Málfregnir - 01.11.1992, Side 11
í þessu sambandi merkir ‘lok með-
göngu’, að sá tími sé kominn að búast
megi við fæðingu. Venjulega orða
læknar þetta þannig að konan sé „komin
á tíma“. Ég setti þarna orðið tal. Þetta
orð er að vísu eingöngu notað um kýr en
merkir einmitt ‘sá tími þegar kýrin á að
bera’ og er þá talað um að kýrin sé
komin á tal, að hún eigi tal í næstu viku,
að hún sé komin fram yfir tal o.s.frv.
Viðbrögðin við orðinu voru athyglis-
verð. Þeir sem könnuðust ekki við orðið
áður töldu flestir að það væri nothæft,
jafnt karlar sem konur, og var því þó
ekki haldið leyndu hvernig það væri til
komið. Þeim sem þekktu orðið fannst
það hins vegar ómögulegt, upplýstu m.a.
að konur væru ekki kýr og orð sem hefði
hingað til eingöngu verið notað um kýr
mætti ekki nota um konur. Gilti einu
þótt bent væri á þá staðreynd að hafi
íslenskar konur elskað einhverja skepnu
óslitið um aldir þá væri það kýrin og
margar sennilega ekki átt sælli stundir en
einmitt þegar snemmbæran var komin á
tal.
Nú er það að vísu svo að orðið tal var
nánast íðorð. En ef ekki má hnika til
innihaldi þess eða víkka notkunarsvið
þess lítillega er þá ekki læknum einnig
óheimilt að kalla eitthvað sjúkdóm sem
ekki er venja að kalla svo í daglegu
máli?
Greinarmunur sem liggur að baki íð-
orðum nær því til veruleikans en ekki
málsins. Þegar rætt er um merkingu íð-
orðs snýst umræðan ekki um íðorðið
sjálft heldur þýðingu þeirrar aðgrein-
ingar sem gerð er í veruleikanum. Form-
gerðin sem íðorðaforðinn birtir á því að
þjóna tæknilegum eða vísindalegum
markmiðum. Þekking og skilningur á íð-
orðaforða krefst því alltaf þekkingar á
hlutunum.
Því er oft spurt hvort eitthvert íðorð
sé ekki óþarft, hvort ekki séu til orð yfir
þetta fullboðleg. Slíkar spurningar stafa
venjulega af vanþekkingu á veru-
leikanum að baki íðorðaforðanum; þar
er oft nauðsynlegt að gera greinarmun
sem venjulega er ekki gerður í daglegu
máli.
Orð í daglegu máli geta verið eins
konar íðorð eins og sagt var um tal hér
að framan. Nefna má dæmi á borð við
eik og fura. í ákveðnum tilfellum má
segja að þekking á hlutnum sé einnig
nauðsynleg til skilnings á orðum í dag-
legu máli. Þetta á við þegar málkerfið
býður upp á marga túlkunarmöguleika,
eins og þegar barnið spurði: „Hvað er
vitamálastjóri? Veit hann allt?“
Sum tökuorð eru nánast íðorð þótt
þau séu það ekki í málinu sem þau eru
fengin úr (Coseriu 1978:30). Þannig
mátti einu sinni heyra skeggrætt um
„ombudsman“ þegar sjónvarpið sýndi
myndir frá umræðum í breska þinginu.
Þarna mun hafa verið til umræðu að
koma á fót embætti samsvarandi því sem
hér heitir umboðsmaður Alþingis. Slett-
ur eru þó einkum þessarar náttúru í
fræðilegri umræðu. Þeim sem hafa vanið
sig á þær finnst að þær séu með ein-
hverjum hætti nákvæmari að merkingu
en innlend orð. Þannig finnst sumum
læknum að nákvæmara sé að tala um
„hepar“ en “lifur“. Þó dytti hinum sömu
ekki í hug að segja að Jón Baldvin og
Ólafur Ragnar hafi étið hepar sællar
minningar. íðorðaforðinn er þó ekki
óháður þeim lögmálum sem annars gilda
í málinu, og merking íðorða getur
breyst, víkkað eða þrengst. Einkum ger-
ist þetta þegar íðorð verða hluti af dag-
legu máli eins og t.d. stökkbreyting.
Almenn orðabók getur tæplega látið sér
nægja að geta um fræðilega merkingu
þessa orðs. En breytingin getur einnig
gerst innan starfs- eða fræðigreinar og
endar stundum með því að orðið er tæp-
lega fullnægjandi íðorð lengur. Skil-
greina verður innihald þess upp á nýtt.
Dæmi um þetta er dyspepsia sem upphaf-
11