Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2008, Qupperneq 26
hann var eðlilega áhugamaður um nýjungar í trúarkveðskap og bókmennt-
um. Merkileg er kvæðabók hans AM 622 4to þar sem bæði er að finna
kaþólsk kvæði og lúterska sálma.35 Og í öðru handriti frá hans hendi, AM
617 4to, sem er líklega frá 7. áratug 16. aldar, standa saman á bók kaflar úr
Stjórn III og þýðingar Gissurar á spekiritunum auk texta Jobsbókar sem ekki
er víst hver hefur þýtt. Það handrit sýnir því svart á hvítu þá viðleitni að
safna saman biblíutextum, nýjum sem gömlum, sem virðist hafa einkennt
þá Skálholtsmenn.36
Upp úr miðri 16. öld má því segja að stór hluti biblíunnar hafi legið
fýrir í íslenskri þýðingu — sumir textanna hafa verið glænýir og endurspeglað
mál, stíl og hugmyndafræði 16. aldar en aðrir yfir 300 ára gamlir og til
orðnir af annars konar þörf en þeirri sem rak siðbótarmenn áfram. Það beið
Guðbrands Þorlákssonar að safna þessu efni saman, bæta við fleiri þýðingum
og fella allt saman í fyrstu biblíu íslendinga. Guðbrandur notaði þær
þýðingar Odds sem fyrir lágu og hann tók einnig upp þýðingar Gissurar á
Spekiritunum.37 En við höfum ekki fulla vitneskju um þýðendur Guðbrands
og jafnframt skortir á að samband Guðbrandsbiblíu við fyrri þýðingar sé
nægilega vel kannað. Ian Kirby benti á dæmi um fornlegt orðalag í biblíunni
sem á sér samsvörun í 13. aldar þýðingum en nefndi jafnframt að full
þörf væri á að taka þau tengsl til frekari athugunar.38 Nú nýverið hefur
Jón Friðjónsson athugað samband Stjórnar við Guðbrandsbiblíu og benda
rannsóknir hans til þess að þýðendur Guðbrands hafi getað haft Stjórn I
og III til hliðsjónar við vinnu sína. Jón hefur hins vegar ekki fundið nein
tengsl milli texta Stjórnar II og Guðbrandsbiblíu.39 Þá hafa Guðrún Kvaran
og Stefán Karlsson unnið að samanburði Nýja testamentisþýðingar Odds og
35 Guðrún Nordal, „Handrit, prentaðar bækur og pápísk kvæði á siðskiptaöld," Til heiðurs
oghugbótar. Greinar um trúarkveðskapfyrri alda, ritstj. Svanhildur Óskarsdóttir og Anna
Guðmundsdóttir (Reykholt: Snorrastofa, 2003), 131-143.
36 Jakob Benediktsson, „Et overset hándskrift af Stjórn,“ Festskrift til Finn Hodnebo 19.
desember 1989, ritstj. Bjorn Eithun o.fl. (Oslo: Novus forlag, 1989), 38-45.
37 Sjá t.d. Einar G. Pétursson, „Bókaútgáfa á biskupsstólunum,“ Saga biskupsstólanna,
ritstj. Gunnar Kristjánsson og Óskar Guðmundsson (Akureyri: Bókaútgáfan Hólar,
2006), 569-605, 581-583 og rit sem þar er vísað til.
38 Kirby, Bible Translation in OldNorse, 70-71.
39 Jón kynnti þessar niðurstöður sínar í erindi á 22. Rask-ráðstefnu íslenska málfræðifélagsins
og Málvísindastofnunar Háskóla Islands, 26. janúar 2008.
24
i