maí.
- Raða kartöfluútsæði í kassa til
spírunar í maíbyrjun og setja niður í
maílok eða júníbyrjun.
- Síðla í maí er víðast hvar orðið
frostlaust í jörðu. Þá er tilvalið að hefja
gróðursetningu á hverskyns gróðri.
Plöntum úr gróðrarstöðvum sem eru
pottaræktaðar eða rótskornar eftir
kúnstarinnar reglum er hægt að planta
allt sumarið og langt fram eftir hausti.
- Flytja trjáplöntur og runna til ef
þess þarf. Stór tré og runna ætti að
undirbúa með rótarskerðingu ári áður.
- Flytja og skipta fjölærum
plöntum. Tegundir sem lifna og
blómgast snemma ætti að skipta síðar
að sumrinu þegar þær byrja að visna.
- Huga að maðki í trjágróðri þegar
vöxtur hefst. Úða, eða láta fagmann
með tilskilin réttindi úða ef þörf þykir.
Óþarfi er að úða allan gróður og síst
skyldi hafa það sem árlega reglu að
láta úða allan garðinn.
- Hreinsa til í beðum og raka
lauf úr grasflöt. Lauf frá fyrra ári er
tilvalið að setja í safnkassa eða undir
runnagróður þar sem að ánamaðkarnir
og aðrir íbúar jarðvegarins koma því
aftur í umferð.
- Jarðvinna matjurtagarðinn, ýmist
með stungugaffli eða jarðvegstætara
sem hægt er að fá leigðan.
Júní – ágúst
Sumarið er gengið í garð með
sólskini í heiði. Nú fer í hönd helsti
annatími þess sem ræktar garðinn
sinn.
- Slá grasflötina. Það er jú
nauðsynlegur fylgifiskur sumarsins.
- Bera á grasflöt og annan gróður.
Alhliða tilbúinn áburður eða lífrænn
húsdýraáburður hentar vel. Sá lífræni
stuðlar að auknu örverulífi í jarðvegi
sem er gagnlegt og eykur lífrænt
innihald hans.
- Vinna má á mosa með
mosatætingu, hressilegum rakstri
eða mosaeyði. Í kjölfarið má kalka
með skeljasandi eða áburðarkalki
og gefa áburðarskammt. Hæfilegur
átroðningur og reglubundin
áburðargjöf heldur mosanum að
nokkru í skefjum. Hafa skal í huga að
mosinn er ávallt áberandi að vorlagi þó
svo að nóg sé af grasrót undir honum.
- Prýða með sumarblómum.
Stjúpur geta farið niður snemma
sumars, jafnvel síðla maí enda þola
þær ýmislegt misjafnt. Sumarblóm
fást orðið lengi sumars. Tilvalið er
að breyta til upp úr miðju sumri og
planta einhverju sem stendur fram á
vetur, s.s. skrautkáli, silfurkambi og
sígrænum runnum. Sýprus, lífviður og
einir setja virðulegan svip á beð, ker
og potta.
- Í gróðrarstöðvum fást
forræktaðar matjurtir af ýmsum
tegundum. Aðallega kálmeti og salat.
Setja niður fyrripart sumars til að njóta
góðrar uppskeru.
- Síðsumars er hægt að uppskera
það sem til var sáð. Af blaðsalati má
reyndar tína blöð án þess að taka alla
plöntuna. Hvítkál má uppskera upp
úr miðjum júlí hafi það farið snemma
niður og aðrar káltegundir aðeins
síðar.
September – desember
Sumri hallar og vetur gengur í garð.
Haustið er tíminn til að njóta ávaxta
sumarsins og litadýrðar gróðurríkisins
í haustlitum.
- Í septemberbyrjun er kominn
uppskerutími fyrir kartöflur.
- Huga skal að gróðri sem prýðir
fram á vetur. Sígrænn gróður í kerjum
setur mikinn svip á aðkomu húsa og
sumar tegundir sumarblóma geta enst
ótrúlega lengi.
- Við lauffall ætti að raka sem
mestu laufi af grasflötum og út í
beð. Þar nýtist það sem vetrarskjól
fyrir fjölærar jurtir sem dorma í
jarðvegsyfirborðinu.
- Huga að vetrarskýlingu ef þess
þarf. Sumar sígrænar tegundir getur
þurft að skýla, einkum á veðrasamari
stöðum og sér í lagi fyrstu eitt til tvö
árin.
- Haustlaukar eru “loforð um litríkt
vor” eins og þar stendur. Þeir fást frá
því í september og fram eftir hausti og
vetrarbyrjun. Vissara er að koma þeim
niður áður en jörð er klakabundin.
Heimildir: Jóhannes Baldvin Jónsson.
F.h. umhverfisnefndar
Margrét Pálsdóttir, formaður.
Almanak garðyrkjumannsins
- grænt dagatal
Passíusálmar
lesnir í
Seltjarnarnes-
kirkju á
Föstudaginn
langa 3. apríl
Allir PASSÍUSÁLMAR séra
Hallgríms Péturssonar verða
lesnir upp í Seltjarnarneskirkju á
Föstudaginn langa, 3. apríl 2015
síðdegis, eins og venja er orðin.
Lesturinn hefst kl. 13 og stendur
fram undir kl. 18. Fögur tónlist
verður flutt í hléum á milli lestra.
Seltirningar og aðrir eru
velkomnir í kirkjuna til að hlýða
á lesturinn - og njóta hans og
tónlistarinnar á þessum merka degi
kirkjuársins. Getur fólk staldrað
stutt við eða haft lengri viðstöðu,
eftir því sem hverjum hentar.
Boðið verður upp á kaffiveitingar í
safnaðarheimili kirkjunnar.
Þess var víða minnst í fyrra að
þá voru liðin 400 ár frá fæðingu
hins stórmerka prests og mikla
skálds sr. Hallgríms Péturssonar
(1614-1674). Passíusálmarnir,
öndvegisverk hans, eru einstætt
snilldarverk, kveðskapur sem rekur
píslargöngu Jesú og hugleiðir hana.
Hafa sálmarnir öldum saman átt sér
stað við hjartarætur þjóðarinnar
og margar kynslóðir kunnað suma
þeirra utanbókar.
Passíusálmarnir voru fyrst
gefnir út árið 1666 á Hólum, þannig
að á næsta ári verða 350 ár frá
frumútgáfunni. Ekkert rit hefur
verið prentað jafnoft á íslensku og
segir það sína óyggjandi sögu um
hve dáður kveðskapur Hallgríms
hefur verið í gegnum tíðina. Fyrir
síðustu aldamót voru prentanirnar
orðnar 80, auk þýðinga og útgáfa á
fjölda annarra tungumála.
Um tveir tugir Seltirninga á
ýmsum aldri munu lesa alla 50
Passíusálmana.
Sóknarnefnd og Listvinafélag
Seltjarnarneskirkju standa fyrir
þessum flutningi Passíusálmanna.