Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2008, Blaðsíða 21
á dreif.20 Á undan Júdit í Reynistaðarbók fer kafli úr Daníelsbók21 og eru
þessar þýðingar ekki varðveittar annars staðar svo vitað sé. Þær eru dæmi um
forna íslenska biblíutexta sem ekki hafa verið almennt kunnir og það er ekki
útilokað að enn eigi eftir að koma fram áður óþekktir textar eða textabrot
úr norrænum miðaldaþýðingum biblíunnar. Það er reyndar mikil heppni að
Júdítarþýðingin skuli vera svo til heil, því skrifarar Reynistaðarbókar höfðu
annars þann sið að stytta verulega alla texta sem þeir tóku upp í handritið.
Þetta bendir til þess að þeim skrifara sem skrifaði Júdít upp hafi þótt mik-
ils um vert að koma sögunni í heild sinni á framfæri við sína áheyrendur
og styður þá hugmynd að bókin hafi verið skrifuð fyrir nunnuklaustrið á
Reynistað. Júdit verður að teljast heppileg fýrirmynd þeirra kvenna sem þar
dvöldu - hún er fögur ekkja, guðhrædd, skírlíf og hugrökk:
Júdit bjó þar síðan lengi í borginni og hafði sér gera látið einn leyniligan
kofa í hinum efstu húsum sínum og var þar með þjónustumeyjum sínum.
Hún hafði hárklæði um lendar sér og fastaði hvern dag nema þváttdaga og
kirkjudaga og hátíðir Gyðinga. Hún var kvenna vænst. [...] Hún var hin
ágætasta kona í öllum Gyðingalýð, því að hún óttaðist guð harðla mjög. Engi
maður mælti til hennar illt orð.22
Ef Reynistaðarbók var bók fyrir frómar konur þá var handritið AM 335
4to ætlað allt öðrum áheyrendum - það lítur út fyrir að vera strákabók! í
því eru sögur af kyni fornaldar- og riddarasagna: Sturlaugs saga starfsama,
Gibbons saga, Drauma-Jóns saga og sjö styttri frásagnir, svokölluð ævintýri.
En þar er líka að finna biblíutexta úr Stjórn III: söguna af Samson og
Dalílu úr Dómarabókunum. Söguhetjur allra þessara frásagna eru ungir
menn sem gjalda kynna sinna við slóttugar konur. I ævintýrinu Af þremur
kumpánum segir ungur aðalsmaður til að mynda frá því að unnusta hans,
sem er dauðvona, hyggist láta leggja hann með sér í gröfina svo engin fái
að njóta þess sem hún ann mest. Sturlaugur hinn starfsami þarf að etja
20 Svanhildur Óskarsdóttir. „The Book of Judith: A medieval Icelandic translation,“ Grípla XI
(2000): 79-124, 85-94.
21 Sögurnar af Daníel og Júdít falla inn í rétta tímaröð í Reynistaðarbók miðað við rammann sem
skrifararnir gefa sér, en það eru hinir svokölluðu heimsaldrar, sjá Svanhildur Óskarsdóttir, „Um
aldir alda. Veraldarsögur miðalda og íslenskar aldatölur," Ritið 3/2005: 111-133.
22 Svanhildur Óskarsdóttir, „The Book of Judith," 107. Staðfesting er hér færð til nútímahorfs.
19