Skagfirðingabók - 01.01.1997, Síða 36
SKAGFIRÐINGABÓK
ir: ein frá Sauðá, ein frá Sjávarborg, ein frá Geirmundarstöðum,
ein frá Eyhildarholti, ein frá Brennigerði. Það var þá lítilshátt-
ar útræði héðan haust og vor og svo uppsátur þeirra er sóttu til
Drangeyjar héðan að framan. Eigi að síður var hér töluverð
umferð því vegirnir vestur á Skagaströnd, út á Skaga og Reykja-
strönd lágu um Sauðárkrók og móana hér fyrir ofan. Sauðár-
krókur var löggiltur verzlunarstaður 15. apríl 1857.
Bygging Saubárkróks
Árið 1870 var fyrsta íbúðarhúsið byggt. Það gerði Árni Árna-
son járnsmiður, bróðir Sæmundar sem lengi bjó í Víkurkoti,
afa Sæmundar á Dúki. Annar bróðir Árna var Magnús trésmið-
ur í Reykjavík. Sonur Árna er Friðrik Árnason formaður sem
hér hefur lengst af átt heima síðan hann fluttist hingað misser-
isgamall með föður sínum. Kona Árna var Sigríður Eggerts-
dóttir, systir Guðnýjar konu Jóns hreppstjóra og þeirra systkina.1
Árni lærði járnsmíði í Kaupmannahöfn og eftir heimkomu
sína byrjaði hann fyrst austan fjarðarins, en hafði ekki nægilegt
að starfa þar. Hann færði því byggð sína hingað bæði af eigin
hvötum og áeggjun frænda og vina hér vestan Vatna. Hann
byggði bæ sinn þar sem nú er hús Nikódemusar Jónssonar, en
smiðjan var þar sem nú er Hjaltastaður, sunnan við hús séra
Hálfdanar [Guðjónssonar]. Teóbald sonur Árna reif þennan bæ
1 Hér er sagt frá ýmsum. Sæmundur Árnason bjó í Víkurkoti í Blönduhlíð
1889—1900. Sæmundur Ólafsson, Sæmundssonar, bjó á Dúki í Sæmundarhlíð
1889-1913- Friðrik Árnason fæddist 1869 í Hofsósi, en bjó lengst af á Sauð-
árkróki; lézt í elliheimilinu Skjaldarvík í Eyjafirði 1958. Margrét systir hans
var eldri, fædd 1868. Ólafur Teóbald, Ragnheiður Sigfríður og Árni Eggert
voru yngri. Guðný Eggertsdóttir (1842-1930) var seinni kona Jóns brennis,
sem svo var kallaður eftir þeirri jörð sem hann bjó lengst á, Brennigerði.
Hann var Guðmundsson, fæddur 1843, dáinn 1938, fyrsti hreppstjórinn í
bænum eftir að Krókurinn varð sérstakur hreppur árið 1907. Þau Guðný áttu
tvö börn, og giftist Elínborg dóttir þeirra Tómasi Gíslasyni kaupmanni á
Króknum. Ritstj.
34