Feykir


Feykir - 16.12.1987, Blaðsíða 16

Feykir - 16.12.1987, Blaðsíða 16
16 FEYKIR 42/1987 19. Hagyrðingaþáttur Heilir og sælir lesendur góðir. I byrjun þessa þáttar vil ég geta þess að vegna nálægðar jólanna mun þetta vera síðasta blaðið sem gefið verður út á þessu ári. Þó svo að birst hafi vísnaþáttur í síðasta blaði hefur ritstjórinn verið svo vinsamlegur að bjóða okkur vísnaáhugamönn- um gott pláss í þessu blaði og vil ég þakka fyrir það. Þá er að snúa sér að vísunum og er þar fyrst til að taka mál sem hefur orðið mörgum yrkisefni en það er spumingaþáttur Omars Ragn- arssonar, „Hvað heldurðu?”. Ekki ætla ég að fjölyrða um þær niðurstöður sem urðu hér í okkar kjördæmi en bið hagyrðinga og alla aðra að hugleiða það að í þessu tilfelli varð annar hvor að tapa og ekki er að efast um að Skagfirðingar hafa gert það sem þeir gátu og meira skal ekki ætlast til af neinum. En það er Valnastakkur sem á þrjár fyrstu vísurnar og hefur honum eins og mörgum öðrum ekki líkað niðurstaðan. Orðlausir skagfirskir öðlingar sátu, örlaganornin í grimmdinni vex. Með siglfirskri aðstoð svarað þeir gátu sextán á móti þrjátíu og sex. Að sigra þá húnvetnsku varla er von, vist mínir sveitungar stranda. Sem burtíluttur skagflrskur bóndason mér blöskrar sú fátækt í anda. Þó skáldið frá Bólu skert hefði kjör, skynsemi birtu hans sálmar. Ættmenni hans hafa ennþá svör, það er augljóst með séra Hjálmar. Gamalt máltæki segir að tímarnir breytist og mennimir með en ekki hefur Þormóði Pálssyni þótt nóg að gert í því efni í Skagafirði þegar hann orti þessa vísu. Flýja landsins fornu vættir, flest er hverfult hér á jörð. Þó er víst að Öngulsættir ennþá byggja Skagafjörð. Þá fáum við Húnvetningar heldur lága einkunn hjá Þormóði í næstu vísu. Hrörnar tímans tönnum háður traustur stofn, en auðn í kring. Líkt og nú var aldrei áður illa setið Húnaþing. Ekki veit ég um hvern næsta vísa er ort, en held að það muni ekki hafa verið Húnvetningur. Höfundur er Freysteinn Jónsson. Til glæpa hefur lítið lagt og lesti fyrir sór’ann. Aldrei sagð’ann alveg satt en ósköp nærri fór’ann. Næst koma hér nokkrar vísur sem ég treysti mér ekki til að segja um fyrir víst hver er höfundur að, og væri gaman að fá upplýsingar um höfunda frá ykkur lesendur góðir ef þið kannist við vísurnar. Fyrsta vísan er trúlega úr Skagafirði. Yrkja fagurt en í dag ýmsir Skagfirðingar. Geymir sagan ljóð og lag, lifi hagyrðingar. Önnur vísa kemur hér af svipuðu tagi. Milli tanna laus og létt leikur tunga vökur, þegar hún er að ríma rétt rammíslenskar stökur. Ein kemur hér enn sem ég veit ekki höfund að, en eftir vísunni að dæma hefur hann verið sveitamaður, að minnsta kosti í anda. Ekki breyta árin mér, öls þótt neyti glaður. Guð einn veit það að ég er alltaf sveitamaður. Um næstu vísu, sem mér líst að mörgu leyti vel á er það að segja að ég er ekki viss um að hún sé rétt með farin og væri gott að fá upplýsingar um það svo og höfundinn. Engin sérstök er mér kær, eru þær viðmótsþíðar. Atti samt með einni í gær unaðsstundir blíðar. Ein vísa kemur hér enn, sem er Ijómandi góð, en það sama á við um hana að ég er ekki viss um höfundinn. Það er vandi að vara sig víða á gleðifundum. Freistingarnar fyrir mig fæti bregða stundum. Oft þegar ég les gamlar vísur rek ég augun í orð og ýmsar meiningar sem ég minnist ekki að hafa heyrt áður. Því miður er nú líklega svo að margt slíkt hverfur með eldri mönnum. Næsta vísa sem er að mínum dómi vel gerð er gott dæmi um þetta. Höfundur hennar er Jón Þorsteinsson frá Arnar- vatni. Fer um ása þoku þan, þrengir lás að blómi, vindar blása viðutan, væla hásum rómi. Okkur sem endalaust getum verið að grúska í vísum og þeirra tildrögum þykir eflaust flestum vænt um að heyra af félagsskap manna við óðardísina. Ragnar Ingi Aðalsteinsson er höfundur að næstu vísu. Einn til fundar oft ég kem óðardís að hitta. Efalaust ég enda sem andleg fyllibytta. Eg hef áður í þessum þáttum birt vísur eftir hinn snjalla hagyrðing Harald Hjálmarsson frá Kambi og látið í ljós áhuga á að komast yfir meira af slíku. Nú hefur ræst úr því og kemur hér næst vísa eftir Harald og er hann eins og oft áður léttur í máli. Augafullur oft ég var á ævi minnar vegi. I því ég af öðrum bar eins og nótt af degi. Lengi hefur það verið æði misjafnt hvað góðar veitingar væri hægt að gera sér vonir um að fá á bæjum. Haraldur kveður svo. Eitt er sem ég ekki skil utan Morgunblaðið, að þeir sem fara í Grófargil geta varla staðið. Þriðja vísan kemur hér eftir Harald en ekki veit ég hvern hann er þar að tala við. Hátt og hvellt er á þér enni ekki er þér um málið tregt, en að þú sért mikilmenni, mér finnst það nú ólíklegt. Eitt sinn hittust þeir á götu í Reykjavík, Guðmundur Jósafatsson frá Brandsstöðum í Blöndudal og Kristinn Bjarnason frá Asi í Vatnsdal. Tóku þeir tal saman en þegar leiðir skildu orti Kristinn þessa vísu. Halda velli húnversk strá hret þó skelli í góminn, þar til elli auðnargrá á þeim fellir dóminn. Eins og margir vita orti Kristinn margar fallegar vísur og væri gaman að geta gert honum betri skil síðar, og þá ekki síður syni hans Asgrími. Langar mig til að biðja lesendur að hafa mig í huga með það. Önnur vísa kemur hér eftir Kristinn. Jafnan hlýnar hugur minn, heiminn sýnir glaðan. Er ég mína æsku finn, ekkert tínist þaðan. Næst kemur hér vísa sem svipar mjög til vísu Kristins. Höfundur hennar er Björn Jónsson frá Haukagili. Mörg þó gleymist mannleg þrá, minja geymast sjóðir. Leitar dreyminn andi á æsku- og heimaslóðir. Á síðastliðnu hausti lést Sigurður Laxdal, hinn dyggi starfsmaður í Holtsmúla í Skagafirði. Hér koma næst tvær fallegar vísur sem ortar eru í minningu hans. Höfundur er Hákon Aðalsteinsson. Taktfastur tíminn líður, teljandi æviskeið. Dauðinn við brúna bíður, bendir þér eina leið. Minnast þín stórbýli og stekkur, þar stóðst þú þinn heiðursvörð. Tæpast mun traustari hlekkur tengdur við íslenska jörð. Eins og lesendur vita hef ég áður látið í ljós aðdáun mína á því fólki sem ort hefur vísur skömmu áður en það kvaddi þennan heim, sem gefa í skyn þau fyrirhuguðu vistaskipti. Hér kemur ein slík vísa. Höfundur hennar er Haraldur Stefánsson áður bóndi í Brautarholti, í Skagafirði. Förlast ört mitt ferðastjá, fangbrögð kenni af elli. Bráðum verður breyting á, blæju niður felli. Jóhann Garðar Jóhannsson frá Öxney er einn af mörgum góðum hagyrðingum sem ég hef heyrt vísur eftir. Hér koma þrjár vísur eftir hann. Mér er í runnið merg og blóð mínar kunnu sárabætur. Því af munni yrki óð andvökunnar löngu nætur. Ég hef flúið fjöldans leið, farin trú að eldar brenni. Viðnámsfúið fetar skeið ferðalúið gamalmenni. Laus við frera fjörður minn, frið þér beri vættir góðir. Það mun vera í síðsta sinn sem ég fer um æskuslóðir. Þegar Guðrún Árnadóttir frá Oddsstöðum í Borgarfirði frétti lát Jóhanns Garðars orti hún þessa vísu. Garðar hefir helju gist, hverfur ei sú vissa. Lengi á íslensk orðalist einhvern til að missa. Magnús Jónsson símstióri á Grenivík hlýddi á dánar- tilkynningar lesnar í útvarpi og orti þá. Fljótmælt kona fregnavönd fréttir segja kunni. Andaðist fyrir okkar hönd einn úr fjölskyldunni. Meðan ég hef verið að skrifa þennan þátt hef ég annað slagið verið að biðja Kára frá Valadal að lofa mér að heyra vísur eftir hann sem ég mætti setja í þáttinn. Það endar með því að Kári verður við bón minni en þegar mig langar til að vita um hvern vísan sé neitar hann að segja nokkuð um það. Ástarleiki unir við, eld að kveikir vonum. Leggur hreykinn lífs á mið lítið skeikar honum. Þegar ég bið svo Kára að gera fallega jólavísu færist hann undan því en þegar ég segi honum að það megi til að minnast á þessa góðu tíð og að nú fari blessuð sólin bráðum að hækka á lofti, kemur vísa og þakka ég honum vel fyrir hana. Hlákan bræðir fönn úr fjöllum, faðmur sólar að oss snú. Guð á hæðum gefi öllum góða jóladaga nú. Lokavísan að þessu sinni er eftir Torfa Sveinsson frá Hóli í Svartárdal. Mun hann hafa skrifað hana á jólakort fyrir nokkuð mörgum árum síðan. Drottinn á dýrlegum stól, dáður vitur og hár, gefi þér gleðileg jól, gæfuríkt komandi ár. Þá er nú góðu vinir nóg kveðið að sinni. Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og þakka fyrir ánægjuleg samskipti á árinu sem nú er senn að kveðja og vænti framhalds á því nýja. Verið þið sæl að sinni. Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum 541 Blönduósi sími 95-7154

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.