Skagfirðingabók - 01.01.1988, Blaðsíða 185
SUMARDVÖL í SVEIT
til mín, og þótti mér það nokkur huggun. Hann skreið upp
í rúmið og lagðist á sængina mína. Eg strauk honum, unz
hann fór að mala. Var ég kannski að eignast góðan félaga
þarna? hugsaði ég og lokaði dyrunum. Skömmu síðar kom
Margrét inn til mín. Hún var að sækja köttinn og sagði:
„Þarna ertu þá. Hér áttu ekki að vera, Brandur minn,
komdu fram í kassann þinn.“ Eg herti upp hugann og bað
hana að lofa mér að hafa Brand hjá mér, svo að mér leiddist
ekki eins mikið. Hún sagði, að hann þyrfti að komast fram
til að gera þarfir sínar. Eg sagðist skyldu hafa rifu á dyrun-
um. Við náðum samkomulagi, ég og Margrét, en þrátt fyrir
Brand grét ég mikið þetta kvöld og koddinn varð votur af
tárum. Að síðustu las ég allar þær bænir, sem mamma hafði
kennt mér og féll að lokum í svefn.
Þegar ég vaknaði, var orðið áliðið. Kötturinn Brandur lá
til fóta mér ofan á sænginni. Eg fór að tína á mig spjarirnar,
gekk fram og hitti Margréti. Hún spurði, hvernig ég hefði
sofið fyrstu nóttina. Eg lét sæmilega' yfir því. Hún bar á
borð fyrir mig hafragraut og slátur og sagði, að svo skyldi
ég fara út, líta í kringum mig og skoða nánasta umhverfi. Eg
lét ekki segja mér það tvisvar, snaraðist fram og gekk einn
hring í kringum bæinn. Þetta var lítill bær, hlaðinn út torfi
og grjóti. Aðeins sást til eins bæjar, og var það Djúpidalur.
Þar var stórbýli, því komst ég að síðar. Eg rölti áleiðis til
árinnar, sem rann milli bæjanna. Þar voru fallegar klappir.
Er ég hafði skammt gengið upp með ánni, rakst ég á
hvamm, grasi gróinn og mjög snotran. Hér væri ekki ama-
legt að reisa sér bú, hugsaði ég, já, hér ætlaði ég að byggja
mér bæ og fjárhús.
Allt í einu sá ég eitthvað dökkleitt, sem lá í skorningi
milli tveggja þúfna. Þegar ég fór að huga nánar að þessu,
kom í ljós dökkleitt lamb, sem sýnilega var nýfætt í þennan
heim. Eg fór að þukla það og fann lífsmark, en mikið
óskaplega var því kalt. Sá ég nú ekki annað ráð vænna en
183