Skagfirðingabók - 01.01.1988, Blaðsíða 171
„FRÍ VIÐ SLÓRIÐ FINNBOGI"
1920 setti hann á 15 ær, einn hrút, tvö hross fullorðin og eitt
trippi þrevett. Haustið 1923, síðasta haustið sem hann lifði,
telur hann fram 12 kindur til gangnaskila, en þá voru 11
kindur í gangnadagsverki. Bogi hafði bústofn sinn í Gerða-
húsum, sem stóðu skammt sunnan við Gautastaðatúnið.
Heyskap sótti Bogi í fjallið upp af fjárhúsunum, sló lautir
upp með Hakahrygg, allt upp undir brún, svo og suður og
upp í Skjaldarskál. Þarna er allbratt, einkum ofantil, en
greiðfært og heygott. Einnig sló hann í kringum fjárhúsin
og suður á Leiti, sem liggur norðan við Þorgautsstaðaána.
Grýtt var víða á Leitinu, enda sumt af því gróin skriða,
framburður úr ánni. Haft var á orði, að Bogi væri laginn að
beita ljánum, þó grýtt væri undir, og léti liggja fjarri; kærði
sig ekki um mosa og ljámýs í heyið. Ekki setti Bogi hey sitt
saman í sæti, a.m.k. þar sem brattinn var mestur, heldur batt
það í litla bagga jafnóðum og þornaði og lét þá velta niður.
Tíndi hann þá svo saman á eftir og bar á bakinu heim í tóft.
Sama háttinn hafði hann á með heyið kringum húsin og
suður á Leitinu. Aldrei flutti hann heyið heim á hestum,
meðan hann var á Gautastöðum.
Bogi var hinn mesti þrifa- og hirðumaður. Hann fóðraði
skepnur sínar mjög vel og hafði góðan arð, naut þess að
sýsla við ær sínar og hesta; að sögn alltaf vel birgur af heyj-
um og miðlaði oft til þeirra, sem komust í þrot. En hann
vildi fá borgað í heyi aftur. Vitanlega gat ekki verið um
verulegt magn að ræða, til þess voru engin efni. „Ég verð nú
líklega að hugsa fyrst um hann Ólaf“ er eftir honum haft,
þegar einhver falaði af honum hey, og var reyndar sjálfgefið.
Hann flutti með Ólafi og Guðnýju í Gautastaði, eins og
áður er frá skýrt, hafði þar skjól og góða aðstöðu með
skepnur sínar, var efnalega sjálfstæður og frjáls ferða sinna
og athafna.
Bogi hirti alla hausa og dálka af sjávarafla sínum, barði þá
og reif niður handa hestum sínum og ám og sparaði þannig
169