Skagfirðingabók - 01.01.1997, Page 73
ÞETTA OG HITT ÚR SKAGAFIRÐI
harðindi hófust vorið 1783 og gætti áhrifa þeirra um allar byggð-
ir hin næstu missiri. Veturinn 1783-84 „féll mikill peningur í
Skagafirði sem annars staðar og ógurlegur grúi hesta, því að
þeir voru áður mjög margir. En eftir það tókst mannfallið með
mörgum hungursóttum, þá er áður var allt etið, sem tönn festi
á“ ritar Espólín í Sögu frá Skagfirðingum.
Sé þessu næst gengið inn í „prestagarðinn" á Miklabæ og
síðan hús úr húsi, í fylgd uppskriftarmanna, getur meðal ann-
ars að líta allan stofubúnað, sængurbúnað og eldhúsbúnað staðar-
hjóna. Heimili þeirra er allríkmannlegt, eins og vænta mátti,
því bæði voru komin af heldra fólki og brauðið meðal hinna
tekjumeiri í prófastsdæminu. Þar var, svo eitthvað sé nú til
dæma talið, borðbúnaður jafnt af silfri sem tini, og vínstaup af
silfri gjört átti prestur; líka tvö parruk, eins og sæmdi fyrir-
manni á rókókó-tímanum, annað nærri nýtt, „yfirskorið",16
hitt eldra.
Uppskriftargjörðin leiðir í ljós, að séra Oddur átti töluvert af
prentbókum, sennilega vænt safn eftir því sem gekk og gerðist
í klerkastétt þeirrar tíðar, hvað þá meðal almúgans, þegar varla
sáust á heimilum aðrar skruddur en nauðsynlegustu húslestra-
bækur og annað guðsorð (rfmaðir sálmar, rímaðar bænir), en
handskrifaðar sögur og rímnaflokkar þó sums staðar í tilbót.
Bækur séra Odds þöktu nokkurt veggrými, hafi þær verið
hafðar uppi allar saman, en ekki niðri í kistum og koffortum.
Nú herma heimildir, að Oddur prestur væri frekar lítill and-
ans maður. Hvað um það, bækur átti hann ekki fáar, erlendar
og íslenzkar, einkum þó erlendar. Ef til vill eignaðist hann
margar þeirra við erfðaskipti eftir föður sinn, Gísla biskup
16 Hér mun átt við parruk sem var hvorki jafn þykkt né jafn sítt og hin eldri
lokkaparruk; nýrri tízka bauð, að gerðarhárið væri klippt yfir hvirflinum
(væri ,,yfirskorið“) og lokkar í vöngum næðu ekki lengra niður en sem næmi
hálsmáli, jafnvel enn styttra, ættu ungir menn í hlut.
71