Skagfirðingabók - 01.01.1997, Side 52
SKAGFIRÐINGABÓK
þátt Hallgríms Jónssonar „læknis“ árið 1931 (endurprentaðan í
Heimar horfins tíma, 1989), en Gunnlaugur Jónsson og Tómas
Tómasson liggja enn óbættir hjá garði.2
Og kemur nú að þeim viðtakendum Heimskringlu I—III,
fjórum talsins, sem eftir eru á sýslumannslistanum. Þeir sinntu
hvorki fróðleik í rituðu máli né kveðskap, svo orðlagt yrði. Þrír
þeirra bera Jóns-nafn:
Jón Guðmundsson átti ætt að rekja til Eyjafjarðarsýslu. Meðal
fjögurra systkina hans var Vatnsenda-Rósa. Jón bjó lengi í
Fljótum eftir 1821, á Krakavöllum og Stóru-Þverá, en fór 1850
að Barði til sonar síns, séra Jóns Norðmanns, og lézt á heimili
hans í febrúar 1866, á sjötugsaldri.
Þótt Jón á Krakavöllum legði lítið til þjóðlegra fræða með
penna sínum, sagði hann ef til vill prestinum á Barði margt
forvitnilegt. Séra Jón Norðmann skráði fjöldann allan af þjóð-
sögum og munnmælum, sbr. syrpuna Allrahanda, og sendi Jóni
Arnasyni sem tók ýmislegt af því upp í safn sitt. I Allrahanda
(fyllri útgáfa í umsjá Finns Sigmundssonar, 1946) tengir séra
Jón föður sinn á einum stað beinum orðum við sögu; lesanda
grunar að prestur hafi miklu víðar haft hann að heimildarmanni,
en ekki nefnt það fyrir hæversku sakir.
Jón Pálsson í Kýrholti (sjálfur ritaði hann bæjarnafnið Kíl-
holt, sem er gömul nafnmynd) lézt 1838. Hann bjó alltaf, frá
1814 til dauðadags, í Kolbeinsdal og Viðvíkursveit, eftir 1829
í Kýrholti. Jón gat sæg af börnum; kunnast af þeim, og víst
hið eina sem gekk menntaveginn, var Páll prestur í Hvammi í
Laxárdal og á Höskuldsstöðum á Skagaströnd. Séra Páll þykir
vera í hópi fremstu manna sem rituðu þjóðsögur handa Jóni
Árnasyni.
2 Nú á seinni dögum er Tómasar Tómassonar helzt getið í Skagfirðingabók
1984, inngangi Gísla Magnússonar að fróðlegri ritsmíð Tómasar um fiski-
veiðar í Skefilsstaðahreppi, svari við fyrirspurnum Jónasar skálds Hallgríms-
sonar vegna Islandslýsingar.
50