Vestfirska fréttablaðið


Vestfirska fréttablaðið - 01.06.1985, Blaðsíða 16

Vestfirska fréttablaðið - 01.06.1985, Blaðsíða 16
vestfirska 16 vestfirska TRETTABLADID Samskiptum Sigurðar Sveins Guðmundssonar við umheiminn hafa svo sannarlega verið líkamleg takmörk sett. Hann er ekki aðeins blindur, heldur líka svotil heymarlaus á öðru eyranu. Og í þokkabót eru fingur hans svo tilfinningalitlir að hann getur ekki lært blindraletur. Líklega hefðu einhverjir lagt árar í bát og dregið sig inn i skel sína við slíkar aðstæður. En ekki Sigurður Sveins. Hann er í stöðugum tengslum við um- heiminn og þræðir hans liggja víða. Þrátt fyrir fötlun sína hefur hann tekið virkan þátt í uppbyggingu atvinnulífs og átt hlut að mörgum merkum fyrirtækjum. Eitt þeirra er Rækjuverksmiðjan í Hnífsdal og enn er hann með í ráð- um um stjómun hennar, kominn hátt á 75. aldursárið. Sigurður ásamt konu sinni Aðalheiði Tryggvadóttur. „Þetta var óskaplegt álag á konuna,“ segir Sigurður m.a. í viðtaiinu. Yrði bara helmingi vitlausari ef ég fengi sjónina aftur — Rætt við athafnamanninn Sigurð Sveins Guðmundsson sem hefur verið blindur meiripart ævi sinnar „Já, ég heiti Sigurður Sveins, ekki Sveinn, og er skírður eftir manni sem fórst í snjóflóðunum í Hnífsdal árið sem ég fæddist, 1910. Fyrstu störf sem ég man eftir voru hjá Einari vini mínum Guðfinnssyni sem þá tók á móti fiski í Hnífsdal fyrir Hæsta- kaupstað. Þar sá ég kvenmann við flatningu í fyrsta og eina skiptið á ævinni. Þetta var áður en Einar fór út í Bolungarvík.“ — Hvemig var umhorfs í Hnífsdal á þessum árum? „Það var þá svotil engin byggð uppi á bökkunum, þrjú eða fjögur hús. En um páskana á vorin hurfu eiginlega allir Hnífsdæhngar, því þá komu menn norðan af Ströndum og innan úr Djúpi til að róa. Þá var einungis árabátum fyrir að fara. Það var svo mikið af þessum bátum að ef það var bræla var ekki hægt að komast niður að siónum, það var bátur við bát. A þessum tíma voru sjö versl- anir í Hnífsdal, nú er þar ein verslun.“ RÁÐHERRALEYFI FYRIR T ALST ÖÐINNI Þegar hér er komið sögu heyrist bátur kalla. Sigurður er nefnilega með talstöð uppá veggnum við hliðina á sér, og er hún, ásamt símanum, helsti tengiliður hans við umheiminn. Hann er í stöðugu sambandi við bátana og á vetuma, þegar rækjuvertíðin stendur yfir, vík- ur hann ekki frá stöðinni uns síðasti bátur er kominn í höfn. Með árvekni sinni hefur Sig- urður oft getað aðstoðað sjó- menn í vandræðum. í verkfall- inu s.l. haust, þegar loftskeyta- menn lögðu m.a. niður vinnu, datt þó einhverjum í hug að amast við stöð Sigurðar og sendi inn kæru. Stóð til að stöðin yrði tekin af honum fyrir vikið. Enda þótt hún væri ólög- leg voru sjómenn ekki alls kost- ar sáttir við þá ráðagerð og höfðu samband við Matthías Bjarnason ráðherra út af mál- inu. Matti gerði sér lítið fyrir og gaf út ráðherraleyfi fyrir stöð- inni. „Ég er sennilega eini maðurinn á landinu sem hefur ráðherraleyfi fyrir talstöð,“ seg- ir Sigurður og kímir. HNÍFSDALUR HAFÐI EIG- IN GJALDMIÐIL Sigurður byrjaði verslunar- störf hjá Jónasi Þorvaldssyni í Hnífsdal þegar hann var 14 ára. „Þar voru ekki peningar notað- ir, heldur skrifaðar nótur fyrir öllu; svona tvær nótubækur á dag. Það var voðalega lítið af peningum í umferð þá, þótti gott ef komu inn svona tvær til þrjár krónur yfir daginn. Bakarí Sigurðar Þorvaldssonar bjó þó til sérstaka peninga til að taka brauðin út á og voru þeir kall- aðir brauðpeningar. Verslan- imar tóku allar við þessum peningum. Einstaklingar fengu ekki þessa peninga hjá bakarí- inu heldur urðu verslanirnar að taka þá og láta síðan viðskipta- menn sína hafa. Maður sótti kannski 50 — 60 brauðpeninga á dag út í bakaríið fyrir versl- unina. Það má eiginlega segja að Hnífsdalur hafi þama haft eigin gjaldmiðil.“ Aðalheiður, kona Sigurðar hefur nú haft upp á tveimur brauðpeningum og réttir blaðamanni. Annars vegar stendur „S. Þorvaldsson, 1 brauð,“ hins vegar er mynd af skipi. LÉLEGUR SJÓMAÐUR Um 17 ára aldur varð Sig- urður háseti á bát. „Ég var á- kaflega lélegur sjómaður, bæði sjóveikur og sjóhræddur. Þó var ég dálítið á sjó, en þarf ekki að hæla mér af sjómennskunni. Þegar þetta var vom mótorbát- amir komnir og var megnið af þeim 6 — 8 tonn.“ Þó Sigurður segist ekki þurfa að hæla sér af eigin sjó- mennsku, þá má hann til að hæla formönnunum í Hnífsdal þeim mun meir. „Ég get ekki hugsað mér að það hafi verið til duglegri formenn á landinu,“ segir hann. „Það voru kannski þrír til fjórir bátar saman í vör og tók þrjá til fjóra tíma að hífa þá upp á spili. Fiskurinn var fluttur í land á minni bátum og lóðimar, og ef kulaði af norðan varð að þjóta fram og fara með stærri bátana hérna inn í Sund þar sem smábátahöfnin er núna. Þegar átti síðan að fara að róa urðu formennirnir að byrja á því að vekja íshússstjórann til að taka beituna út, því þá var aldrei beitt fyrr en átti að fara á sjó. Síðan þurfti að hlaupa upp öll hús til að vekja hásetana. Þeir byrjuðu á því að ná beit- unni út og bera hana á bakinu yst út í bug og inn á Stekki. Þegar hálfnað var að beita þaut formaðurinn svo inn á ísafjörð, hvernig sem færðin var, stund- um í klofsnjó. Og svo þegar komið var út eftir, þá var kannski komin bára og ekki hægt að fara fram með lóðirnar og þá var að fara inn á Isafjörð aftur. Svona gekk þetta kannski fram og aftur. Þetta var alveg óskaplegur þrældómur. Það voru fáir dagar sem menn voru ekki klofblautir við þetta.“ TOGARALÍF 1929 fór Sigurður til Reykjavíkur og var þar á línu- veiðara sem Hænir hét. Vorið 1930 réðst hann svo á togarann Kára Sölmundarson sem lagði upp í Viðey. „Mér fannst þetta afskaplega lélegt sjóskip. Ég man að einu sinni var verið að byrja að keyra, og ekkert að veðri, en dálítið þungur sjór. Ég var að vefja í nálar við keisinn þeg- ar þaulvanur háseti gengur framhjá mér og segir: Þú skalt ekki standa þama þegar farið er að keyra. Af hvurju? segi ég. Það getur verið að hann taki sjó á sig, segir hann. Ég hélt hann væri að gera grín að mér, við- vaningnum. En ég klára að vefja í nálina og er rétt kominn aftur fyrir homið til að fara inn í eldhúsið þegar hann fór svo- leiðis á kaf og nálarkassinn sem ég var að láta upp á bakborðs- megin var kominn stjómborðs- megin. Svona skáru þau sig niður þessi skip. Og ég hélt það væri bara verið að gera grín að mér, en álpaðist þó til að fara. Annars væri ég ekki að tala við þig núna.“ Á TUNNUFLEKA YFIR I ARNARDAL Að togaravistinni lokinni var Brauðpeningamir sem voru „alþjóðlegur“ gjaldmiðill í Hnífsdal í byrjun aldar- innar.

x

Vestfirska fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vestfirska fréttablaðið
https://timarit.is/publication/1149

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.