Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2008, Page 29
Dr. Gunnar Kristjánsson
Þýðing og stíll nýju biblíuutgáfunnar
Ný biblíuþýðing er tímamótaviðburður hér á landi. Að þessu sinni hefur
útgáfan vakið talsverða athygli og talsvert verið fjallað um Biblíuna og
þýðinguna. Engan þarf að undra að menn hafi ekki verið á eitt sáttir um
eitt og annað, svo sem um þýðinguna sjálfa, um eitt og annað í textanum,
um málfar, málsmekk eða málsnið. Einstök hugtök, orð og orðatiltæki
hafi vakið spurningar einhverra. Mörg sjónarmið koma til umfjöllunar í
þessari umræðu, ýmist eru þau grundvölluð á guðfræðilegum forsendum
eða trúarlegum, stundum á málfræðilegum eða málfarslegum og stundum
á forsendum réttlætis eða jafnréttis. Fljótt á litið virðist sem umræðan hafi
einkum beinst að Nýja testamentinu, ég fæ ekki annað séð en menn séu
tiltölulega sáttir við Gamla testamentið.
Ég verð þó að viðurkenna að ég hef ekki fylgst með umræðunni sem
skyldi, þó sá ég þátt í Sjónvarpinu þar sem tveir prestar skiptust á skoð-
unum og var annar fylgjandi þýðingunni og sáttur við hana en hinn fann
henni allt til foráttu og hét því að opna aldrei Biblíu tuttugustu og fyrstu
aldar. Áreiðanlega brást Sjónvarpið ekki að þessu sinni í afþreyingar- og
skemmtihlutverki sínu.
Því má ekki gleyma að margir bera ábyrgð á þýðingarferlinu, m.a. þeir
sem nota Biblíuna, þeir sem flytja boðskap hennar og láta sér annt um
hana. Þýðingarnefnd gerði sér far um að vinna fyrir opnum tjöldum og leyfa
öllum að fylgjast með störfum sínum. Hún gaf allan textann út jafnóðum
og hann lá fyrir, gaf út á bók einu sinni á ári það sem þá lá fyrir eða því
sem næst og óskaði eindregið eftir athugasemdum. Þær reyndust hins vegar
sjaldgæfar eins og keldusvínið og fáar rötuðu inn á borð þýðingarnefndar.
Þýðingarnefnd stóð einnig fýrir fundum vítt og breitt um landið, í einu
stærsta prófastsdæmi landsins, Kjalarnessprófastsdæmi kom einn til að eiga
viðræður við formann þýðingarnefndar fýrir nokkrum árum. Ahugaleysi
kirkjunnar manna var með öðrum orðum talsvert umhugsunarefni.
27